Leita í fréttum mbl.is

Virkjun Þjórsár.

Virkjun Einars Benediktssonar við Búrfell 

búrfellÁ árunum 1915 -1917 dvaldist hér á landi norski vélfræðingurinn Gotfred Sætersmoen við rannsóknir á Þjórsársvæðinu. Hann kom hingað til lands að tilhlutan Fossafélagsins Títans sem Einar Benediktsson skáld stofnaði ásamt fleirum. Sætersmoen setti niðurstöður sínar fram í skýrslu þar sem m.a. er lýst hugmyndum um virkjun Þjórsár við Búrfell. Skyldi mestur hluti raforkunnar notaður við áburðarframleiðslu. Sætersmoen gerði ráð fyrir fimm virkjunum í Þjórsá frá Urriðafossi upp fyrir Búrfell og einni virkjun í Tungnaá, Hrauneyjafossvirkjun. Skyldi sú við Búrfell verða langstærst. Ætlunin var að stífla Þjórsá við Klofaey og veita vatninu um opna skurði í Bjarnarlón að inntaksstíflu í Sámsstaðaklifi.

Á árunum í kringum 1960 var í fullri alvöru kannað hvort ráðast ætti í stórvirkjun í Þjórsá. Slík virkjun yrði afar hagkvæm ef góð nýting á henni fengist frá upphafi. Almenn notkun rafmagns í landinu jókst alltof hægt til að gera Búrfellsvirkjun að fýsilegum kosti þá. Var því fljótlega hugað að mögulegri stóriðju í landinu sem nýtt gæti verulegan hluta framleiðslunnar frá upphafi. Ekki munu Íslendingar sjálfir hafa treyst sér til að hasla sér völl á því sviði. Árið 1961 var Stóriðjunefnd sett á laggirnar til að kanna möguleika á að semja við erlenda aðila um rekstur stóriðju á Íslandi. Samtímis þessu fóru fram miklar undirbúningsrannsóknir að virkjun við Búrfell. Það fór síðan saman árið 1966 að gerður var samningur um álbræðslu svissneska fyrirtækisins Swiss Aluminium Ltd. í Straumsvík og að ákveðið var að ráðast í virkjun við Búrfell. Skyldi hvort tveggja hefja starfrækslu á árunum 1969 -1972. Með þessu móti tókst jafnframt að sjá hinum almenna raforkumarkaði fyrir hagkvæmri raforku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Í tímaritinu Sögu frá 2003 er póstkort frá konungskomunni 1907 við Gullfoss. Þar var skálað í kampavíni fyrir framtíð Íslands sem iðnaðarlands.

Þegar ég var lítill sá ég Tröllkonuhlaup í Þjórsá.  Ég held að áin renni ekki lengur þar.  Það voru heilmiklar deilur á Alþingi vegna samningsins við Alusuisse en náttúruvernd bar víst lítið á góma.  Kárahnjúkavirkjun er ígildi tveggja og hálfrar Búrfellsvirkjunar í afli.  Hún (Kárah.) er fyrsta virkjunin sem er eingöngu reist fyrir stóriðju. Með því að stífla þessar jökulár er tekið fyrir aurburð og sveiflur í rennsli.  Það hlýtur að hafa áhrif á lífríkið út frá ósunum þó ekki hafi það mikið verið rætt.

Pétur Þorleifsson , 25.2.2007 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband