Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Fall Nýfundnalands - víti til varnaðar

bjarmi níelsson - newfoundlands

Nágranni okkar í vestri nefnist Nýfundnaland. Það land er nú fylki í sambandslýðveldinu Kanada. Landið var ensk og síðar bresk nýlenda frá 1583 til 1907, þegar það varð sjálfstætt lýðræðisríki innan breska samveldisins.

Á árunum eftir 1920 gáfu stjórnmálamenn landsins sig á vald ,,umræðustjórnmálum“ þess tíma.  Stöðug upphlaup og hneyksli skóku þjóðfélagið. Forsætisráðherrann sætti ásökunum um spillingu og þurfti að segja af sér 1923. Hann komst þó aftur til valda 1928 af því að arftakinn varð með eindæmum óvinsæll. Fljótlega rökkvaði, Kreppan mikla fór í hönd.  

Atvinnulífið var fábreytt, einkum fiskveiðar og -vinnsla, auk pappírs- og jarðefnavinnslu. Umræðustjórnmál kyntu undir sundurlyndi og óánægju. Stóryrði og upphrópanir ollu því að almenningur missti trúna á framtíðina, landstjórnina og sjálfstæði landsins árið 1934.  

Sjálfum sér sundurþykkir stjórnmálamenn gáfust upp á að mynda starfhæfa ríkisstjórn og sneru sér til bresku krúnunnar með ósk um skipun landstjóra á ný. Sá skipaði síðan ríkisstjórn og hélst sú skipan allt til ársins 1949.  

Síðan hefur landið verið jaðarsvæði í Kanada. Ríkisstjórnin í Ottawa vill ekki skipta sér af hagþróun einstakra svæða. Ungt fólk frá Nýfundnalandi leitar því atvinnu í blómlegri byggðum. Það vill samt eiga sumardvöl í lítt snortinni náttúru heimahaganna.

Heimild; mbl.is, dags 31.07.2008; höfundur Ragnar Önundarson. 

 

 


mbl.is Exista tapar 4,2 milljörðum króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður drengur á förum

eiríkur finnur greipsson 2Titringur er á Vestfjörðum vegna yfirvofandi brotthvarfs Eiríks Finns Greipssonar, vinsæls aðstoðarbankastjóra hins horfna Sparisjóðs Vestfirðinga.

Sparisjóðurinn var sameinaður Sparisjóði Keflavíkur nýverið og nú liggur fyrir að Angantýr Jónasson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri SPV, verður yfirmaður útibúanna á Vestfjörðum og Eiríkur Finnur mun þar með hætta störfum eftir að hafa stjórnað í áratugi.

Angantýr býr í Kópavogi en sinnir starfi sínu á Þingeyri. Vestra er fólki brugðið vegna þessa og telur að aðgerð bankastjórnarinnar í Keflavík sé einkenni þess að þarna sé ekki um samruna að ræða, heldur yfirtöku. Búist er í framhaldinu við lokun sparisjóða á Vestfjörðum í hagræðingarskyni. Heimild; dv.is, 28.07.2008.

Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í viðtal við Eirík Finn sem kom í Morgunblaðinu 26.10.2005, og læt síðan hvern og einn um að meta stöðu mála í sjávarþorpum Vestfjarða.

Tilvitnun:

Fiskvinnslan Kambur er hryggjarstykkið í atvinnulífi Flateyrar og uppbygging fyrirtækisins frá 2001 hefur verið ein gleðisaga undanfarin ár og fyrirtækið hefur eflst gífurlega undir stjórn hjónanna Ingibjargar Kristjánsdóttur og Hinriks Kristjánssonar að sögn Eiríks Finns Greipssonar, aðstoðarsparisjóðsstjóra á Ísafirði.

Hann er búsettur á Flateyri en starfar á Ísafirði. Í snjóflóðinu komst hann lífs af ásamt fjölskyldu sinni en hús þeirra eyðilagðist. "Nú eru komnir tveir yfirbyggðir línubátar til Kambs auk þess að sumir krókaaflamarksbátarnir hafa verið stækkaðir.

Ég held því að það sé ekki ofsagt að lýsa gengi félagsins og samstarfsaðila þeirra sem sigurgöngu. Fyrirtækið er orðið það öflugt að það vantar hráefni og auk þess sem kvótinn hefur stöðugt verið aukinn."

Fyrir flóðið á Flateyri voru búsett 379 manns í bænum en undanfarin ár hefur íbúatalan verið í kringum 300. Þar af er ríflega þriðjungurinn útlendingar. Að sögn Eiríks voru í sumar 37% íbúanna útlendingar og hefur jafnvel aukist síðan þá. Húsnæði er á lausu þótt framboðið sé ekki mikið og húsnæðisverð er lágt.

"Samfélagið hér hefur breyst mikið síðastliðinn áratug með sameiningu sveitarfélaga 1996 og tilkomu jarðganganna sama ár. Atvinnusvæðið er því orðið ein heild og stór hluti áhafna báta héðan er frá Ísafirði og nærliggjandi sveitarfélögum. Við erum því með mikla atvinnumiðlun milli svæða."

Nú höfum við náð gífurlega góðum árangri í uppbyggingu þorpsins fyrir tilstuðlan stjórnvalda, bæjaryfirvalda, Samhugar í verki, Ofanflóðasjóðs og fleiri.

Við erum að minnast atburðanna fyrst og fremst til að sýna hinum látnu virðingu og þakka björgunarsveitum, Landhelgisgæslu, stjórnvöldum, bæjaryfirvöldum og nærsveitamönnum sem voru einstaklega duglegir að hjálpa okkur."

Heimild; Morgunblaðið 26.10.2005.


Þorpin eru að deyja og dauðinn vakir yfir þeim

Fórnarlömb LÍÚ

Í Fréttablaðinu 17. júlí sl. var sagt frá því að skipa ætti nefnd, sem skila á af sér á kjörtímabilinu, til þess að kanna áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina, þrátt fyrir að fyrir liggi skýrsla um málið frá 2001, og allir nema ráðamenn geri sér grein fyrir að kerfið hafi nú þegar lagt mörg sjávarpláss í rúst. Neikvæð áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina hafa verið öllum ljós, nema sægreifum og ráðamönnum.

Ég átti erindi á Breiðdalsvík um daginn, þar voru fáir á ferli nema ferðamenn að fylla á bifreiðar sínar - úr sjálfsala. Tvær trillur voru við bryggju en enginn var á ferli við höfnina. Enginn bátur sást á hafinu svo langt sem augað eygði. Þaðan ók ég norður um til Egilsstaða, yfir Hellisheiði eystri og norður fyrir Sléttu til Akureyrar.

Ofan af Hellisheiði eystri var engan bát að sjá til hafs á Héraðsflóa og engan heldur á Vopnafirði. Í kauptúninu var lítið um að vera og ekkert líf við höfnina. Á Bakkaflóa sáust 2 trillur undan Langanesi.

Á Þórshöfn var sama sagan, örfáir bátar við bryggju en ekkert fólk að vinna, enginn fiskur og enginn bátur sást á sjó á Þistilfirði.

Af veginum við Súlur sunnan Raufarhafnar sást enginn bátur á sjó. Raufarhöfn er varla skugginn af sjálfri sér, örfáar trillur en enginn virtist vera í veiðiskap og engin sála var við höfnina. Þarna sá ég Kúbueinkennin, sem ég kalla svo: Húsum ekki haldið við, þau ekki máluð en látin grotna niður. Ein búð, opin fáa tíma á dag, engin dagblöð um helgar og eldsneyti aðeins úr sjálfsala. Þegar ekið var fyrir Melrakkasléttu var heldur engan bát að sjá, ekki heldur í Öxarfirði og á Kópaskeri voru fáir bátar við bryggju og enginn umgangur.

Annað sem einkenndi þessi sjávarþorp var að þar var nær engan fugl að sjá, örfáa hettumáva og fáeinar kríur, það var allt. Þetta var öðruvísi meðan menn stunduðu sjó á Íslandi, þá iðuðu allar hafnir af fugli, sem var að fá sér í gogginn.

Út af Tjörnesi var engan bát að sjá, það var ekki fyrr en kom að Húsavík að einn hvalaskoðunarbátur sást á leið í land með ferðamenn. Talsvert var af trillum í höfninni en lítið um að vera, flestar í biðstöðu vegna kvótaleysis.

Í öllu krepputalinu núna leggja menn til að taka erlent lán til að auka gjaldeyrisforðann. Engum virðist detta í hug að fara í sjóinn og sækja gullið þaðan. Þjóðinni er haldið í kreppu vegna þess að Hafró heldur því fram að það þurfi að "byggja upp þorskstofninn" með friðun, helst veiða ekki neitt. Ráðamenn gleypa ráðleggingarnar hráar þótt löngu hafi verið sýnt fram á að þetta sé líffræðilega ómögulegt. Vitnar þar best um 30 ára árangursleysi þessarar "tilraunar".

Það er á færi sjávarútvegsráðherra að bregða töfrasprota yfir sjávarþorpin og landið allt með því að auka aflaheimildir, stokka allt kerfið upp - og reka þjálfarann. Fyrir hverja er annars verið að reyna að byggja upp fiskstofnana? Það verða brátt engir eftir til þess að veiða.

Heimild; Fréttablaðið 24.07.2008: Höfundur; Jón Kristjánsson fiskifræðingur.


Of veðsetning aflaheimilda (allt í plati verðmæti)

xls Hér má sjá raunvirði aflaheimilda.

Gera má ráð fyrir að (of) veðsetning aflaheimilda (loft) sé miðað við núverandi rekstrarforsendur um 300 milljarðar.

Heimild Seðlabanki Íslands.

Hér sjáum við stöðuna (heimild Seðlabanka Íslands) eins og hún var fyrir fall krónunar og er því mjög líklegt að ofangreindar fullyrðingar um of veðsetningu aflaheimilda sé mjög á rökum reistar.

áhyggjufullur kvótaeigandi

Vek athygli á meðfylgjandi link; http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/599027/


mbl.is Afskriftir upp á hundruð milljarða kr.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rommkópar - tálbeita hákarlamanna

theódor friðriksson - hákarlalegur og hákarlamenn 003

Á seinni hluta nítjándu aldar kom til sögunnar ný beita sem íslenzkir hákarlamenn sögðu algjöra byltingu við veiðar á hákarli; voru það litlir selkópar vestan frá Breiðafirði, og voru þeir látnir liggja í pækli í heilu lagi í sterku íláti.

En það merkilega við þessa hákarlabeitu var það, að selkóparnir voru ekki ristir á hol, heldur voru þeir aðeins opnaðir með svolítilli stungu, þegar búið var að veiða þá, og var sterku rommi helt gegnum smuguna inn í kópinn; vínandinn samlagaðist innýflunum og blóðinu og fóru út í spikið; var þess og vandlega gætt , að rommið færi ekki út úr skrokknum aftur og vandlega saumað fyrir opið.

theódor friðriksson - hákarlalegur og hákarlamenn 009Þegar kóparnir voru teknir upp úr ílátinu voru þeir skornir sundur í smábeitu, og angaði af þeim lyktin er þeir voru opnaðir, enda var ekki tútt um að sumir drykkjumenn langaði til að bragða á romminu, sem inn í þeim var, ef þeir voru alveg vitundarlausir af brennivíni. – Þetta voru nefndir rommkópar og voru þeir einhver hin allra mesta tálbeita fyrir hákarl.

Á þessum hákarladöllum  - eins og hákarlaskipin voru nefnd – var útbúnaður allur með líku móti. Menn beittu hrossakjöti og selspiki. Skinnið var látið tolla við selbeiturnar og stungið hníf í gegnum hverja beitu; var önnur beitan höfð af sel og önnur af hrossakjöti – á víxl. –

theódor friðriksson - hákarlalegur og hákarlamenn 006Mörgum beitum var beitt í einu, var þeim þrýst upp eftir leggnum á „sókninni“  (hákarlaönglinum), síðast var bugurinn fylltur með ýmsu gumsi úr hákarlinum, svo sem munnamögum, gallhúsum, hjörtum o. s.frv., og tóbaksmenn gerðu sér það oft að reglu að hrækja á beituna um leið og sókninni var kastað fyrir borð. –

Við vaðsteininn var járnkeðja, tveggja faðma löng, sem fest var við sóknina, en milli vaðarhaldsins var kaðalspotti á að gizka faðmur á lengd, sem kallaður var „bálkur“.

Heimild; Theódór Friðriksson - Hákarlalegur og hákarlamenn.


mbl.is Drýgir dísilolíuna með hákarlalýsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eruð þið, sjómenn og sjómannskonur ?

urður ólafsdóttir

Urður Ólafsdóttir skrifar: 

Mér er það sífellt undrunarefni hvernig Alþingi gat á sínum tíma ákveðið að afhenda útgerðum kvótann sem safnast hafði á hendur þeirra. Með því að binda hann ekki með nokkrum hætti við byggðarlög er ástandið eins og það er. Sjávarþorp landsins eru að leggjast í eyði.

Því er ekki flaggað hverjir öfluðu kvótans til þessara fyrirtækja. Það voru sjómenn sem með dugnaði og ósérhlífni sóttu sjóinn og lögðu útgerðunum kvótann til. Mér sem ekkja eftir dugandi sjómann er alveg ljóst að þótt fyrirtæki hafi átt skip og útgerð hefði ekki orðið til kvóti nema að um borð í skipunum væru dugmiklir sjómenn.

Engin útgerð hefði haft skipstjóra á skipi sínu sem ekki hefði komið með afla að landi, og enginn skipstjóri aflað nema með góðri skipshöfn. Það er ekki svo ýkja langt síðan að sjósókn sem lýst er í bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti, var stunduð á Íslandi.

Ósvörin við Bolungarvík er lýsandi minnismerki um þann tíma og líka til að minna okkur á hvað þurfti til að koma okkur upp úr þeirri eymd sem þjóðin var í. Með dugnaði sjómanna varð til afurð sem hægt var að selja úr landi.

Hvað ætli margir sjómenn hafi farist við störf sín á síðustu öld? Sem betur fer er ekki her á Íslandi en sjómennskan var í raun eins og herþjónusta. Það var ekki um margt að ræða á atvinnumarkaðinum og því síður í menntamálum svo þá var bara að fara á sjóinn.

Í þau 45 ár sem ég hef fylgst með störfum sjómanna hafa þeir tvisvar sinnum staðið saman og siglt til hafnar. Í fyrra skiptið var það útaf síldarverði 1967 og 1975 út af olíuverði sem átti að taka af óskiptum hlut sem þýddi launaskerðingu.

Hvað er að ykkur, sjómenn? Hvers vegna standið þið ekki saman og berjist fyrir rétti ykkar? Þið megið ekki skilja þrjá eða fjóra sjómenn eftir í baráttunni fyrir rétti ykkar allra. Þetta er réttur sem allar hetjur hafsins sem horfnar eru börðust fyrir og þið eruð búnir að láta ræna af ykkur.

Hvar eruð þið, sjómannskonur og verkakonur þessa lands? Látið í ykkur heyra áður en menn ykkar verða allir komnir inn í álverksmiðjur, olíuhreinsistöðvar eða í biðröð eftir atvinnuleysisbótum. Það er ekki pláss fyrir alla á ríkisjötunni til að hækka launin sín. Það er bara fyrir fáa útvalda.

En þið, sjómenn, þurfið að berjast fyrir því, annars verðið þið sem stétt ekki til eftir nokkur ár.

Grein úr Fréttablaðinu 16.07.2008; höfundur Urður Ólafsdóttir, ekkja Sigurðar Bjarnasonar (Sigga Bjarna) skipstjóra frá Bíldudal


Ár makrílsins á Vestfjörðum

fyrsti makríllinn á land á tálknafirði 006Ársæll faðir minn Egilsson (fæddur 1931) skipstjóri og vinur hans Kristinn Adólf Gústafsson (fæddur 1939) silgdu saman á Innari-Lambeyrarbátnum (opin plastskekta með 10 ha, utanborðsmótor) að kvöldi dags 16. Júlí (2008) og héldu til veiða með sjóstöng.

 

Fram af bænum Hvammeyri sem er sveitabær handan við þorpið í Tálknafirði hlupu á tveir makrílar í einu kastinu hjá Kristni. Ársæll sem er gamalreyndur sjóari sem búið hefur alla sína tíð í Tálknafirði og við Arnarfjörð, varð að vonum undrandi enda ekki veitt makríl síðan sumarið 1974 í Norðursjónum, en þá fékk hann 85 tonna kast af makríl suður af Hjaltlandseyjum. 

fyrsti makríllinn á land á tálknafirði 009Fréttir hafa borist af makríl sem hljóp á færin hjá þjóðverjum fram af Álftamýri í Arnarfirði í síðustu viku og eins herma fréttir að Vilma Djúrhuus sem rær með manni sínum Hans Pauli Djurhuus frá Tálknafirði á opini trillu hafi dregið makríl í Tálknafirði fyrir fáum dögum.

 

 


mbl.is Stórlaxasumar í Hofsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta á að nokkur sjávarþorp á Vestfjörðum leggist í eyði

Vestfirðir 2Hætta er á að byggð muni nánast leggjast af í mörgum sveitarfélögum á Vestfjörðum ef fram fer sem horfir. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðarstofnunar um byggðarlög þar sem fólksfækkun er viðvarandi.

Könnunin heyrði undir þau sveitarfélög sem hafa lifað við viðvarandi fólksfækkun á tímabilinu 1996-2006 og var miðað við 15% fækkun íbúa eða meira.

Undir þessa skilgreiningu féllu 22 sveitarfélög, þar af sex á Vestfjörðum og þau þrjú sveitarfélög sem hafa orðið hvað mest fyrir barðinu á fólksfækkun á landinu. Íbúum Árneshrepps fækkaði um 55,8% á tímabilinu 1991-2006 og er það mesta fækkun á fólki í sveitarfélagi á landinu.

Kaldrananeshreppur er með aðra mestu fækkunina eða 42% á tímabilinu og íbúum Vesturbyggðar fækkaði um 37,2% sem var þriðja mesta fækkun í sveitarfélagi á landinu.

Auk þeirra voru vestfirsku sveitarfélögin Tálknafjarðarhreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur í könnuninni, en að meðaltali fækkaði íbúum í þessum þremur byggðarlögum um 20,4%.

Í skýrslunni kemur fram að margar ógnir steðji að þessum byggðum Vestfjarða. Helst ber að nefna þörfina á bættum samgöngum til Reykjavíkur og milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum, en til að hægt sé að horfa á Vestfirði sem eina heild og möguleiki sé á auknum viðskiptum verði að bæta samgöngur.

Einhæft atvinnulíf og neikvæð íbúaþróun eru einnig vandamál auk aldurskiptingar, en fjöldi eldra fólks er yfir meðaltali á svæðinu. Þar sem hátt hlutfall fólks á Vestfjörðum sé í vinnu við fiskveiðar og fiskvinnslu ógnar kvótaskerðing helstu atvinnugrein Vestfirðinga.

Heimild; BB & Byggðastofnun.

 


Af hverju frystir LÍÚ fisk út í sjó ?

Landfrysting; kaupir rafmagn af landsnetinu og greiðir að jafnaði; 7,50 ÍKR pr, kw stund.

Sjófrysting; kaupir olíu til notkunar um borð í frystiskipi og greiðir að jafnaði; 57,00 ÍKR pr, kw stund.

Er einhver glóra í þessu ?

Tími sjófrystingar er liðin líkt og árabátarnir, kútterarnir og síðutogarnir á öldinni sem leið.


mbl.is Fiskiskip ESB verði bundin í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband