Leita í fréttum mbl.is

Aflamarkskerfi við fiskveiðar hvetur til brottkasts á fiski og kvótasvindls í stórum stíl:

Eina marktæka skoðunarkönnunin sem gerð hefur verið um brottkast á Íslandsmiðum er könnun SKÁÍS sem gerð var fyrir Kristinn Pétursson 1989-1990:

pppp6.4 Brottkast: Auðlindaskýrsla Forsætisráðuneytisins 2000.

Í fiskveiðum, þar sem hagræn sjónarmið ráða ríkjum, mun eitthvert brottkast ætíð eiga sér stað vegna þess að trúlega borgar sig ekki að koma með allan þann fisk sem veiðist að landi. Í frjálsum fiskveiðum gildir sú meginregla að eingöngu sá fiskur er hirtur sem hægt er að selja fyrir hærra verð en sem nemur löndunarkostni að frádregnum kostnaðinum við sjálft brottkastið. Ragnar Árnason: On catch discarding in fisheries.

Í aflamarkskerfi með frjálsu framsali verður að auki að taka tillit til þess verðs sem hægt væri að leigja kvótann á í stað þess að veiða fiskinn. Fyrir vikið geta verið meiri líkur á brottkasti í aflamarkskerfi. Á móti kemur að í aflamarkskerfinu er líklegra að útgerðir reyni að nota þau veiðarfæri og veiðiaðferðir sem minnka líkur á að verðlítill fiskur veiðist og veiði á svæðum þar sem líklegra er að verðmeiri fiskur haldi sig.

Sjómenn reyna að sjálfsögðu ætíð að veiða sem verðmætastan fisk en í sóknarkerfi og frjálsum fiskveiðum er ekki víst að gefast jafn mikill tími til að velja heppilegustu veiðarfærin eða leita að bestu miðunum. Ragnar Árnason: On selectivity and discarding in an ITQ fishery. Kerfi varanlegra aflahlutdeilda hvetur að auki til meiri umhyggju fyrir auðlindinni, veiðieðli sjómannsins víkur að hluta fyrir búmannssjónarmiðum.

 

Óvíst er því að brottkast sé meira í aflamarkskerfi með varanlegum hlutdeildum en frjálsum veiðum. Þá er einnig óvíst hvort það brottkast, sem á sér stað í aflamarkskerfi, sé meira en viðgengst þegar notaðar eru aðrar aðferðir við að stjórna fiskveiðum. t.d. sóknarstýring. Rétt er einnig að taka fram að oft á tíðum breytist hvaða fiski sé hagkvæmt að kasta, til eru dæmi um fisktegundir sem áður fyrr var hent en þykja nú hið mesta lostæti.

 

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi brottkasts í íslenskum fiskveiðum. Í athugun Hafrannsóknastofnunar frá árinu 1982 kom fram að allt að tveimur þriðju hlutum af veiddum undirmálsþorski eða um 6% af veiddum afla báta á norðvesturmiðum árið 1982 hefði verið fleygt fyrir borð. Tryggvi Björn Davíðsson: Umfang brottkasts sjávarafla. Hafrannsóknastofnun gerði sambærilega rannsókn á umfangi brottkasts hjá togurum árið 1987 og voru niðurstöður hennar svipaðar og þeirrar fyrri.

 

Árið 1992 gerði Hafrannsóknastofnun athugun á brottkasti í úthafskarfaveiðum sem leiddi í ljós að 16-17% af aflanum væri fleygt. Þessi könnun var endurtekin tveimur árum síðar og voru niðurstöður þá svipaðar. Útgerðin Venus í Hafnarfirði gerði einnig athugun á brottkasti í karfaveiðum árið 1995 sem renndi stoðum undir fyrri kannanir.

 

Könnun Kristinns Péturssonar:

Fyrirtækið SKÁÍS gekkst fyrir skoðanakönnun á umfangi brottkasts áramótin 1989-1990. Spurningalistar voru sendir til 900 sjómanna, sem voru á skuttogurum, vélbátum og smábátum, og þeir beðnir að áætla afla og brottkast í einni veiðiferð. Voru 300 í hverjum hópi. Svör bárust frá 591 sjómanni og út frá því var áætlað að rúmlega 40 þúsund tonnum af fiski hefði verið hent árið 1989. Talsverður munur kom fram í brottkasti eftir tegund skips og var brottkast af þorski og ýsu hjá skuttogurum tvöfalt meira en hjá smærri bátum.

 

Vorið 1992 var gerð sérstök athugun á brottkasti fyrir samráðshóp um bætta umgengni um auðlindir sjávar. Aflasamsetning netabáta sem reru samdægurs frá sömu verstöð var borin saman. Um borð í sumum bátunum var eftirlitsmaður en ekki í öðrum. Í ljós kom að 12% af afla netabáta var fleygt sem er afar lágt hlutfall.

 

Þá kannaði samráðshópurinn brottkast hjá skuttogurum með því að biðja trúnaðarmenn um borð í tilteknum skipum að skrá hjá sér afla í veiðiferð og áætla það magn sem fleygt væri hverju sinni. Brottkast af þorski, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu var að meðaltali 2,7%, af karfa tæp 13% og minnst af ufsa og þorski, innan við 0,5%.

Í júní 2000 skýrði Fiskistofa frá athugunum á brottkasti sem gerðar voru í apríl, maí og júní sama ár. Athuguð var aflasamsetning hjá átta bátum í tveimur samliggjandi veiðiferðum á sama veiðisvæði með og án eftirlitsmanns. Fjórir bátanna stunduðu netaveiðar og fjórir voru á dragnót.

 

Niðurstöður sýndu að minna var um lítinn fisk í afla þegar enginn eftirlitsmaður var um borð en stærðardreifingin var meiri þegar eftirlitsmaður var um borð. Í kjölfar þessara rannsókna átti sér stað mikil umræða um brottkast og í framhaldi af því ákvað sjávarútvegsráðherra í júlí að fara skyldi fram könnun á umfangi og ástæðum brottkasts.

 

Jafnframt var ákveðið að fjölga eftirlitsmönnum um borð í fiskiskipum um fimm og ef þörf þykir verða svo aðrir fimm ráðnir í byrjun ársins 2001. Þá á samráðsnefnd um auðlindir sjávar, sem nú starfar, að leggja sérstaka áherslu á brottkast afla. Loks hefur verið rætt um að settar verði eftirlitsmyndavélar um borð í skip og mun sérstakur starfshópur taka þá hugmynd til athugunar.

 

Þær athuganir sem gerðar hafa verið á brottkasti í íslenskum fiskveiðum sýna ekki með óyggjandi hætti að brottkast sé meira hjá einni tegund báta en annarra. Þá hefur reynst erfitt að afla góðra gagna til að meta hvort tilkoma aflamarkskerfisins hafi haft einhver áhrif á umfang brottkasts. Aftur á móti hefur komið fram að mun meira er fleygt af karfa en öðrum fisktegundum.

 

Það skýrist að einhverju leyti af því að sníkjudýr sækja mikið í karfann og gera hann ónýtan. Erfiðlega hefur þó gengið að mæla umfang brottkastsins, ekki síst vegna þess að brottkast er refsivert athæfi þótt engin dæmi sé um það enn sem komið er að sjómenn hafi verið dæmdir fyrir að henda fiski. Þar kann þó að verða breyting á í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband