Leita í fréttum mbl.is

Trójuhestur frá SA í sjávarútvegsmálum

sæfari og tálknfirðingur
Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram „sáttatillögu“ í sjávarútvegi. Eins og allt annað sem kemur frá SA/LÍÚ er um Trójuhest að ræða. Þessi svokallaða „sáttatillaga“ þeirra gengur í rauninni út á það að breyta kerfinu þannig að auðveldara verði fyrir útgerðarmenn að hrifsa til sín enn stærri hluta af auðlindaarðinum.
Það er með ólíkindum hvað SA/LÍÚ eru óforskammaðir að setja fram svona tillögu og kalla hana „sáttatillögu“. 

Lykilatriðið í tillögu SA/LÍÚ er að veiðigjald miðist í framtíðinni við hagnað útgerðarinnar í stað þess að miðast við reiknaða framleigð hennar. Hugsunin á bak við þetta hjá SA/LÍÚ er að þá geta útgerðarmenn komist hjá því að greiða veiðigjaldið með því að skuldsetja fyrirtæki sín upp í topp.

Það er kannski best að útskýra þetta með dæmi. Segjum að útgerð ráði fyrir kvóta sem gefur af sér 1.000 m.kr í tekjur og kostnaður við rekstur útgerðarinnar (laun, aðföng, o.s.fr.) séu 500 m.kr.
Þá eru 500 m.kr eftir sem „verg hlutdeild fjármagns“ (aðallega arður af yfirráðum yfir kvótanum). Ef fyrirtækið er óskuldsett er hagnaður þess fyrir skatta 500 m.kr. En útgerðin gæti hagrætt málum með því að taka út svo sem 6.000 m.kr lán sem ber 450 m.kr vexti árlega.
um borð í sæfara
Þá væri hagnaðurinn einungis 50 m.kr og veiðigjaldið því miklu lægra. Útgerðin gæti síðan einfaldlega greitt þessar 6.000 m.kr út sem arð. Með þessu móti gæti útgerðin komið því í kring að nánast allur auðlindaarðurinn rinni áfram til útgerðarmannanna.

Einhver kann að segja: En bankarnir myndu aldrei veita slíkt lán. Það hafa þeir hins vegar gert fram að þessu. Útgerðarmenn hafa leikið þennan leik í mörg ár. Nú á bara að tryggja að unnt verði að gera það áfram. 

Framganga bankanna er reyndar með ólíkindum. Þeir tala um hættuna á því að þeir tapi ef kerfinu verður breytt. En samt leyfa þeir útgerðarfyrirtækjum að greiða milljarða í arð.
Væri ekki nær að skikka fyrirtækin til þess að lækka skuldir sínar og búa þannig til borð fyrir báru? Eðlilegir viðskiptalegir hagsmunir myndu kalla á slíkt.

Það eru einungis tvær leiðir til þess að þjóðin geti njótið sanngjarns hluta af auðlindaarðinum (svo sem 50% á móti útgerðarmönnunum): 

bátur
1) Fyrning aflaheimilda um 8% á ári og uppboð til langs tíma. 

2) Veiðigjald sem miðast við 50% af vergri hlutdeild fjármagns að frádreginni árgreiðslu vegna þeirrar fjárfestingar sem útgerðarfyrirtækin ráðast í. 

Á árinu 2009 var verg hlutdeild fjármagns að frádreginni árgreiðslu 45.000 m.kr. Útgerðin greiddi hins vegar einungis um 1.000 m.kr í veiðigjald. Þjóðin fékk því ekki nema um 2% af auðlindaarðinum í sinn skerf. 

Svona tillaga frá SA/LÍÚ segir mér aðeins eitt. Það þýðir ekkert að tala við þessa menn. Þeir svífast einskis til að halda forréttingum sínum. Allt sem þeir segja er einhvers konar gildra.
Stjórnvöld mega ekki láta glepjast af þessum gildrum og þjóðin má ekki láta hræðsluáróðurinn buga sig. Þeir tala út í eitt um að ná þurfi sátt.
En sú sátt á augljóslega að vera: LÍÚ fær allt.
Grein eftir Jón Steinsson hagfræðing.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast í bönkunum þeir eru að veita  útgerðinni lán á lán ofan en gengur ekki eftir borgunum. Menn taka út arð en skilja skuldirnar eftir til að þær fari í Skinney/ Þinganes ferli.

Ólafur Örn Jónsson, 14.4.2011 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband