22.7.2010 | 10:13
Frelsið er betra en höft í höndum fárra
Atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er mikilvægara en margan grunar. Margir taka andköf yfir þeirri tilhugsun að frelsi skuli innleitt í eina grein útgerðar þótt það sé aðeins í eitt ár.
Ritstjóri Morgunblaðsins kallar frelsi athafnamanna til úthafsrækjuveiða hvorki meira né minna en aðför að sjávarútveginum. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins rífur í hár sitt yfir þessari ósvinnu.
Hvað er orðið af fánabera einkaframtaksins og frelsisins, Sjálfstæðisflokknum, þegar athafnafrelsi er kallað aðför að öllum 166 eigendum sjávarútvegsins í þjóðareigu?
Það er kannski meira en tímabært að rifja upp ástæðuna fyrir því að atvinnufrelsið er greipt í grundvallarlög landsins. Það er vegna þess að reynslan í gegnum aldirnar hefur kennt þjóðinni þá hörðu lexíu að almenningur tapar mest þegar þrengt er að atvinnufrelsinu.
Þegar fámennur hópur nær tökum eða eignarhaldi á mikisverðum réttindum og getur fénýtt þau í eigin þágu verður það alþýða landsins sem á endanum borgar, alltaf.
Sægreifarnir hafa hrifsað til sín 400 milljarða króna á aðeins 12 árum út úr greininni. Eftir sitja fyrirtækin með skuldirnar. Eignirnar eða öllu heldur peningarnir eru komnir í einkahlutafélög einhvers staðar í veröldinni, vel og vandlega geymdir.
Sum fyrirtækin skulda miklu meira en þau geta nokkurn tíma borgað og nýju bankarnir eru önnum kafnir við að endurskipuleggja sjávarútveginn, eins og það heitir. Það þýðir að selja fyrirtækin til og frá og afskrifa milljarða hér og þar svo þau verði nú rekstrarhæf.
Almenningur borgar. Svo þarf að lækka launakostnað til þess að geta borgað vextina. Það er gert með því að fækka störfum, lækka launin og láta sjómenn borga hlut af kvótakostnaðinum. Almeninngur borgar það líka.
Bankarnir, LÍÚ og Sjálfstæðisflokkurinn vilja að áfram geti 166 handhafar kvótans ráðið því hverjir þá að fara á sjó, vilja áfram að handhafarnir hafi sjálfdæmi um það verð sem greiða skal þeim hinu sömu fyrir sjóferðina og heimildina til þess að veiða fiskinn , vilja áfram geta mergsogið sjávarútveginn í eigin þágu, vilja áfram hafa kvótann á tegundum sem ekki eru veiddar og vilja áfram hafa víðtækar og rúmar heimildir til þess að selja, framselja, víxla, umbreyta, geyma, týna og skipta kvóta milli fisktegunda, skipa, ára og manna.
Þetta óskabarn braskaranna, kvótakerfið, er það ópíum sem gert hefur hagsmunasamtök og stjórnmálaflokka að uppdópuðum herfylkjum gráðugra og samviskulausra sem hafa glatað uppruna sínum og muna ekki lengur til hvers þau voru stofnuð.
Leiðin út úr spillingunni er í gegnum atvinnufrelsið. Þá koma fram einstaklingar á heilbrigðum forsendum og ýta ónytjungunum til hliðar. Einokunarkaupmenn fyrri alda vildu ekki samkeppni því hún var aðför að þeim. Almenningur bar kostnaðinn af einokuninni og hagur hans batnaði ekki fyrr en leikreglunum hafði verið umbylt.
Einokunin var aðför að almenningi. Frelsið var það sem skipti sköpum. Með tilkomu verslunarfrelsins, sem Jón Sigurðsson, barðist hvað mest fyrir, fengu ungir útvegsbændur og sjómenn á Vestfjörðum tækifæri til þess að hasla sér völl í útgerð og verslun.
Framfarir urðu stórstígar á næstu áratugum og hagur almennings batnaði svo um munaði.
Það þurfti að afnema einokunina fyrst, því meðan hún var við lýði voru mönnum allar bjargir bannaðar. Einokunarkaupmaðurinn tók allan hagnað til sín og mergsaug almenning og atvinnuvegina.
Sama hefur gerst á síðustu 15 árum í sjávarútveginum. Sjá menn ekki skuldirnar á fyrirtækjunum?
Sjá menn ekki hvað laun hafa lækkað? Sjá menn ekki hvað fólki hefur fækkað í sjávarplássunum? Sjá menn ekki skattasvindlið, aflandshlutafélögin, einkahlutafélögin og útrásarskömmina?
Ef það er aðför að einokunarmönnunum að breyta kerfinu er kerfið þá ekki aðför að almenningi?
Nú er frelsið til þess að veiða úthafsrækju svo yfirþyrmandi að einokunarmenn eru skelfingu lostnir. Þeir minna helst á dýr sem hefur verið lengi innilokað í búri.
Þegar það er opnað þorir dýrið ekki að vera utan hins lokaða heims og kýs að dvelja áfram inni í búrinu. En frelsinu fylgja tækifæri sem annars eru ekki fyrir hendi.
Með frelsinu koma menn sem nýta sér tækifærin. Sjá leiðir sem einokunarmennirnir fundu ekki og eflast af störfum sínum. Af því hefur almenningur mikinn ávinning.
Öll árin sem einokun var á úthafsrækjuveiðum varð almenningi dýr. Einokunarmennirnir notuðu kvótann til þess að fénýta veiðiheimildir í öðrum verðmætum fisktegundum og mergsugu útgerðirnar sem veiddu fiskinn.
Einokunin kom í veg fyrir að aðrir spreyttu sig á því að veiða úrhafsrækjuna.
Hún drap niður einkaframtak og útsjónarsemi. Einn útgerðarmaður á Ísafirði hefur árum saman lagt fyrir sig þessar veiðar, en hefur ekki átt kvóta. Hann sagði fyrir réttu ári í blaðaviðtali að honum kæmi best að hafa frjálsar veiðar.
Það eru líklega ómældar fjárhæðir sem hann hefur mátt greiða í vasa ópíumliðsins, sem betur hefðu verið komnar í fyrirtækinu.
Nú hefur þessi útgerðarmaður keypt kvóta og snúið við blaðinu. Hann vill núna loka veiðunum fyrir utangarðsmönnum. En það sem þessi ágæti Ísfirðingur hefur sannað á undanförnum árum með dugnaði sínum og þrákelkni er enn í fullu gildi.
Hann væri í dag mun betur staddur ef hann hefði betur notið frelsis síns á þessum árum. Hann skapaði vinnu þegar einokunarmennirnir gátu það ekki. Hann skapaði verðmæti þegar hinir sátu með hendur í skauti. Atvinnufrelsið er betra en höft í höndum fárra.
Frjálsar veiðar er góð leið út úr ruglinu og þegar til þess kemur að takmarka þarf veiðarnar á nýjan leik verður hægt að setja kerfi sem byggist á atvinnufrelsi.
Atvinnueinokun kvótakerfisins á heima á öskuhaugum sögunnar.
Grein eftir Kristinn H. Gunnarsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:26 | Facebook
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 61
- Frá upphafi: 764337
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flott grein, það verður að stoppa þessa þjóðníðinga,
Sjálfstæðisflokk, LÍÚ, bankana og hina 166 .
Aðalsteinn Agnarsson, 22.7.2010 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.