Leita í fréttum mbl.is

Vilja taka upp sóknarmark og nýta allt sem hafið gefur

fiskar

Valbundnar fiskveiðar, þar sem mikið er sótt í fáar tegundir og fiska af tiltekinni stærð, auka hvorki framleiðni né draga úr áhrifum af fiskveiðum á vistkerfi hafsins, að mati vísindamanna sem nýlega birtu grein í vísindatímaritinu Science.

Alþjóðlegur hópur 18 vísindamanna varpar þar fram hugmynd um grundvallarendurskoðun viðhorfa til fiskveiðistjórnunar. Sérfræðingahópurinn, Fisheries Expert Group, heyrir undir alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN.

Greinin (Reconsidering the Consequences of Selective Fisheries) birtist í Science2. mars síðastliðinn. Talsverð umræða spannst um greinina í norskum blöðum, enda Jeppe Kolding, aðstoðarprófessor við Háskólann í Bergen, á meðal höfunda.

Höfundarnir segja að áhyggjur vegna áhrifa fiskveiða á vistkerfi hafsins og fiskimiðin fari vaxandi. Menn hafi leitað ýmissa leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum fiskveiða um leið og reynt sé að koma til móts við aukna þörf fyrir fæðuöryggi.

Þeir nefna aðferðir á borð við aukna sókn í einstakar tegundir, veiðar á tegundum, kynjum og stærðum fiska í öðrum hlutföllum en ríkja í vistkerfinu.

Höfundarnir segja vaxandi vísbendingar um að valbundnar veiðar eins og fyrr er lýst stuðli hvorki að hámarksframleiðslu né dragi mest úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Höfundarnir telja að nýting sem einkennist af meira jafnvægi og breidd muni draga úr neikvæðum áhrifum fiskveiða á vistkerfið og stuðla að sjálfbærum fiskveiðum.

Þessi kenning gengur á skjön við viðtekin viðhorf um fiskveiðistjórnun víða um heim. Höfundar greinarinnar telja hins vegar að sú nálgun sem þeir kynna muni leiða til hóflegrar dánartölu yfir allt svið fiskistofna, það er með tilliti til aldursdreifingar, stærðar og tegunda fiska í hverju vistkerfi í réttu hlutfalli við náttúrulega framleiðni.

Þannig muni náttúruleg dreifing með tilliti til tegunda og stærðar einstakra fiska í hverjum stofni haldast óbreytt.

Daninn Jeppe Kolding, aðstoðarprófessor við Háskólann í Bergen, er eini Norðurlandabúinn í hópi höfunda greinarinnar í Science.

Hann sagði í samtali við norska fiskveiðiblaðið Fiskaren5. mars sl. að góð teikn væru um sjálfbærni norsks sjávarútvegs.

Vandinn sé hins vegar sá að nýting þeirra á fiskistofnunum samræmist ekki þeirri skyldu okkar að breyta ekki vistkerfinu um of.

Hann bendir á að í stað þess að vera með kvóta í einstökum tegundum ætti frekar að vera með tímabundna eða svæðisbundna kvóta – eins konar sóknarstýringu.

Hann telur það mun betra fyrir vistkerfið og að það eigi að fiska meira af smáfiski og nýta betur fleiri tegundir en gert er í dag.

Kolding segir m.a. að Norðmenn eigi að nýta betur ýmsar fisktegundir á borð við síld, loðnu, kolmunna, marsíli (sandsíli) og makríl.

„Við eigum að dreifa álaginu af fiskveiðum jafnt á allar tegundir og stærðir fiska í sjónum í réttu hlutfalli við náttúrulega vaxtarmöguleika þeirra – þá verða áhrifin af veiðunum minnst,“ segir Kolding.

Hann segir í samtali við Dagens Næringsliv2. mars sl. að slík „jafnvægisnýting“ myndi m.a. taka fyrir brottkast á fiski.

Kolding telur að í dag sé 20-30% af veiddum fiski kastað ólöglega aftur í hafið. Þegar sótt sé í tilteknar tegundir og stærðir fiska sé freistandi að kasta meðaflanum og því sem ekki stenst mál fyrir borð.

Fréttaskýring af mbl.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sviðstjóri Hafró gaf álit sitt á þessari frétt um leið og hún birtist í Mbl, ég skrifaði smá komment:

Björn Ævarr, sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafró, misskilur hrapallega hvað vísindagreinin í Science, sem Morgunblaðið gerði skil í gær, fjallar um. Hann segir að "Þarna sé í raun og veru verið að benda á að ekki sé hægt að ná hámarksafrakstri úr öllum stofnum í vistkerfi samtímis". Hvað á hann við? Á að hámarks ýsuafla í 2 ár, svo ufsaafla í 3 ár, þorsk næstu 3 ár og taka svo aftur til við ýsuna?



Megin niðurstöður vísindamannanna 18 eru þær að það sé röng veiðistjórnun að veiða ofan af fiskstofnunum þ.e. veiða þá stærstu og friða þá minni í þeirri von að þeir verði stærri seinna. Þá sé það sé rangt að veiða einn stofn fram yfir annan.



Ekki sé rétt að stýra veiðiálagi með aflakvótum heldur eigi að stjórna sókninni og veiða bæði stórt og smátt og hirða það sem kemur á dekk. Björn misskilur enn þegar hann sagði: "forsendu þess að það gengi upp það sem greinarhöfundar kynna að neytendur væru tilbúnir að borða alls konar tegundir sem ella hefðu verið fóður fiska".



Í greininni er það er ekki verið að tala um að þvinga eigi fólk til að éta allar tegundir, þó Kínverjar og Japanir geri það reyndar, heldur að það eigi að veiða allar tegundir og ekki friða smáfisk sérstaklega með veljandi veiðum. Þetta kæmi í veg fyrir að afla, sem ekki er kvóti fyrir, sé hent. Það sem ekki er markaður fyrir fer þá í bræðslu eða í sjóinn aftur eins og það gerir reyndar nú þegar.



Það er býsna alvarlegt mál þegar nýtingarstjóri Hafró skilur ekki það sem verið er að segja í vísindagreinum hvað þá að hann fari eftir því sem þar kemur fram.



Hafró er búin að rembast við í nær hálfa öld að byggja upp fiskstofna með þeirri aðferð að friða smáfisk til að lofa honum að stækka og veiða lítið í núinu til að geta veitt meira seinna. Þetta hefur brugðist hrapallega. Niðurstöður greinarinnar í Science er kjaftshögg á þessa aðferðafræði, hún skýrir hvers vegna þeirra aðferðir hafa ekki tekist.



Ég er reyndar búinn að segja þeim þetta sama í áratugi án árangurs. Er ekki kominn tími til að hætta vitleysunni?

Jón Kristjánsson, 4.5.2012 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband