Leita í fréttum mbl.is

Hefur Samfylkingin svikið kjósendur sína ?

Jóhann Ársælsson alþingismaður snarvendir seglunum og siglir hraðbyr til hafnar LÍÚ:

dddddddIllugi Gunnarsson skrifar grein í Fréttablaðið sl. sunnudag. Greinin er skrifuð útfrá þeirri sannfæringu hans að séreign á auðlindum sé lausn allra vandamála og skili þegar upp er staðið mestum arði til allra, bæði útgerðarinnar í landinu og samfélagsins í heild.

Rökstuðningur Illuga fyrir þessari sannfæringu hans er fólginn í almennum staðhæfingum um að menn eða fyrirtæki nýti best viðkomandi auðlindir ef þeir hafi séreignarrétt á þeim. Þegar þessi rök eru skoðuð þarf að hafa það í huga að útgerðarmenn á Íslandi hafa með svokölluðu frjálsu framsali veiðiréttar ígildi eignarhalds á tiltekinni prósentu af viðkomandi fiskistofni.

 Fyrirkomulagið felur það hins vegar í sér að hver fiskistofn sem heild er í sameign þeirra. Aflahlutdeildin markar svo hve mikið hver þeirra fær að veiða úr sameigninni. Útgerðarmenn eiga ekki skilgreindar hjarðir á veiðislóðinni. Þess vegna keppa þeir sín á milli um að ná verðmætustu fiskunum úr hjörðinni.

Þessi staðreynd gerir almennar fullyrðingar Illuga og annarra skoðanabræðra hans um kosti séreignar á veiðirétti marklausar. Þessi vandi, að útgerðarmenn berjast hver sem betur getur um verðmætustu fiskana, er óhjákvæmilegur galli á aflamarkskerfinu og veldur brottkasti og vondri umgengni um veiðislóðir.

 Við þessu er brugðist með gríðarlegu eftirliti og hörðum viðurlögum stjórnvalda en því miður er árangur þess eftirlits ekki góður. Ef rök Illuga hefðu einhverja innistæðu væri enginn slíkur vandi á ferðinni. En reynslan hefur afsannað þau enda er ekki um eiginlega séreign að ræða svo það var ekki við því að búast. Gallar aflamarkskerfisins til fiskveiðistjórnunar eru fólgnir í kerfinu sjálfu en hafa ekkert með fyrirkomulag eignarhaldsins að gera.

Aflamarkskerfið stendur hvorki eða fellur með séreign á veiðirétti. Því verður hins vegar að stjórna af festu og byggja reglur þar um á grunni bestu þekkingar með fullu tilliti til þeirrar praktísku reynslu sem fæst af einstökum stjórnunarþáttum. Það sama á hér við, hvernig sem eignarhaldinu á veiðirétti er háttað.

Þó að aflamarkskerfið hafi ýmsa galla og ekki séu góð rök fyrir því að beita því við allar veiðar telur Samfylkingin að ekki hafi komið fram betri leið til að stjórna sókn í þá fiskistofna sem mest er sótt í. Samfylkingin hefur þess vegna byggt tillögur sínar á því að stuðst verði áfram við aflamarkskerfið.

Markmið tillagnanna er að þjóðareign á auðlindum sjávar verði ótvíræð og meðferð aflaheimilda í samræmi við meðferð annarra auðlinda í þjóðareign.

Veiðiréttindi verði skýrt afmörkuð og tímabundin. Útgerðarmönnum verði tryggt fullt jafnræði til úthlutunar veiðiréttar. Breytingarnar tryggi útgerðinni starfsgrundvöll til framtíðar og þann frið sem forystumenn hennar og þjóðin hafa kallað eftir.

Breytingin valdi sem minnstri röskun í greininni og íþyngi útgerð í landinu ekki um of fjárhagslega. Þessum markmiðum er öllum hægt að ná á grundvelli aflamarkskerfisins og tryggja jafnframt sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Til þess eru fleiri en ein leið fær og Samfylkingin hefur lýst sig reiðubúna til víðtæks samstarfs við útfærslu þeirra.

Höfundur er alþingismaður. Ath; grein úr Fréttablaðinu 22.02.2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband