Leita í fréttum mbl.is

Níels A. Ársælsson.

 


Ég fæddist 17. september 1959 á Bíldudal á heimili foreldra minna í kjallara á húsi sem kallað var "Læknabústaðurinn”.

Foreldrar mínir eru hjónin Ársæll Egilsson (f-02.09.1931) á Steinanesi í Arnarfirði og Jóhanna Helga Guðmundsdóttir (f-12.02.1932) frá Innstu-Tungu í Tálknafirði.

Fyrir áttu foreldrar mínir tvær stelpur, Kristínu Guðmundu (f-03.05.1953) og Hrefnu (f-24.04.1954)

Það var spenna í loftinu þar sem pabbi æddi fram og aftur um eldhúsið og beið í ofvæni eftir því að vita hvort þeim hefði fæðst sonur í það skiptið.

Þegar Bogga ljósmóðir kom fram eftir langa mæðu og tilkynnti um fæðingu mína tók pabbi hana í fangið og dansaði eftir eldhúsgólfinu.

Löngu seinna fæddust bræður mínir Tryggvi (f-14.08.1965) og Hlynur 19.09.1970).

Á nýjársdag 1960 er ég var rétt þriggja og hálfs mánaðar gamall var ég sóttur sjóleiðina til Bíldudals af áhöfn Tálknfirðings BA-325, og siglt með mig til Tálknafjarðar ásamt foreldrunum, systrum og búslóð.

Pabbi hafði ráðið sig sem skipstjóra á Tálknfirðing og var fjölskyldan því að flytja búferlum til Tálknafjarðar.

Þegar til Tálknafjarðar kom var búslóðinni, eiginkonuni og börnunum skipað á land, balarnir teknir um borð og Tálknfirðingur BA-325, hélt í fyrsta róður á nýju ári.

Eins og títt er um drengi í sjávarþorpum þá byrjaði ég ungur að stelast á bryggjuna, í fjöruna, í beitningaskúrana, upp á fiskhjalla, oní gúanóið, inn í og utan á frystihúsið og ekki síst öll skipin og bátana sem komu í land í þorpinu eða stóðu uppi á fjörukambi yfir veturinn.

Allt sem flaut var einstaklega áhugavert, árabáta, trillur, snurvoðabátar, línubátar, netabátar, síldarbátar og strandferðaskipin sem komu endrum og sinnum með vörur fyrir Kaupfélagið eða millilandarskip sem silgdu til útlanda með frosin fisk og skreið frá frystihúsinu eða beinamjöl og lýsi frá bræðslunni.

Miðja alheimsins var lengi vel í huga mínum Tálknafjörður (og er reyndar enn) og æðsta takmark lífsins að verða skipstjóri þegar ég yrði stór.

Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Níels Adolf Ársælsson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband