Tap Nónu ehf. á árinu 2008 nam 2,5 milljörðum og bókað eigið fé í árslok var neikvætt um annað eins.
Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um versnaði skuldastaða íslensks sjávarútvegs gríðarlega eftir fall bankanna, og kom þar til hátt hlutfall skulda í erlendri mynt.
Í þessu virðist vandi Nóna liggja því gengistap fyrirtækisins árið 2008 nam rúmlega 2,8 milljörðum króna. Gengistap fyrirtækisins árið 2007 var 162 milljónir.
Samningaviðræður milli Nóna og lánastofnana um endurfjármögnun stóðu yfir í sumar en endurskoðandi fyrirtækisins telur að takist samningar ekki sé ljóst að "ríki veruleg óvissa um áframhaldandi rekstur".
Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, og Aðalsteinn Ingólfsson, skráður framkvæmdastjóri Nóna ehf. í ársreikningi fyrirtækisins, vildu ekki gefa neinar upplýsingar um fjármál fyrirtækisins þegar eftir því var leitað, og því ekki hvort tekist hefði að koma fyrirtækinu fyrir vind, eða hvernig svo há skuld væri tilkomin á jafn lítið útgerðarfyrirtæki.
Þá er ljóst að smábátaútgerðin í landinu keypti aflaheimildir fyrir háar upphæðir á síðustu árum. Aflaheimildir fyrirtækisins á kostnaðarverði eru metnar á rúmlega tvo milljarða en fyrirtækið fjárfesti fyrir 1,5 milljarða í kvóta árið 2007.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins skuldar smábátaútgerðin í landinu um fimmtíu milljarða króna og skuldir Nóna námu því um tíu prósentum af heildarskuldum í árslok 2008. Alls lönduðu um 800 smábátar afla á síðastliðnu fiskveiðiári auk strandveiðibáta.
Nóna gerir út línu- og netabátana Ragnar SF-550, sem varð aflahæstur smábáta á síðasta ári með 1.329 tonn, og Guðmund Sig SF-650.- shá
Athugasemdir
Níels : Þakka þér fyrir að benda á eigandan, fanst nafnið á móðurfélaginnu hljóma kunnuglega :-).
Magnús Jónsson, 19.12.2009 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.