Leita í fréttum mbl.is

Pourquoi-Pas ?

Rýtingsstunga í bak Halldórs Ásgrímssonar

Segja má að koss Alfreðs Þorsteinssonar á tárvota hvarma Björns Inga Hrafnssonar og sem þjóðin varð vitni að í sjónvarpinu - hafi verið innsigli hins nýja meirihluta í Reykjavík. Þetta var viðeigandi. Alfreð er sjálfur guðfaðirinn( skrifað hér með litlum staf) og slæmir kossi á sitt pólitíska sköpunarverk.

Upphafið markar svo framhaldið. Það var ofið svikum af hálfu Björns Inga Hrafnssonar og snúið utan um hagsmuni en ekki hugmyndir, né málefni. Það hefur komið vel í ljós undanfarna daga og er nú alveg óumdeilt.

Björn Ingi Hrafnsson lýsir svo eftirfarandi yfir á vakningafundi Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær: "Mér hefur fundist á undanförnum árum og kannski einhverjum fleirum að oftar hefði mátt standa í lappirnar í erfiðum málum og segja hingað og ekki lengra." Þess ber að geta þessum orðum var fagnað með lófataki í hópi trúnaðarmanna Björns Inga í Reykjavík í gær.

Hverjum eru nú þessi skeyti ætluð?

Það er augljóst. Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra verður fyrir þessum örvum Björns Inga Hrafnssonar fyrrum aðstoðarmanns síns. Það var Halldór Ásgrímsson sem stofnaði til hins farsæla stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Síðustu árin sín í stjórnmálum var hann forsætisráðherra. Björn Ingi Hrafnsson er að segja núna að allt hafi þetta verið of dýru verði keypt. Forsætisráðherrastóllinn þá væntanlega líka. Engum manni öðrum geta því verið ætluð þessi eitruðu skot.

Svona er ekki sagt í hita leiksins, heldur meðvitað. Það er verið að kynda undir tiltekinni skoðun.

Þetta er líka drengilega mælt af hinum gamla aðstoðarmanni eða hitt þó heldur. Úti í Kaupmannahöfn situr Halldór Ásgrímsson á friðarstóli og er ekki gerandi í stjórnmálum dagsins í dag. Nú má hann sæta þessum lymskulegum árásum frá Birni Inga Hrafnssyni; í atburðarrás þar sem Halldór er víðsfjarri.

Hvað gengur honum eiginlega til, meintum framtíðarfoingjanum í Framsókn? Hvers vegna þarf hann að vega svona úr launsátri sínu í garð síns gamla læriföður? Er svarið kannski það að honum megi bara fórna á sigurstundinni, þegar að baki er tvöfeldnin í garð Sjálfstæðisflokksins, einleikirnir í hinni pólitísku skák; á sigurstundinni sé  því í lagi að niðurlægja sómamanninn Halldór Ásgrímsson.

Staða Björns Inga Hrafnssonar sem aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins, lyfti honum í upphafi til þeirra metorða sem hann nýtur svo sæll og glaður í dag. Nú launar kálfurinn ofeldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst minn maður teygja sig heldur langt í túlkunum sínum þarna sem og í fleiri bloggum þar undir eins og blogginu um Þráinn Bertelsson, sem slær algerlega við skáldgáfu þess eðla manns. 

En þeir sem eru vanir að kokka samsæri geta víst lesið samsæri út úr öllu hjá öðrum get ég ímyndað mér, svona án þess að væna hann Einar sérstaklega um slíkt. Þetta segir mér þó hversu hugarþel stjórmálanna er rotið inn við beinið.

Það má svo alls ekki túlka þessi orð sem að ég sé að bera blak af Binga, sem er ekkert annað en kjánaprik og leikbrúða Alfreðs. Það þarf ekki samsæriskenningasmiði til að sjá það.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 03:42

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sæll Jón Steinar.

Ég er búinn að sitja fyrir framan tölvuna og lesa þessa grein Einars K. Guðfinnssonar, landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra aftur og aftur.

Ég á erfitt með að trúa því að Einar hafi verið edrú þegar þessi skrif urðu til.

Ég ætla ekki að tjá mig frekar í bili um þetta en geri það síðar, kanski í dag eða kvöld.

Níels A. Ársælsson., 14.10.2007 kl. 13:51

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo skín nú soldið í hrokann að hann íjar að því að menn sem hljóti styrk frá Alþingismönnum eigi að hafa vit á að bæla skoðanir sínar.  Alveg ótrúlegustu hlutir sem má lesa út úr þeirri einu klásúlu ef menn hafa hugarflug til. 

Minnir mig á orð Abrahams gamla Lincoln: : "Better to be silent and be thought a fool, than to speak out and remove all doubt."

Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 23:38

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Það er ótrúlegt að lesa þetta.

Tilv; EKG blogg.

Orð skáldmæringsins hafa sennilega ekkert vægi. Það virðast engir taka mark á Þráni Bertelssyni. Það hlýtur að vera aumt hlutskipti rithöfundar.

Þessi skrif Þráins Bertelssonar eru þess vegna með því óhugnanlegra sem ratað hefur inn á síður dagblaðanna síðari árin. Kannski hefur mátt lesa viðlíka í skrifum augljósra kverúlenta og erkifífla.

En þegar þessi orð hrjóta úr penna virts listamanns, sem við alþingismenn höfum sett á bekk með helstu andans jöfrum okkar og sæmt listamannalaunum, þá setur að manni ansi illan hroll.

Níels A. Ársælsson., 15.10.2007 kl. 00:11

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einhver kaun hefur Þráinn komið við. Það er nokkuð ljóst.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.10.2007 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband