10.2.2007 | 12:48
Afmælisorð í tilefni af 25 ára afmæli Hafransóknarstofnunnar:
Fiskileysis-Guðinn.
Grein eftir Ásgeir Jakobsson rithöfund: Annó; 1995.
HAFRANNSÓKNA STOFNUN á aldarfjórðungsafmæli á þessu ári og heldur uppá það með 150 þús. tonnum, en tók við úr stjórnleysinu 453 þús. tonnum 1971, en það ár lagði Hafrannsókn fram tillögur sínar um samdrátt í afla og svæðafriðun fyrir ungfisk.
Þjóðin hélt þetta fyrir "vísindi", og var alsæl að eiga nú framtíð hinna mikilvægu þorskveiða undir verndarvæng vísinda og þurfa ekki lengur að búa við óvissu í þorskbúskapnum. Það var vissulega lokkandi loforð stofnunarinnar um 500 þús. tonna jafnstöðuafla eftir 1992, ef ráðgjöf stofnunarinnar væri fylgt.
Í þorskbúskapnum hafði það gengið svo til í stórum drætti sagt undir náttúrunni, að það skiptust á nokkur aflaár og síðan tóku við önnur álíka mörg aflaleysisár og þá tók þorskaflinn að glæðast á ný. Þetta gekk einnig líkt þessu á vélbáta- og togaratímanum fram til 1952, að svonefndur Nýsköpunarfloti, íslenzkra báta- og togara og erlendra togara var kominn í sóknina. Nú er rétt að minna lesandann á það, að það er sitthvað útgerðardæmi og fiskistofnsdæmi. Það fyrra snýst um hagkvæmni í útgerð og sókn í aflann, en hið síðara hvað veitt er mikið magn úr stofninum, og um það snýst allt málið hér. Nýsköpunarútgerðin var strax á hausnum af ýmsum orsökum, en það kemur ekki hér við sögu, heldur gerðist undur, í sókn þessa flota.
Í rétt tuttugu ár, 1952-72, gaf íslenzka þorskslóðin, sem fyrst var ekki nema 43 þús. ferkm en uppúr 1961 75 þúsund ferkm, af sér jafnstöðuþorskaflann 438 þús. tonn. Þorskurinn féll aldrei á þessu tímabili í ördeyðu, eins og gerst hafði í fiskveiðisögunni fram að þessum tíma. Ársaflinn fór eitt ár niður í 338 þús. tonn og annað í 380 þús. tonn, en lá annars á bilinu 400-450 þús. Þrjú ár fór hann yfir 500 þús. og náði 546 þús. tonnum mest. Síðasta ár þessa sóknartíma, okkar og útlendinganna, 1971, var aflinn 453 þús. tonn.
Á árinu 1971 fórum við Íslendingar að berjast í því að reka útlendinga út fyrir 50 sjómílurnar, því að þeir tóku þriðjung og sum árin helming þess afla, sem miðin gáfu. Það var náttúrlega fiskimönnum og allri þjóðinni mikið gleðiefni þegar þetta tókst, og við fengum þar 216 þús. ferkm fiskislóð til að erja einir, og vorum þess albúnir að taka til okkar hlut útlendinganna. Við töldum víst að okkur bæri að halda uppi sömu sókn og þegar útlendingarnir erjuðu miðin með okkur, og þau höfðu gefið jafnstöðuaflann, 438 þús. tonn, í tuttugu ár.
Þar sem menn vissu þetta eindæma í íslenzkri fiskveiðisögu að fiskur héldist í þessu aflamagni svo langan tíma, og væri eðlilegt að álykta að þetta væri sú erjun, sem íslenzk þorskmið þyrftu, ef þorskur ætti að haldast á þeim, og fyrri gangurinn fjagra og fimm ára fall og ris á víxl væri úr sögunni með 400-450 þús. tonna grisjun árlega.
Kemur þá ekki Hafrannsókn yfir okkur eins og finngálkn ofan af fjöllunum og tilkynnir að hún sé nú "vísindalega" í stakk búin að stjórna fiskveiðum á Íslandsmiðum og hefur engar vöflur á, leggur fram tillögur um samdrátt í aflabrögðum með stórfelldum svæðafriðunum fyrir ungfisk. Ég var mikið viðriðinn fiskveiðimál á þessum árum, hélt úti svonefndri Sjómannasíðu í Morgunblaðinu og vann við Ægi, tímarit Fiskifélagsins. Það greip mig strax að það væri óheillaráð að safna saman ungfiski á einangrunarsvæðum og þar með frá öðrum hlutum þorskstofnsins úr veiðunum. Mér var strax spurn hvort við værum ekki að rjúfa með ófyrirsjáanlegum afleiðingum lífkeðjuna í þorsklífinu.
Þá var mér og spurn, hvaða trygging væri fyrir því, að ungfiskurinn hefði nóg æti á þessum svæðum. Ég skrifaði grein 1975 þar sem ég spurði um þekkingu á "beitarþoli" íslenskra sjávarhaga. Ég taldi þá þekkingu nauðsynlega ef stjórna ætti þorskveiðum í þeim mæli sem Hafrannsókn ætlaði sér. Þessu svaraði náttúrulega enginn enda voru mín fræði lítið vísindaleg, ég vitnaði einfaldlega til þess að enginn bóndi setti á lömb til eldis án þess að þekkja heyforða sinn.
Ég var og mjög harðorður á því að við ættum að halda uppi sömu grisjun og á tímabilinu 1952-72 og grisja með 400-450 þús. tonna veiði og veiða sem jafnast úr stofninum, ekki vernda einn hluta hans, hugsanlega á kostnað annars hluta. Fyrsta verk Hafrannsóknar 1971 var að gera úttekt á stofninum sem hún tæki við, en hún taldi sig vel búna til talningar og vigtunar. Hafrannsókn taldi í stofninum 873 milljónir ungfiska 1-2 ára. Allur væri stofninn að þyngd 1,5 milljónir tonna, þar af hrygningastofninn 700 þús. tonn.
Þetta sýndist allgóður þorskbúskapur og ekki ástæða til breyttra búskaparhátta, þar sem síðasta árið, 1971, hafði þorskaflinn verið 453 þús. tonn okkar og útlendinga.
Lúðvík Jósefsson, sem var sjávarútvegsráðherra, tók illa aflasamdráttartillögum Hafrannsóknar en féllst þó á svæðafriðanir í því skyni. Aflabrögðin á miðunum drógust saman bæði með friðununum á góðum aflasvæðum og við Íslendingar búnir að hamla veiðum útlendinganna verulega.
Okkar afli dróst saman um 25 þús. tonn á árinu 1972 og afli útlendinganna um 30 þús. tonn. Þar með var hafin sú aflasamdráttar- og ungfisksfriðunarstefna sem enn er í fullum gangi og á því 25 ára afmæli um þessar mundir.
Á 20 ára stjórnunarafmæli Hafrannsóknar bar ég saman heildarþorskafla af íslenskum þorskmiðum og 20 áranna fyrir hennar stjórnunartíð. Á fyrra tímabilinu 1952-72 hafði 43-75 þús. ferkm þorskslóð gefið af sér 8.763.000 tonn þorsks, en Hafrannsóknartíminn, þorskslóðinn þann tíma 216 þús. ferkm (50 sjómílurnar) og síðan 758 þús. ferkm (200 sjómílur) gefið af sér 7.182.000 tonn þorsks. Munurinn þá orðinn 1.581.000 tonn eða rétt um 80.000 tonnum árlega. Hrygningarstofninn, sem hafði verið 700 þús. tonn, var fallinn niður í 300 þús. tonn.
Það hafði fljótt mátt greina að Hafrannsókn hafði tekið ranga stefnu. Árið 1974 vildi Hafrannsókn fara að sjá árangur á svæðafriðunum sínum á ungfiski ársins frá 1971 og taldi saman þriggja ára fisk í þorskstofninum til að vita hvernig til hafi tekist um þessar 873 milljónir ungfiska 1-2 ára. Það reyndust ekki hafa komist lífs af í þriðja árganginn nema 342 milljónir fiska.
Þar sem ungfiskur 1-2 ára er ekki veiðanlegur, var ekki hægt að kenna veiðunum um þetta fall og það var ekki nóg um þetta heldur virtist hafa orðið viðkomubrestur í öllum árgöngum og Hafrannsókn gaf út sína frægu tilkynningu "Þorskstofninn í gereyðingarhættu". Jafnframt þessu lagði Hafrannsókn fram áætlun um 500 þús. tonna jafnstöðuafla eftir 1992 ef ráðgjöf hennar væri fylgt.
Menn urðu skelfingu lostnir og möskvar voru stækkaðir í vörpum og svæðafriðanir stórauknar, teknar góðar fiskislóðir af flotanum allsstaðar við landið og það tókst að draga saman þorskaflamagnið. Árið 1978 var aflinn kominn niður í 328 þús. tonn og þótti nú mörgum lítið leggjast fyrir 758 þús. ferkm þorskslóðina ungann úr Norðaustur- Atlandshafi sem við höfðum þá orðið einir til umráða. Í sömu tilkynningu var hrygningarstofninn sagður "aldrei minni".
Fylgni.
Það er lygimál, sem margur mælir að ráðgjöf Hafrannsóknar hafi ekki verið fylgt. Um er að ræða sem svarar 85% fylgni. Árið 1992 gerði Hafrannsókn sjálf úttekt á fylgninni og sagði þá þorskafla umfram ráðgjöf nema 500 þús. tonnum. Heildaraflinn var þá orðinn undir ráðgjöf Hafrannsóknar frá 1971 7.182.000 tonn og þessi 500 þús. tonn því ekki nema 14% skortur á fullri fylgni.
Menn hafa átt það til að reikna þetta dæmi á ýmsa vegu og nenni ég ekki að elta ólar við það, því að það er aðalatriðið, að fylgnin, hvort sem hún er reiknuð 80 eða 85% hefur ekki skilað sér í neinu nema öllu verra en áður var. Þetta gæti ekki hafa skeð nema af því að fiskveiðistefna sem Hafrannsókn tók 1971 hafi verið röng stefna.
Þegar sjávarútvegsráðherra talar um að auka fylgnina í 100%, er komið upp það sama og hjá sjúklingi sem gefið hafi verið árlega 80 eða 85 glös af sama meðalinu og hann væri að tærast af því í beinagrind, þá kæmi læknirinn og yki meðalagjöfina í 100 glös. Menn geta glatt sig yfir því að Þorsteinn er ekki í heilbrigðisgeiranum. Með aukinni fylgni stefnir Þorsteinn trúlega að því að ná árið 2000 aldamótaaflanum árið 1900.
Vanþekking.
Uppúr 1980 þegar óyggjandi var orðið að nýliðunin skilaði sér ekki samkvæmt áætlunum Hafrannsóknar og fiskur tekinn að léttast sífellt í árgöngum og hrygningastofninn yngdist og dróst saman fóru fiskifræðingar og líffræðingar að færa fiskifræðileg og líffræðileg rök fyrir rangri stefnu Hafrannsóknar. Það gekk maður eftir mann í skrokk á Hafrannsókn.
Í allri þeirri hríð, sem gerð var að Hafrannsóknastefnunni, og hún mest á árunum 1982-1985, kom í ljós og viðurkennt allt af flestum sérfræðingum Hafrannsóknar, að það var æði margt sem stofnunina vantaði að vita um vistkerfi þorsksins til stjórnunar, er nema von að maður spyrji sig: hvílík ofdirfzka hefur það ekki verið af stofnuninni að taka til að stjórna þorskveiðum 1971 með alla þá vanþekkingu í farteskinu sem í ljós kom:
Það vantaði þekkingu á fæðumagni einstakra sjávarhaga og þar með þekkingu á vaxtarskilyrðum, þá vantaði og þekkingu á því, sem gerðist á klakstöðvunum, og þá af hverju lítill stofn átti til að skila betra klaki en stór, þá var og ekki heldur þekkt af hverju mikið seiðamagn skilaði sér ekki í ungfiski, og ekki heldur var það þekkt af hverju mikill ungfiskur skilaði sér ekki af friðunarsvæðunum inní þriggja ára fisk í veiðunum, ekki heldur var þekkt hver áhrif einn fiskstofn hafði á annan, né heldur innbyrðisáhrif í stofninum sjálfum, til dæmis hvað stórfiskur æti undan sér, og ekki heldur þekktu menn náttúrulegan dánarstuðul þorsksins, gáfu sér þann stuðul út í bláinn.
Reiknilíkön.
Þegar nú öll þessi vanþekking lá á borði manna, var tekið til við að spyrjast fyrir um reiknilíkön stofnunarinnar, og hverjar líkur væru á því, að þau gætu reynzt haldgóð undir allri þessari vanþekkingu á lífríkinu. Fiskveiðireiknilíkön eru sett þannig saman, að menn gefa sér stærðfræðilegar hugmyndir um einstaka þætti lífríkisins, sem sé allt það sem fyrr er nefnt, fæðumagn, vöxt, æxlun, fjölgun og náttúrulegan dauða. Þessar stærðfræðilegu hugmyndir um vistkerfi þorsksins, eru síðan samhæfðar þannig að eitt reki sig ekki á annars horn í líkaninu, þá er komið að því að forrita tölvuna með þessum stærðfræðitáknum. Tölvan vinnur síðan skilmerkilega úr þessum hugmyndastærðum, sem hún hefur verið mötuð á.
Þegar það var vitað að Hafrannsókn gerði sér hugmyndir um vistkerfi þorsksins en bjó ekki við þekkingu á því, bárust böndin að því að reiknilíkön Hafrannsóknar væru skökk að gerðinni til og í því sambandi bent á, að reiknilíkanið gæti ekki verið rétt, ef það sýndi að fjölga ætti á slóð, þar sem fiskur væri farinn að hægja vöxt, en það var einmitt að gerast á okkar uppeldisslóð að fiskur léttist í árgöngum. Til að einfalda þetta, tóku menn dæmi af bónda, sem fengi árlega rýrari dilka úr högum sínum og brigðist við því með því að reka sífellt fleiri lömb á fjall. Reiknilíkanið sögðu menn að ætti að sýna sömu niðurstöðu og bóndans, fækka bæri fiskum á slóðinni, ef það gerði þetta ekki væri það vitlaust.
Stjórnvöld.
Þegar litið er til stjórnvalda, báru þau misjafnan hug til Hafrannsóknastefnunnar en tóku þó mark á henni og sögðust eiga von á því að hún skilaði auknum jafnstöðuafla, 500 þús. tonnum, eins og hún lofaði. Ekki er því að neita að stjórnvöldum óx oft í augum samdrátturinn, en hann kom oft á tíðum illa saman við fjárhagslífið í ríkiskassanum .
Þá var og það við að etja hjá stjórnvöldum, að almenningur í landinu lifði í þeirri trú að fiskvernd fælist einvörðungu í því að veiða ekki fisk, þótt íslenzkum almenningi ætti að vera fullkunnugt að náttúran var annarar skoðunar og hafði um aldirnar þegar lítil var sókn, fellt stóra stofna í ördeyðu. Þá stóð og almenningi ógn af veiðigetu flotans, og vildi ekki skilja að henni hafi aldrei verið beitt á þorskinn eftir 1971, og nú er stór hluti flotans horfinn úr þorsksókninni og sækir í aðrar fisktegundir, og á í þeirri sókn í vandræðum með að koma niður veiðarfærum í karfa-, grálúðu- eða rækjuveiðum fyrir þorski, sem ekki má veiða.
Hægt er að fyrirgefa stjórnvöldum fram undir 1980, að þau tóku ekki af skarið og fyrirskipuðu betri nýtingu þorskslóðarinnar, því auðvitað náði þetta ekki orðið nokkurri átt að taka ekki nema 2-300 þús. tonna afla af 758 þús. ferkm í Norðaustur-Atlantshafi, sem við höfðum orðið til umráða.
Þó er þess að geta að Steingrímur Hermannsson verður sjávarútvegsráðherra, 1980, og hann er eins og menn vita allra átta, og hefur níu líf, annars hefði hann verið drepinn. Hann hleypti nefnilega aflanum upp 1980 í 435 þús. tonn, og 1981 í 469 þús. tonn.
Hafrannsókn gekk nú úr öllum ham, og með henni almenningur, ætlaði maðurinn að veiða síðasta þorskinn. Steingrímur guggnaði. Strikið var sett snarlega niður í 388 þús. tonn 1982, og 299 þús. tonn 1983. Jafnt þessum aflasamdrætti var tekið upp skrapdagakerfi á fiskveiðiflotann og næst var sett sóknarmark á flotann, þá sóknarmark og aflamark og síðan loks það kvótakerfi sem nú ríkir.
Allri gangrýni hafa sjávarútvegsráðherrarnir Halldór og Þorsteinn svarað með orðum Steingríms, sem hann fann upp fyrir þau vélmenni, sem á eftir honum komu: "Við höfum ekki annað til að standa á en Hafrannsóknastefnuna." Í þessu sambandi er rétt að minna á, að orðið gapuxi merkir mann, sem gapir hálfvitalega uppí viðmælanda sinn og mælir sífellt sömu orðin.
Stjórnvöld hafa ekki opinberlega gagnrýnt Hafrannsóknastefnuna fyrr en 1992, að Davíð forsætisráðherra sagði: "Of mikið um ályktanir og jafnvel ágiskanir", í skýrslum Hafrannsóknar. Hafrannsókn brást hart við: "Ný skoðun muni engu breyta".
Mig minnir að það væri í þennan mund að fenginn var enskur sjávarlíffræðingur til að kíkja á fiskveiðilíkan Hafrannsóknar. Það er kannski misminni mitt, en ég man ekki betur en til þessarar endurskoðunar veldist prófessor, sem lagt hafði grunninn að fiskveiðilíkani Hafrannsóknar. Mér er ekki kunn önnur endurskoðun utanfrá en þessi.
Undarlegt er það að þingheimur og stjórnvöld skyldu kokgleypa þetta aflamark Þorsteins, 150 þús. tonn. Þingheimur sneri sér strax að því að skipta þessum tonnum milli fiskimanna. Ekkert heyrðist heldur úr atvinnuveginum. Það er eins og allir nema Kristinn Pétursson séu orðnir sáttir við Hafrannsóknaraflann, en getur þjóðin, og fyrir hennar hönd fjármálaráðherra verið sátt við þessi aflabrögð, hlýtur hann ekki að spyrja flokksbróður sinn og samráðherra, hvort það felist einhver áhætta í því að bregða frá þessu lágmarki. Það gæti ekki farið verr en orðið er. Nú væri mál að fara að nýta þorskslóðina betur en gert hefur verið. Óttalegt slys var þetta að fá hann Þorstein ofaní Halldór. Það er í þorsklífinu eins og fyrir þjóðinni á 15. öld að fá stórubólu ofaní svartadauða. Þriðjungur þjóðarinnar fórst í hvorum faraldrinum fyrir sig.
Þessi svæðafriðun ungfisks samfara aflasamdrætti af öðrum hlutum stofnsins hefur reynzt okkur óheillastefna án nægrar vitneskju um lífríkið, hefur stefnan ekki fært okkur annað en fall í ungfiski, rýrari millifisk og rýrari hrygningarstofn, í stað þess sem verið hefði ef við hefðum erjað slóðina með náttúrulegum hætti. En það er á fleira að líta en hvernig til hefur tekizt um það, sem við köllum eigin þorskstofn.
Þorskslóðin á Norðaustur-Atlantshafi hefur gefið af sér um áratugi árlegan þorskafla, sem numið hefur einni milljón og fimmhundruð þúsund tonnum. Við erum með til umráða stóran hluta af þessari víðáttumiklu og gjöfulu þorskslóð og teknir að nýta hana með hundrað og fimmtíu þúsund tonnum. Tímabundnar mælingar Hafrannsóknar hér við landið gefa litla vísbendingu um afla á þessari víðáttuslóð, þar sem þorskur rásar um og gengur á tíðum hratt milli veiðisvæða. Við megum ekki lengur hirða fisk úr þeim göngum og þær fara oft ósnertar framhjá okkur, eða til baka þaðan sem þær komu (Grænlandsgöngur).
Það er komið upp fyrir okkur í fiskveiðimálunum hið sama og gerðist á svonefndum haftaárum 1930-40, við sitjum uppi með forheimskaða kerfiskarla flækta í sinni eigin kerfisþvælu, jafnt í líffræðilegum hluta fiskveiðanna og þeim raunhæfa.
Til þess að brjóta þetta vitleysiskerfi upp líffræðilega og í veiðunum er ekki nema ein leið, og hún er sú að lofa fiskiflotanum í eitt ár að sýna hver veiðanlegur afli kunni að vera á okkar 758 þús. ferkm veiðislóð, og taka síðan upp 4-500 þús. tonna árlega nýtingu og skipta því magninu á flotann.
Það dettur engum í hug að beita árlega allri veiðigetu flotans á þorskslóðina, þótt hún sé orðin víðáttumikil. Hinsvegar verðum við að leggja þeim hugsunarhætti að halda að þorskveiðar okkar snúist lengur einvörðungu um gömlu hefðbundnu slóðina næst landinu. Uppeldistilraunir eigum við að leggja af þar til við höfum þekkingu til þeirra tilrauna.
Það hljóta því allir að sjá hvaða skoðun sem menn annars kunna að hafa á fiskveiðimálum, að 150 þús. tonna nýting á 758 þús. ferkm auðugri þorskveiðislóð er hlægileg vitleysa. Það getur orðið spurning hvenær ESB ræðst inn á okkur með þessari nýtingu á þorskveiði í Norðaustur-Atlantshafi. Við veiðum aldrei síðasta þorskinn úr sjónum, það er ekki hægt, en á landi er vonandi að síðasti þorskurinn heiti Þorsteinn.
Hver sem framvindan verður þá má kalla það staðreynd að Hafrannsóknastefnan sé búin að hafa af þjóðinni á þessum 25 árum eins og 200 milljarða með því að halda ekki áfram sömu grisjun og veiðimunstri og á árunum 1952-72. 80 þús. tonna aflamunur árlega í 25 ár gæti svarað til þessarar milljarðatölu.
Höfundur er rithöfundur.
Ásgeir Jakobsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Facebook
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.