5.2.2007 | 01:39
Níundi hver Íslendingur dáinn úr hungri og hungursóttum.
Annó; 1757: Kvikfénaði nálega eytt í hallærinu og aragrúi fólks á vergangi.
Einn grimmasti harðindakafli og mannskæðasta hallæri, sem gengið hefur yfir landið um mjög langt skeið, hefur staðið með meiri og minni felli fólks og fénaðar í sjö ár. Mun ekki fjarri lagi, að senn hafi sex þúsundir manna dáið af hor, hungri og hungursóttum á þessum árum.
Áður en þetta hallæri gekk í garð, voru landsmenn orðnir nálega fimmtíu og eitt þúsund, eða fyllilega jafn margir og fyrir Miklubólu, þrátt fyrir mörg hörð ár á tímabilinu frá 1737-1747 og nokkurn manndauða af þeim sökum. Hefur því að minnsta kosti níundi hver maður orðið hallærinu að bráð eða því sem næst. Er þó ekki séð fyrir endann á mannfallinu.
Mikill fjöldi býla er nú í auðn í öllum héruðum landsins, bústofn landsmanna nálega eyddur, en flokkar förufólks á reiki um allar sveitir. Í fyrra dóu yfir 2000 menn í landinu og í ár 2400. Er það helmingi meiri manndauði en eðlilegt er. Það er dæmi um hungrið og vesöldina á Snæfellsnesi, að í Breiðuvíkurhreppi hafa 134 dáið, en 93 í Neshreppi. Svo stórlega hefur dregið úr barnsfæðingum, að ekki fæddist í Hólabiskupsdæmi nema eitt barn á móti hverjum þremur, er fæddust það ár fimmta tugar aldarinnar, er fæðingar voru flestar.
Alls skonar sóttir leggjast mjög þungt á fólkið, og margir, sem hjara, eru ekki rólfærir. Sums staðar missir fólk tennur, aðrir kreppast, og mörg ókennileg óáran þjakar landsmenn. Loks hafa orðið stórfeldir mannskaðar á sjó því djarft er sótt í bjargarleysinu, en þol og þrek lítið.
Flest þessi ár hafa verið mjög hörð, en allramestur hefur mannfellirinn verið tvö síðustu árin. Hafís var við landið árin 1754-1756. Í fyrra kom hann með einmánuði, fyllti hvern fjörð og hverja vík umhverfis landið og komst suður um, allt til Vestmannaeyjar og Reykjanes. Í hitteðfyrra lá hann fyrir Norðurlandi frá útmánuðum og fram í september, en litlu síðar hófst ógurlegt Kötlugos með jökulhlaupi og öskufalli, og lauk því eigi til fullnustu fyrr en síðsumars í fyrra.
Jarðskjálftar urðu þá miklir í Þingeyjarsýslu. Veturinn 1754, sem menn nefna Hreggvið, voru sífeldar aftakahríðar, og var sú skorpa átján vikur í sumum útsveitum á Norðurlandi, en jörð kom ekki upp fyrr en um sumarmál. Veturinn 1752 var svo frostharður, að frostsprungur sáust fjörtíu faðma langar með mörgum þversprungum í dölum niðri sumarið eftir.
Þessum vetrarhörkum hefur fylgt fiskileysi, enda oft ekki verið hægt að róa fyrir ís í marga mánuði samfleytt, en grasleysi og óþurkar að sumrinu. Í fyrrasumar var hörkufrost og snjóar í júlí og ágúst norðan lands, og sums staðar varð snjórinn álnardjúpur á jafnsléttu 26. júlí. Þá hófst þar ekki sláttur fyrr en undir ágústlok, er hafís hafði lónað frá, og hvorki hafði þorskur gengið fyrr á mið né lax í ár. En þá gerði óþurka svo mikla, að hey náðist ekki í garð og var seinast flutt heim í klakahnausum síðla hausts.
Engin héruð hafa orðið jafnhart úti og Múlaþing og nyðri hluti Þingeyjarsýslu, en þar næst syðri hluti Vesturlands. En um allt land hefur búfénaður hrunið niður og fólkið verzlast upp, þegar það var svift björg sinni. Á Norðurlandi féllu 4500 hestar og fimmtíu þúsund sauðfjár veturinn 1754, en nautpeningi var lógað. Hestar átu hræ þeirra sem dauðir voru, og sauðfé ullina hvað af öðru. Mörg stórbýli urðu þá þegar nálega hestlaus og sauðlaus, því sum staðar féllu tvö til þrjú hundruð fjár og tuttugu til þrjátíu hestar. Í fyrra voru tuttugu jarðir Hólastóls í Fljótaumboði komnar í eyði, og þá greiddust þaðan aðeins tuttugu ríkisdalir af 227, er greiðast áttu. Síðastliðin vetur var enginn skóli á Hólum sökum vistaskorts.
Um allar sveitir hefur þessi ár getið að líta klæðalítið og örmagna förufólk á rjátli á milli bæja, uppflosnað frá staðfestu sinni, og það hefur verið næsta hversdagslegur atburður að finna lík horfallinna umrenninga á víðavangi og í útihúsum. Í stríðum veðrum hefur fjöldi þessara manna orðið úti. Fólk, sem við bú hefur haldizt, hefur gengið að vinnu sinni máttvana af hungri og hor, og fjölmargir orðið bráðkvaddir á vellinum eða við uppsátrið. Enn deyr fólk unnvörpum, einkum á Suðurlandi, þótt tíð hafi verið skapleg þetta ár, því búfénaður er svo gerfallinn, að fólk hefur ekkert til að lifa við. Stórsér jafnvel á mörgum prestum og beztu bændum.
Í þessari hungursnauð hefur allt verið etið, sem tönn á festir. Hrossakjötsát hefur verið almennt um land allt og fólk sezt að úldnum hræjum horfallina hesta, án þess að nokkrum lögum verði yfir það komið. Norðan lands eru jafnvel dæmi um, að fólk hafi rifið í sig hráar tófur til þess að stilla hungur sitt. Ofan á annað hefur bætzt, að lítil sigling hefur verið til landsins, og í fyrrasumar urðu skip að snúa frá höfnum um miðbik Norðurlands vegna íss, svo þangað barst engin útlend matvara, þegar hennar var allra brýnust þörf. En í fyrra haust linaði gjafakornið sárustu nauðina í bili hjá þeim, er til þess náðu, þótt svo smátt yrði að skipta, að skammt dró. Þó hefur það eflaust treint lífið í mörgum.
Á þessu harðindaskeiði hafa stuldir og þjófnaður magnazt fram úr öllu hófi, svo fé hefur verið stolið úr fjöru, húsum og haga. Í flestum héruðum hefur fjöldi þjófa verið hýddur og markaður og nokkrir hengdir, og er þó sem ekki verði rönd við reist. Víða hafa förumenn gert sig heimakomna á bæjum, þar sem kotungar voru fyrir eða konur einar heima og haft þar það, sem þeir vildu, hvort það var falt látið eða ekki. Hafa menn ekki verið öruggir um heimili sín og eignir, ef þeir þurftu svo heiman að fara, að fáliðað var eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:01 | Facebook
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.