Leita í fréttum mbl.is

Innköllun aflakvóta í norskri lögsögu veldur deilum:

Norska ríkið leysir til sín kvótana

27.11.2006: Af skip.is

cachalot2Sósíalíski vinstriflokkurinn í Noregi, sem á aðild að ríkisstjórn Jens Stoltenberg, styður hugmyndir um að veiðiheimildunum sé úthlutað til 15 ára. Að þeim tíma liðnum leysi norska ríkið kvótana til sín og úthluti þeim að nýju. Þetta er ljóst eftir umræður innan SV.

Fram að þessu hefur flokkurinn verið á móti framsali og viðskiptum með veiðiheimildirnar en nú segist flokksstjórnin geta stutt slík viðskipti svo fremi sem veiðiheimildunum sé ekki úthlutað til lengri tíma en 15 ára og að þær renni til ríkisins að þeim tíma loknum og komi til endurúthlutunar. Fiskaren greinir frá þessu í dag og vitnað er til flokksformannsins og fjármálaráðherrans, Kristínar Halvorsen í því sambandi. 

Sá háttur hefur verið hafður á í Noregi að eigendur strandveiðiskipa sem eru stærri en 15 metrar hafa getað sameinað allt að þrjá kvóta á eitt skip. Forsendan fyrir þessu fyrirkomulagi hefur verið sá að taka þarf tvo báta úr rekstri á móti kvótunum tveimur og hafa eigendurnir ekki fengið heimild til að nýta þá til veiða eða annarra verkefna. 20% af kvótanum, sem þannig hefur fallið til, hefur verið úthlutað að nýju innan viðkomandi útgerðarflokks þannig að aðeins 80% kvótans hefur færst yfir á bátinn eða skipið sem eftir hefur staðið.

Minnstu strandveiðibátarnir, sem eru 15 metrar eða styttri, fengu ekki leyfi til kvótaviðskipta líkt og stærri bátarnir en þess í stað hafa útgerðarmenn þeirra, að sögn Fiskaren, fengið ýmiss konar stuðning frá ríkinu. Ekki hefur þurft að stjórna sókn þessara báta með kvótum og blaðið segir að reyndin hafi verið sú að allra minnstu bátarnir hafi fengið að stunda nánast frjálsar veiðar stærstan hluta ársins og stærstu bátarnir hafi fengið næstum því tveggja mánaða frjálsar veiðar. Fyrir næsta ár er lagt til að þessir bátar fái þorskkvóta en frjálsa sókn í ýsu og ufsa. SV er á móti útgerð verksmiðjutogara og ítrekar þá skoðun sína að þeir eigi að ,,hverfa”, eins og það er orðað, og veiðiheimildir þeirra eigi að innkalla á einum áratug. Aflaheimildirnar eigi að færa yfir til strandveiðiflotans. 

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að norskir útgerðarmenn og reyndar flest ef ekki öll hagsmunasamtök í norskum sjávarútvegi leggjast alfarið gegn hugmyndum sem þessum en 15 ára reglan hefur m.a. verið viðruð af meirihluta nefndar sem sjávarútvegsráðherra landsins skipaði til þess að fjalla um fiskveiðistjórnunina og koma með tillögur í þeim efnum. Samtök norskra útgerðarmanna hafa fengið hóp lögfræðinga til þess að fara ofan í saumana á réttarstöðu þeirra og einstaka útgerðarmenn hafa hótað því að draga ríkisvaldið fyrir dómstóla ef umræddar hugmyndir verða að veruleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband