Leita í fréttum mbl.is

Dönsku jarða- og ábúðarlögin

vinna í sveit

Í dönsku lögunum er lögð þung áhersla á að landbúnaðarland sé nýtt til búskapar og eitt af markmiðum laganna er að auka samkeppnishæfni landbúnaðar.

Sérstakur kafli laganna fjallar um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að taka land úr landbúnaðarnotum og er þar mikil áhersla á að unnið sé eftir skipulagi sveitarfélaga.

sveitastörf

Með áðurnefndum lagabreytingum voru rýmkuð ákvæði sem fjölluðu um hverjir mega kaupa bújarðir og hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla.

Margvíslegar kröfur eru gerðar til þeirra sem kaupa bújarðir og mikil áhersla er lögð á ábúðarskyldu jarðareiganda. Dönsku bændasamtökin styðja það eindregið og leggja áherslu á að ábúðarskyldu sé viðhaldið.


voffi sæll og glaður

Eftirfarandi kröfur þarf m.a. að uppfylla til að kaupa bújörð á frjálsum markaði í Danmörku:


    *      Hafa náð 18 ára aldri.
    *      Búseta á jörðinni innan 6 mánaða frá kaupum.
    *      Búa að lágmarki í 8 ár á jörðinni áður en hægt er að leigja hana öðrum.
    *      Ef bújörðin er stærri en 30 hektarar þarf kaupandinn að hafa landbúnaðarmenntun og reka þar sjálfur búskap.

bóndi er bústólpi

Ef viðkomandi á fleiri en eina jörð þurfa þær allar að liggja innan 10 km loftlínu frá íbúðarhúsinu á þeirri jörð sem viðkomandi hefur fasta búsetu.

Meginregla er að sami aðili má ekki eiga fleiri en fjórar jarðir en ef einstaklingur á fleiri jarðir má samanlögð stærð þeirra ekki fara yfir 400 hektara. Ef einstaklingur á hluta af bújörð telst sá hluti jarðarinnar með í þessu tilviki.

galtanum velt

Þegar um hjón er að ræða geta þau hvort um sig átt fjórar jarðir, uppfylli þau aðrar kröfur (svo sem um menntun og búsetu). 
    

Erlendir ríkisborgarar geta nú keypt bújarðir í Danmörku að því tilskildu að þeir uppfylli þær kröfur sem settar eru samkvæmt jarðalögunum. Einnig er það breytinga að einstaklingar án búfræðimenntunar geti keypt jarðir sem eru minni en 30 ha.
    

börn í sveit

Þegar jarðir ganga kaupum og sölum innan fjölskyldu eða erfast gilda sérstakar reglur. Þá eru t.d. ekki gerðar kröfur um búfræðimenntun og 10 km loftlínukrafan gildir heldur ekki varðandi búsetu.
    

Sérstakur kafli laganna fjallar um kaup lögpersóna (svo sem hlutafélaga) á bújörðum. Þannig getur hlutafélag keypt jörð ef einstaklingur, sem uppfyllir skilyrði til að mega kaupa og reka bújörð og hefur fasta búsetu á jörðinni og á að minnsta kosti 10% hlutafjár, er aðili að hlutafélaginu.

kusa lætur sér líða vel

Aðrir hluthafar geta aðeins verið fjölskyldumeðlimir sem eiga samtals ekki meira en 400 hektara lands.

Heimild; Bændablaðið 11. janúar 2005 / Erna Bjarnadóttir.


mbl.is Óttast að hömlur rýri verðgildi bújarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Burtséð frá fyrirkomulagi Dana þá er ég að pæla í öðru. Er ekki offramleiðsla í íslenskum landbúnaði? Og var ekki kvótinn í landbúnaðinum settur á til þess að draga úr framleiðslu á sama hátt og settur var kvóti á sjávarútveginn til þess að draga úr veiðum?

Og nú meiga menn samkvæmt tillögum ráðherra ekki lengur kaupa jörð nema að lofa því að framleiða mjólk og kindakjöt í erg og gríð!

Er kannske það næsta sem kemur frá hæstvirtum sjávar- og landbúnaðarráðherra vorum að mönnum verði bannað að kaupa báta nema þeir lofi því að veiða svo og svo mikið af fiski....???

Jón Bragi Sigurðsson, 29.8.2009 kl. 20:12

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Þetta er tvennt ólíkt.

Hér koma rök hæstvirts núverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra frá því 2006 og er ég 100% sammála honum og VG.

Uppkaup fjárfesta á jörðum með tilheyrandi vandamálum, bæði fyrir bændur og sumarbústaðaeigendur, hafa verið fyrirsjáanleg lengi, segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sem vill að jarðasöfnun verði bönnuð með lögum eins og víða sé gert. Annars lendi landsbyggðin öll í klóm peningamanna sem svífist einskis.

Með samþykkt nýrra jarðalaga fyrir þremur árum var opnað enn frekar á þessa þróun, segir Jón Bjarnason, sem telur uppkaupin minna á kvótann; nú lendi menn í sama eða verri vanda en hlotist hafi af kvótakerfinu í sjávarútvegi.

Ýmsar kenningar eru uppi um gróðavon fjárfestanna t.d. að þeir vilji ná tökum á stuðningskerfi landbúnaðarins, komast í sjóði bænda, svo sem Mjólkursamsöluna, eða að þeir trúi á hátt jarðaverð til framtíðar.

Níels A. Ársælsson., 29.8.2009 kl. 20:49

3 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Takk fyrir svarið. Ég get ekki alveg séð hvaða vandamál fylgi því að menn kaupi jarðir án þess að búa hefðbundnum búskap á þeim. Og ef menn telja nauðsynlegt að hamla því að fáir einstaklingar eigi of mikið, þá get ég ekki séð af hverju það eigi bara að gilda um jarðir.

Og þetta skil ég ekki heldur; "....að bregðast við ef brotnar eru forsendur fyrir nýtingu sem telja verður að varði fæðuöryggi þjóðarinnar". Eins og ég benti á er nú þegar framleitt nóg af fæðu í landinu þ.e. nóg í þeim skilningi að ekki virðist vera markaður fyrir meira hvorki innan- né utanlands. Ég held t.d. að það væri þjóðhagslegra hagkvæmara að gera golfvelli á sumum jörðum en að þvinga menn með lögum að stunda þar matarframleiðslu þegar nóg er til.

Jón Bragi Sigurðsson, 29.8.2009 kl. 20:56

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að kraftmikill landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig er landbúnaðurinn brýnt samfélags- og umhverfismál.

Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja fæðu- og matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar.

Stefna skal að sjálfbærni landbúnaðar á Íslandi. Framleiða skal innanlands eins og kostur er það eldsneyti og þau áburðarefni sem nauðsynleg eru við matvælaframleiðslu þjóðarinnar.

Stefna skal að því að fæðuöryggi þjóðarinnar verði með þeim hætti að framleitt verði það mikið af matvöru í landinu að sú framleiðsla nægi til þess að sjá landinu farborða hvað fæðu varðar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Fjölskyldubúið verði áfram sú framleiðslueining sem halda skal í heiðri og stuðningskerfi landbúnaðarins verði skipulagt út frá þeirri einingu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum vilja til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði til handa nýliða í greininni til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Brýnt er að endurskoða jarðalög með þetta í huga og tryggja að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir lagasetningu um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð lýsir vilja sínum til að stuðla að upplýstri og sanngjarnri umræðu um matvælaframleiðslu og matarverð á Íslandi.

aðgerðir í landbúnaðarmálum:

  • Vexti verður að lækka án tafar.
  • Stefnt verði að byggingu áburðarverksmiðju hið fyrsta.
  • Auka þarf kornbirgðir landsins og stefnt skal að byggingu birgðastöðva fyrir korn.
  • Efla skal rannsóknir og þróun á hveitirækt á Íslandi og stefna að því að landið verði sjálfbært hvað hveiti varðar eins skjótt og auðið er.
  • Raforkukostnaður í dreifbýli verður að lækka til jafns við það sem gerist í þéttbýli.
  • Tryggja verður afhendingaröryggi rafmagns og ríkið skal koma að 3 fösunar átaki þannig að iðnaður í hinum dreifðu byggðum standi jafnfætis öðrum svæðum.
  • Efla skal rannsóknir á sjálfbærum orkugjöfum til landbúnaðarnotkunar og stefna að nýtingu þeirra hið fyrsta.
  • Koma skal í veg fyrir sjálfskipaðan rétt verslana til þess að skila ferskri kjötvöru aftur til afurðastöðva. Beita skal lagasetningu ef með þarf.
  • Allar landbúnaðarafurðir verði upprunamerktar og auðkenndar með tilliti til framleiðslulands, bæði íslenskar og innfluttar.
  • Að rannsakað verði hvort hægt sé að nýta úrgang annarra atvinnugreina til áburðargerðar t.d. úrgang frá fiskiskipaflotanum. Að sama skapi verði skoðaðir möguleikar á nýtingu annarra hráefna til áburðarframleiðslu.
  • Gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir
  • Að hugað verði að landnýtingu og reynt að tryggja í almennu skipulagi að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu.
  • Að kortlagt verði með skipulögðum hætti hvernig Ísland getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu með umfangsmeiri hætti en nú er. Sérstaklega þarf að vera tryggt að fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt.
  • Efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, og styrkja rannsóknir á því sviði
  • Stuðla að aukinni þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt.
  • Tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna.
  • Endurskoða löggjöf um dýravernd á heildstæðan hátt.
  • Að eftirlits- og leyfisgjöld í landbúnaði verði lækkuð þannig að þau endurspegli raunverulegan kostnað vegna slíkrar starfsemi í þeim mæli sem hennar er þörf
  • Að bændur verði aðstoðaðir að virkja metan til notkunar í vélakost sinn
  • Grípa þarf til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að áburðarnotkun dragist saman með tilheyrandi framleiðslusamdrætti.

Níels A. Ársælsson., 29.8.2009 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband