Leita í fréttum mbl.is

Hvar eruð þið, sjómenn og sjómannskonur ?

urður ólafsdóttir

Urður Ólafsdóttir skrifar: 

Mér er það sífellt undrunarefni hvernig Alþingi gat á sínum tíma ákveðið að afhenda útgerðum kvótann sem safnast hafði á hendur þeirra. Með því að binda hann ekki með nokkrum hætti við byggðarlög er ástandið eins og það er. Sjávarþorp landsins eru að leggjast í eyði.

Því er ekki flaggað hverjir öfluðu kvótans til þessara fyrirtækja. Það voru sjómenn sem með dugnaði og ósérhlífni sóttu sjóinn og lögðu útgerðunum kvótann til. Mér sem ekkja eftir dugandi sjómann er alveg ljóst að þótt fyrirtæki hafi átt skip og útgerð hefði ekki orðið til kvóti nema að um borð í skipunum væru dugmiklir sjómenn.

Engin útgerð hefði haft skipstjóra á skipi sínu sem ekki hefði komið með afla að landi, og enginn skipstjóri aflað nema með góðri skipshöfn. Það er ekki svo ýkja langt síðan að sjósókn sem lýst er í bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti, var stunduð á Íslandi.

Ósvörin við Bolungarvík er lýsandi minnismerki um þann tíma og líka til að minna okkur á hvað þurfti til að koma okkur upp úr þeirri eymd sem þjóðin var í. Með dugnaði sjómanna varð til afurð sem hægt var að selja úr landi.

Hvað ætli margir sjómenn hafi farist við störf sín á síðustu öld? Sem betur fer er ekki her á Íslandi en sjómennskan var í raun eins og herþjónusta. Það var ekki um margt að ræða á atvinnumarkaðinum og því síður í menntamálum svo þá var bara að fara á sjóinn.

Í þau 45 ár sem ég hef fylgst með störfum sjómanna hafa þeir tvisvar sinnum staðið saman og siglt til hafnar. Í fyrra skiptið var það útaf síldarverði 1967 og 1975 út af olíuverði sem átti að taka af óskiptum hlut sem þýddi launaskerðingu.

Hvað er að ykkur, sjómenn? Hvers vegna standið þið ekki saman og berjist fyrir rétti ykkar? Þið megið ekki skilja þrjá eða fjóra sjómenn eftir í baráttunni fyrir rétti ykkar allra. Þetta er réttur sem allar hetjur hafsins sem horfnar eru börðust fyrir og þið eruð búnir að láta ræna af ykkur.

Hvar eruð þið, sjómannskonur og verkakonur þessa lands? Látið í ykkur heyra áður en menn ykkar verða allir komnir inn í álverksmiðjur, olíuhreinsistöðvar eða í biðröð eftir atvinnuleysisbótum. Það er ekki pláss fyrir alla á ríkisjötunni til að hækka launin sín. Það er bara fyrir fáa útvalda.

En þið, sjómenn, þurfið að berjast fyrir því, annars verðið þið sem stétt ekki til eftir nokkur ár.

Grein úr Fréttablaðinu 16.07.2008; höfundur Urður Ólafsdóttir, ekkja Sigurðar Bjarnasonar (Sigga Bjarna) skipstjóra frá Bíldudal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Frábær grein,góð hvatning.Samstaðan er til í orði en ekki á borði.Hef oft hugleitt hvað veldur því að þjóðin rýs ekki upp gegn jafn augljósu ranglæti.Eru sjómenn búnir að missa kjark og þor og endalaust tilbúnir að láta allt óréttlætið yfir sig og sína ganga.

Vona að sem flestir lesi þína áhugaverðu grein.  

Kristján Pétursson, 17.7.2008 kl. 22:59

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Níels 

Mér fannst grein Urðar alveg ótrúlega góð grein og orð í tíma töluð og þó fyrr væri. Ég hef áður í mínum skrifum þó á allt öðrum vettvangi væri spurt þessa sama. Hvar er samstaðan meðal fólksins sem unnið hefur grundvöllinn í sjávarútvegi á Íslandi? Ég velti einnig fyrir mér grein í sama blaði um lympuleg viðbrögð sitjandi sjávarútvegsráðherra gagnvart mannréttindanefnd SÞ um kvótakerfið og svar við athugasemdunum. Í greininni kom fram að skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar hjá Nýsi sem skrifað hefði skýrslu um áhrif kerfisins á sjávarbyggðir stæði líklega enn (frá 2001). En líti maður í kringum sig veit maður, ef eitthvað, að aðstaða sjávarbyggða margra hefur versnað um helming frá því þá. Sjávarútvegsráðherra, að því gefnu að vitnað hafi verið rétt í hann í fréttablaðinu, sagði að hann héldi að tillit hefði verið tekið til skýrslunnar frá 2001. Mér finnst hreint makalaust að hægt sé að komast svo slyttislega að orði þegar að öll spjót hafa staðið á ákvarðanatöku um framhaldið (bæði í ljósi viðbragða við áliti mannréttindanefndar SÞ og áhrifa af niðurskurði aflaheimilda og yfirlýstum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar). Ég vona að þessi mjög svo síðskipaða nefnd muni fá að hafa bein í nefinu til að meta aðstæður og afleiðingar í sjávarbyggðum í einhverju raunverulegu ljósi.

Anna Karlsdóttir, 18.7.2008 kl. 00:53

3 Smámynd: Kristin Á.Arnberg Þórðardottir

Sæll Níels                                                                                              

Ég er alveg hjartanlega sammála Urði.Ég hef sjálf verið sjómannskona í 35 ár og var með manninum mínum á fundinum sem haldin var á Hótel Sögu árið 1975 þá sýndu sjómenn samstöðu.Hvað ætla sjómenn að gera í dag?Ætla þeir virkilega að láta aldna kempu berjast einann?Hvar er samstaðan nú.

Kristin Á.Arnberg Þórðardottir, 19.7.2008 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband