Leita í fréttum mbl.is

Fyrrum ráðherra hreykir sér af rústun sjávarbyggða

Nú er hart  sótt að Hafró um að auka aflaheimildir en stofnunin harðneitar, það sé langtíma markmið  að byggja upp stofninn með því að takmarka veiðar og ekki megi kvika frá því þó hart sé í ári.

„Það hefur verið stunduð væg ofveiði á stofninum í áratugi“ ........

sagði forstjórinn í útvarpsviðtali fyrir skömmu. 

Oft er fróðlegt að skoða gamlar blaðagreinar. Þær eru fljótar að gleymast enda er sagt að ekkert sé jafn gamalt og blaðið frá í gær.

Þær eru heimild um hvað menn sögðu, eða voru að hugsa, á hverjum tíma. Heimildirnar mást ekki út þó höfundar kynnu að óska þess. 

Hér að neðan er grein úr Mogga frá haustinu 1997, þegar Hafró var að hæla sér af árangri uppbyggingarstarfsins (Mbl. 14. 10. 1997).

 „Verndun þorsksins ber ávöxt“

„Á árunum 1986-1996 sýndu mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar, að nýliðun í þorskstofninn var oftast langt undir meðallagi.

Miðað við sóknarþungann framan af á þessu tímabili varð áframhaldandi minnkun stofnsins ekki umflúin. Sérstakar áhyggjur höfðu menn af þróun hrygningarstofnsins.

Lagt var til að draga stórlega úr veiðum, til þess að snúa þróuninni við. Afleiðingarnar af slíkum takmörkunum þýddu mikla tekjuskerðingu fyrir sjávarútveginn og reyndar þjóðina alla auk þess sem hætta var á að markaðir töpuðust.

Menn vonuðu í lengstu lög, að unnt yrði komast hjá miklum niðurskurði í afla og fjöregg þjóðarinnar myndi rétta við, nánast af sjálfsdáðum.

Sú von brást og enn hélt stofninn áfram að minnka þrátt fyrir ýmsar veiðitakmarkanir.

Eftir útfærslu landhelginnar 1975 hafði árlegur þorskafli verið á bilinu 250-470 þúsund tonn fram til 1993.

Nauðsynlegt reyndist að draga svo úr veiðum, að ársaflinn yrði ekki meiri en hann var á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar landsmenn voru helmingi færri.

Þetta mikilvæga skref var stutt dyggilega af flestum hagsmunaaðilum sjávarútvegsins.

Í kjölfar friðunaraðgerða varð aflinn tæp 200 þús. tonn fiskveiðiárið 1993/94.

Lægst fór aflinn í 165 þús. tonn fiskveiðiárið 1994/95. Aflareglan svokallaða, sem tekin var upp í þorskveiðunum 1995 er þýðingarmikil við endurreisn þorskstofnsins.

Árangurinn af þessum friðunaraðgerðum er nú óðum að koma í ljós: 

1. Veiðidánartala hefur lækkað um tæplega helming undanfarin þrjú ár, sem þýðir m.ö.o. að mun fleiri fiskar í veiðistofni lifa úr hverjum árgangi en áður.

2. Bæði veiðistofn og hrygningarstofn eru nú aftur í vexti.

3. Afli á sóknareiningu hefur aukist verulega og þannig stuðlað að hagkvæmari veiðum.

4. Takmörkun sóknar hefur leitt til þess að frekar er sóst eftir stærri og verðmeiri þorski, þannig að dregið hefur úr smáfiskadrápi og skyndilokunum á smáfisk.

5. Í ár eru fyrstu merki um, að klak hafi heppnast bærilega um margra ára skeið. Hefur ekki fundist jafnmikið af seiðum síðan 1984.

Gott klak í ár eru langþráð og um leið ánægjulegustu tíðindin, því í raun fer fiskstofn ekki að rétta við að gagni, nema að klakið heppnist vel og helst sem oftast.

Allt er þetta til vitnis um að friðunaraðgerðir undanfarinna ára eru farnar að bera ávöxt. Fleiru er verið að vinna að til verndar þorskinum.

Í því sambandi má sérstaklega nefna smáfiskaskiljuna, sem verið er að taka smám saman í notkun. Miklar vonir eru bundnar við hana til þess draga enn frekar úr veiðum smáfisks. 

Með stækkandi stofni hefur þorskaflinn aftur farið vaxandi og er kvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári 218 þúsund tonn.

Óskir um auknar þorskveiðiheimildir eru enn til staðar þótt þrýstingurinn sé ekki eins mikill og oftast áður.

Í mikið hefur verið lagt til að ná þeim árangri, sem nú örlar á. Þótt útlitið sé bjartara nú en um langt skeið byggjum við ekki framtíð þorskveiða okkar á einum góðum þorskárgangi.

Í kjölfar stækkandi hrygningarstofns markar klakið í ár vonandi, að betri nýliðun sé framundan, því það þarf nokkra góða árganga til að bera uppi auknar veiðar.

Aflaregla sú, sem tekin var upp í þorskveiðunum á án efa eftir að skila góðum árangri er fram í sækir.

Skynsamlegast er því að halda áfram á þeirri braut hófseminnar, sem þegar hefur verið mörkuð.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það sem gert hefur verið og verið er að gera til verndar þorskinum, t.d. að taka upp aflareglu fyrir fleiri tegundir, eins og nú er unnið að, muni nýtast vel við friðun annarra fiskstofna í framtíðinni“.

Þetta skrifaði Sigfús Schobka fiskifræðingur á Hafró haustið 1997, eftir að metafli hafði verið í seiðaleiðangri Hafró.

Skemmst er frá því að segja að þetta fór allt í vaskinn. Seiðin fóru í fiskafóður og árið 2000 varð horfellir í stofninum, nokkuð sem var kallað ofmat. "Ofmatið" var  þrautaleið Hafró til að komast frá óþægilegri gagnrýni um að ráðleggingar þeirra væru della.

 Mér er þetta vel kunnugt því ég varaði stjórnvöld við því að hungureinkenni væri í stofninum og að hann að dragast saman en ekki að stækka eins og Hafró hélt fram. Enginn hlustaði en spáin rættist  

Enn lemur Hafró hausnum við steininn og reynir að þvinga náttúruna með stærðfræðilögmálum.

Fer ekki að verða komið nóg?

Grein Sigfúsar ber með sér verið var að auka veiðar undir vísindalegu eftirliti. Var það þessi væga ofveiði ? Bull er þetta.

Greinarskrif fengin að láni hjá Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi.


mbl.is Rétt ákvörðun að draga úr veiðum 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valmundur Valmundsson

Sæll Nilli og vonandi eru sæmilegur eftir helgina eins og ég.

Góð grein hjá Jóni og það þarf að flagga meira þessari endemis vitleysu sem rennur uppúr fiskifræðingunum.

Valmundur Valmundsson, 7.6.2010 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband