Leita í fréttum mbl.is

Kvótakerfið hefur leikið byggðirnar grátt

sjómenn 1-8

Hér fyrir neðan er kafli úr grein eftir Lilju Rafney Magnúsdóttur þingkonu VG sem hún ritar á bb.is í dag. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Ég hef horft upp á það hvernig kvótakerfið hefur leikið margar byggðir grátt og hvernig gallar þess og óréttlæti birtast í sinni tærustu mynd á því landsvæði sem ég þekki best til og í mörgum sjávarbyggðum hringinn í kringum landið.

Í núverandi kerfi hafa byggst upp gífurlegir hagsmunir valdablokka í landinu sem gefa sitt ekki eftir baráttulaust. Heilu byggðarlögin og margar atvinnugreinar eiga allt sitt undir velvilja stórra kvótahafa og fjármálastofnana.

Þessar valdablokkir hafa beitt ótrúlegum hræðsluáróðri gegn breytingum á kerfinu og beita miklum þrýstingi á stjórnvöld að sem minnstu verði breytt.

Hræðslan og meðvirknin við að styggja ekki þá stóru og sterku er víða undirliggjandi. Meirihluti þjóðarinnar hefur talað í kosningum og vill breyta kerfinu en færri þora að koma fram og tala fyrir því opinberlega því það gæti haft ófyriséðar afleiðingar fyrir þá.

Frá hruni hefur Rannsóknarskýrsla Alþingis komið út og í farvatninu er rannsókn á lífeyrissjóðunum og sparisjóðunum. Brýnt er að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankanna eins og þingmannanefndin samþykkti.

Rannsókn á kvótakerfinu og afleiðingum þess frá því að framsal og óbein veðsetning var leyfð er nauðsynleg fyrir allt samfélagið sem hluti af uppgjöri við hrunið, enda leikur á því enginn vafi að þræðir kvótakerfisins lágu um viðskiptalífið eins og mál hjá sérstökum saksóknara hefur sýnt fram á.

Ég tel einnig mjög nauðsynlegt að fram fari úttekt á samfélagslegum og hagrænum áhrifum fiskveiðistjórnunarkerfisins á byggðir landsins sl. 20 ár, eins og sjávarútvegs- og lanbúnaðarnefnd Alþingis samþykkti sl. sumar.

Það verður aldrei allt mælt í krónum og aurum. En á bak við tölur og hagræðingarkröfur markaðarins er líf, framtíð og búsetuskilyrði fólks í sjávarbyggðum, sem horfa verður til þegar heildarmyndin er skoðuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband