Leita í fréttum mbl.is

Vilta sauðféð í fjallinu Tálkna

tvær kindur eftir óla th

Fjallið Tálkni dregur nafn sitt af landnámsmanninum norska "Þorbirni tálkna" en han nam Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan ásamt bróður sínum "Þorbirni skúma" en þeir voru synir "Böðvars blöðruskalla".

Í klettótum fjallshlíðum Tálkna gengur sauðfé villt allt árið og hefur gert í marga áratugi. Fer tvennum sögum af fjölda þeirra kinda sem þar lifa en flestir eru á því að þær skipti tugum en sumir halda því fram að þær séu á annað hundrað.

Ýmsir sjálfskipaðir postular varna gegn riðuveiki hafa lagst í hernað gegn þessu einstaka sauðfé og reynt allt hvað af tekur til að útrýma því með öllum tiltækum ráðum, en ætíð þurft að láta í minni pokann. Frægasta atlagan sem gerð var að fénu var þegar sýslumaðurinn á Patreksfirði fékk til liðs við sig þyrlu Landhelgisgæslunar ásamt Víkingasveitinni vestur.

Upphófst þá gríðarleg skothríð frá Víkingasveitinni út um dyr þyrnunnar sem flaug fram og aftur um hlíðar fjallsins. Sögur herma að fáar kindur hafi legið eftir sárar á víð og dreif í Tálknahlíðum og að lokum flúðu sérsveitarmenn með skottið á milli lappanna suður í 101 Reykjavík.

Sauðféð í Tálkna lifir góðu lífi og fjölgar sér jafnt og þétt þrátt fyrir harðar atlögur að því annað veifið. Mun þetta vera einsdæmi í öllum heiminum um viltar sauðkindur. Ég legg til að stofn þessi verði alfriðaður sem allra fyrst landi og þjóð til heilla.

Styrmir og Guðmundur synir mínir með fjallið Tálkna í baksýn

Frásögn Árna Gunnarssonar rithöfundar.

Hún hefur lengi heillað mig vitneskjan um villiféð í Tálknanum. Þetta er svolítið dramatískt. Auðvitað er það alger firra að ímynda sér einhverja sjúkdómavá þessu samfara. Hefði sú hætta verið fyrir hendi einhverntíman væri þessi stofn fyrir löngu búinn að yfirstíga það allt og mynda ónæmi með náttúruúrvali.

Og hvað riðuna áhrærir þá veit enginn með vissu hvernig hún smitast og sjálfur trúi ég því að hún sé ekki bráðsmitandi. Mín skoðun er sú að alltof mikill bægsalagangur sé gerður út af riðunni.

fjallið tálkni

Fyrir mörgum áratugum var mikill herleiðangur settur af stað til að fella svarta útigangsrollu sem var í eigu Hlínar í Herdísarvík. Surtla var stygg og stakk vígamennina af hvern af öðrum. Loks tókst þó einum að fella Surtlu og verða "þjóðhetja." Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum orti um Surtlu fallegt erfiljóð og er síðasta erindið svona:

Morðið arma upp til fjalla

eykur harmana.

Surtla jarmar upp á alla

ólánsgarmana.

tálkni 3

Kristján heitinn Mikkaelsson blikksmiður frá Fremri-Breiðadal var fenginn með skosku smalahundana sína í leiðangurinn fræga í Tálknann. Hann var þá búsettur í Flekkudal í Kjós. Þetta voru frægir verðlaunahundar í smölun. Hann sagði mér að hundarnir hefðu ekki komið að neinu gagni.

Hrútarnir hefðu beinlínis ráðist á þá og hundarnir flúið. Kristján var óvenjulegur vaskleikamaður og íþróttamaður í fremstu röð á yngri árum. Hann sagði styggð og áræði þessa fjár með ólíkindum og taldi með öllu útilokað að eyða því. þarna hefði það lagast svo að aðstæðum að greinilegt náttúruúrval væri byrjað.

Til dæmis hefðu fætur- og þó einkum framfætur verið svo sverir að slíkt hefði hann aldrei séð. Kristján var þó vel kunnugur fé, hafði sjálfur alist upp í sveit og bjó auk þess fjárbúi með konu sinni í Flekkudal þegar hann varð bráðkvaddur fyrir 2 eða 3 árum.

Frásögn Braga Þórs Thoroddsens.

Gekk fyrir Tálknann frá Patreksfirði og inn að Lambeyri sennilega 2000. Það voru all svakalegar skepnur þarna - hrútar sem ekki sáu framfyrir sig fyrir hornum og ær í reyfum þannig að minnti á eitthvað annað en sauðfé. Held að við höfum séð um 30 stk í heild. Það er tæplega riða í fé sem lifir villt í þessu umhverfi. Ég var genginn upp að hnjám enda flóð við ófæru Tálknafjarðarmegin um kvöldið.


mbl.is Nítján kindur heimtar af Tálkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þú manst minn kæri, þegar við vorum skyldaðir til, að viðlögðum sektum, að fella féð í Tálkna.  Þá var ég vestra og Brynjólfur nokkur sveitastjóri.

Björgunarsveitin var fengin í starfið ásamt og með þyrlu sveit Landhelgisgæslunnar og áttu skotmenn að vera þar og skjóta.

Við náðum nú ekki öllum og mig grunar, að afar mörgum hafi verið innanbrjósts eins og mér þá, að leggja okkur ekkert ofur mikið  fram við að eyða þessum Sjálfstæðu skjátum.

Þetta er fé sem hefur lifað af harða vetur og fara ekkert að breyta út af þeim vana sínum.

Leyf þeim vera og segðu sveitungum þínum, að minnki mjög virðing fyrir þeim og vorkunn ef þeir fara framalega í flokki við þessa ómennsku slátrun.

Með kveðjum

Fyrrum Vestfjarðar íhald

Bjarni Kjartansson, 28.10.2009 kl. 15:45

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

ja, samkv. þessum myndum - þá ef eg enga trú að þarna geti þrifist stórir hópar útilegufjár og jafnframt dreg ég í efa að "sérstofn" hafi þróast þarna.

Hefurþessu eki verið sleppt þarna nýlega ? Held það.  Hef enga trú á að þarna hafi gengið útilegufé frá miðri síðustu öld eins og sumar fréttir segja.

get alveg keypt það að annaðslagið hafi gengið fé þarna úti - en að það hafi þróast sérstakur stofn - eg vil fá nári skýringar.

Jafnframt er ég ekki að skilja afhverju svo vont er að smala þarna.  það er hægt að smala öllu með lagni jafnvel styggum rollum.  Alls ekki nota hunda í svona klettóttu landi.  Alls ekki.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.10.2009 kl. 17:03

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

ég er alveg sammála þér þarna. það á að leyfa þessu fé að vera í friði og þróast með sínum hætti. ef það getur ekki fjölgað sér þá hverfur það úr náttúrunni átakalaust og hljóðlega. ef ekki þá hefur fjölbreytileikinn aukist í landinu öllum til góða og yndisauka nema kerfisköllum sem halda að blek á pappír sé algildur sannleikur.

Fannar frá Rifi, 28.10.2009 kl. 19:43

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hvort er hér um hræsni eða þekkingarskort að ræða?  Að láta fé og annan búfénað ganga sjálfala er yfirleitt dæmi um níðingsskap gagnvart dýrum og þegar slíkt gerist ber yfirvöldum að skerast í leikinn.  Það er skrítið viðhorf að leyfa þessu fé að drepast úr hungri og vosbúð fjarri alfaraleið og þá sé allt í lagi. En að manna sig upp og smala þessu fé og væntanlega slátra með viðurkenndum aðferðum er talið til níðingsverka!!  Ja, skrítin er mannskepnan.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.10.2009 kl. 20:42

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta er fróðlegt og skemmtilegt aflestrar,ekki skemma myndirnar.Aldrei komst ég í Tálknafjörð á ungdómsárum mínum fyrir vestan. En varðandi fréttina, greinilegt að þetta fé hefur ekki liðið skort,þrátt fyrir útigang vetrarlangt. Það fylgdi ekki þessari frétt að þar færu einhverjar horrenglur,heldur stæltir skrokkar. Ég hefði gaman að því að hringja í systurdóttur mína,sem er sveitastjóri á Tálknafirði ,og spyrja hana álits og  svo hvort íbúar sveitafélagsins,séu almennt fylgjandi því að fénu sé sleppt lausu.

Helga Kristjánsdóttir, 29.10.2009 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband