Leita í fréttum mbl.is

Minni Hrafnseyrar við Arnarfjörð

hrafnseyri við arnarfjörð mynd naá

Hrafnseyri við Arnarfjörð er landnámsjörð og gamalt höfðingjasetur. Í landnámsbókum segir að fyrst hafi reist þar bústað Án rauðfeldur, Grímssonar loðskinna úr Hrafnistu í Noregien dóttursonur Án bogsveigis. Hann hafði að sögn herjað á Írland eins og víkingum var títt og fengið þar þeirrar konu er Grélöð nefndist, dóttur Bjartmars jarls. En þau fóru til Íslands,  þrátt fyrir ættgöfgi konunnar, að nema land og gerast frumbýlisfólk.

Skemmtileg frásögn hefur varðveist um bólstaðarskipti þeirra Áns og Grélaðar. Þau reistu fyrst bæ í Dufansdal, en Grélöðu geðjaðist ei sá staður, þótti þar illa ilma úr jörðu. Fluttu þau sig þá yfir fjörð og reistu bú, þar sem enn stendur bær, uppi á allháum bakka frammi við sjó, og nefndu Eyri.

Bæjarstæði er fallegt, sér þaðan til botns í Arnarfirði þar sem áin Dynjandi steypist niður af samnefndri heiði og myndar Fjallfoss, en suður og út með firði ber fyrir auga reglubundna röð fjallshnjúka allt til hafs með víkur og dali á millum eins og vígskörð í risakastala. Á þessum stað þótti Grélöðu vera hunangsilmur úr grasi.

Á Sturlungaöld bjó sem kunnugt er Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri og var höfðingi þar vestur um firði. Er höfðingjaætt hans oftast kölluð Eyrarmenn. Hrafn var sagður hinn mesti ágætismaður, lækningafróður og mikill vinur Guðmundar biskups Arasonar.

Saga hans í Sturlungasafninu minnir að vísu um sumt á hálfvæmna helgisögu; sennilega rituð af klerki og fylgismanni kirkjuvaldshreyfingarinnar og dregur mjög fram hlut Hrafns gagnvart höfuðóvini hans, hinum harðskeytta keppinaut um völdin á Vestfjörðum, Þorvaldi Vatnsfirðingi.

Mætti vel vera eitthvert samband milli hunangsilmsins sem Grélöð fann og greint er frá í landnámsbókum og hins guðhrædda biskupsvinar og góðmennis sem Hrafnssaga lýsir. En við Hrafn hefur Eyri jafnan verið kennd síðan. Þar hefur verið kirkjustaður í margar aldir og í kaþólskum sið var guðshús staðarins helgað Maríu guðsmóður og Páli postula.

Um aldamótin 1800 er Hrafnseyri samt hvorki höfðingjasetur né stórbýli, en þetta prestakall er þó í röð betri brauða. Sr. Jón Sigurðsson, afi alnafna síns „forseta“ fékk þetta prestakall 1785. Sigurður, sonur hans, varð stúdent úr Hólavallaskóla í Reykjavík 1798, en hugði ekki á eða skorti efni til framhaldsnáms við Kaupmannahafnarháskóla, heldur réðs sem vinnumaður til föður síns, uns hann var vígður aðstoðarprestur hans fjórum árum síðar, árið 1802.

Árið 1803 kvænist sr. Sigurður Þórdísi og fékk þriðjung Hrafnseyrar til ábúðar og 12 rd í árslaun. Alllöngu síðar hreppir sr. Sigurður hálfar preststekjur en fyrst árið 1821, eftir lát föður síns, fær hann veitingu fyrir öllu prestakallinu.

Af þessu sést glöggt að sr. Sigurður sættir sig framan af ævi við fátækleg kjör aðstoðarprests. Í rauninni varð hann aldrei efnaður maður, þó eflaust hafi hann bjargast vel með miklum dugnaði á þeim hallæristímum sem gengu yfir landið. Stærst verður bú hans 4 nautgripir, 60 fjár og 2 hross auk staðarkúgilda.

En í Arnarfirði var sjávarafli og margvísleg hlunnindi, selveiðar og bjargfuglatekja, ómetanleg búdrýgindi þegar lífsafkoma fólks snérist fyrst og fremst um að hafa til fæðis og klæðis. Heimilisfólk í tíð þeirra feðga, Jóns og Sigurðar, var oftast 16-20 manns. Hefur því orðið að afla mikils utan heimilis umfram það sem svo lítið bú gat gefið af sér, enda voru þeir feðgar atorkusamir mjög og héldu sig og sína fast við störf.

Sr. Jón húsaði bæ sinn allan, myndarlega eftir því sem þá var títt, á sinni presttíð. Um sr. Sigurð er sagt að hann hafi aldrei látið verk úr hendi falla. Þau Þórdís og sr. Sigurður eignuðust tvö börn auk Jóns, Jens og Margréti.


mbl.is Fjölmenni á Hrafnseyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband