Leita í fréttum mbl.is

Mannfjandsamlega VÍS

Guðmundur Sesar Magnússon

Guðmundur Sesar Magnússon bjargaði lífi tengdasonar síns þegar bát þeirra hvolfdi fyrir austan land rétt fyrir jólin 2009. Sjálfur drukknaði hann.

Héraðsdómur hefur synjað ekkju hans um tryggingabætur af því að hann telst hafa verið við vinnu. Hún segir að hann hafi verið á atvinnuleysisbótum.

Hjónin og prestarnir Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson sögðu með eftirminnilegum hætti frá hetjudáð Sesars, þegar bát þeirra Ívars Smára Guðmundssonar, tengdasonar hans, hvolfdi úti fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar í desember 2009:

Stundum er lífið sjálft stærra í sniðum en nokkurn hefði órað fyrir og mannleg örlög svo þrungin merkingu að maður gerir rétt í því að staldra við, sögðu þau.

Tengdafeðgarnir höfðu ásamt þriðja manni stofnað útgerð og keypt 15 tonna plastbát sem þeir sóttu til Vopnafjarðar og hugðust sigla honum heim í Hafnarfjörð.

Fyrirvaralaust færðu stórar öldur bátinn á hvolf í ólgandi haf skammt frá Skrúð. Sesar og Ívar komust í vélarrúmið þar sem var dálítið súrefni.

Sesar hafði orð á því að nú væri stund þeirra komin og þeir skyldu þá reyna að deyja eins og menn. Og enn var beðin bæn frelsarans, Faðir vor. Þá segir Ívar við tengdaföður sinn: „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.”

[...] Þá horfði Sesar inn í augu hans í myrkrinu og sagði: „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Við svo búið setti hann hönd ofan á hvirfil tengdasonar síns og ýtti honum af afli niður í átt að útgönguleiðinni.

Síðustu kraftana virðist Sesar hafa nýtt til að skutla björgunargalla út til Ívars svo að hann króknaði ekki uppi á kilinum.

Ívari var bjargað en lík Sesars fannst í vélarrúmi bátsins þegar hann var dreginn til hafnar í Fáskrúðsfirði.

Oddrún Kristófersdóttir, ekkja Sesars, segir að hann sjálfur hafi ekki getað gert sér grein fyrir því, þennan örlagaríka morgun, að hann væri í vinnu við að flytja bátinn og ætti því hvorki rétt á bótum úr fjölskyldutryggingu VÍS né ferðatryggingu VISA.

Að þessari niðurstöðu komst héraðsdómur Reykjavíkur í gær; sjá dómana HÉR og HÉR.

Það er ljótt að gera svona, síðasta sort, ég er hneyksluð á þessu, segir Oddrún í samtali við Pressuna og vandar tryggingafélögunum ekki kveðjurnar.

Meira að segja starfsfólkið hjá VÍS er hneykslað út í vinnuveitandann sinn, ég nefni engin nöfn.

Því hafi hann verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri útgerðarinnar. Því hafi þeir þurft bát og verið að sækja hann.

Við vorum tryggð í bak og fyrir, við vildum vera örugg ef eitthvað kæmi fyrir. En þessi félög segja alltaf nei og freista þess að komast hjá því að borga. Það stóð ekkert á því að bæta gps-tækið og tölvuna fyrir nokkra hundrað þúsund kalla en svo er manni þvælt út í málaferli út af hinu og í versta falli græða félögin vextina á meðan. - Þeir borguðu svo sem líftrygginguna ...

Dómurinn segir að fyrir liggi að félagið ÍSG Ræktun ehf. keypti bátinn Börk frænda NS055 skömmu áður en umræddur atburður gerðist. Tilgangur ferðar Guðmundar Sesars og Ívars hafi verið að sækja bátinn og sigla honum suður. Sesar og Ívar höfðu, ásamt öðrum, stofnað félagið til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi.

Byggði ekkjan á því að Sesar hefði ekki verið á launum um borð í Berki frænda, hann hefði ekki verið lögskráður á bátinn og ekki hefði verið gerður við hann skiprúmssamningur. Þá geti þau verk sem hann skilaði í ferð sinni ekki talist arðsöm að neinu leyti.

En dómurinn segir:

Í almennri orðnotkun merkir frístund frjálsa stund utan vinnutíma.

Þegar metið er hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er slysið varð eða við frístundaiðju verður ekki fram hjá því litið að hann sat í stjórn ÍSG Ræktunar ehf. og var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að kaupin á bátnum voru liður í þeirri starfsemi sem félaginu var ætluð og flutningur bátsins til Reykjavíkur sömuleiðis.

Enda þótt Guðmundur Sesar hafi ekki verið launaður starfsmaður félagsins þykir ljóst að hann hafi, er slysið varð, verið við vinnu í þágu félagsins. Er því fallist á með stefnda að þau atvik sem stefnandi byggir kröfu sína á falli utan gildissviðs [tryggingarinnar] sem stefnandi var með hjá stefnda.

Fengið að láni hjá pressan.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valmundur Valmundsson

Ljótt er að heyra. Réttlát niðurstaða? Réttlætið er ekki virt í þessum dómi. Aðeins lagatæknileg túlkun laganna. Réttlæti er ekki fyrir alla það er nokkuð ljóst.

Valmundur Valmundsson, 14.10.2011 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband