Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
30.4.2010 | 11:06
Ekki nóg að gert - loka verður mun fleiri fjörðum og víkum
Dragnótin er vistvænasta veiðarfærið sem notað er við Ísland í dag og hefur verið frá því veiðar með dragnót hófust á síðari hluta 19 aldar. Veiðisvæði dragnótar spannar einungis um 3-5% af landgrunninu innan lögsögu Íslands.
Ástæður þessa takmörkuðu veiðislóðar dragnótarinnar eru þær að dragnót er einungis hægt að nota á leir, malar og sandbotni. Veiðar með dragnót á mörgum veiðisvæðum við landið eru einnig mjög árstíðabundnar vegna breytilegrar göngu ýmisa fisktegunda.
Ástæður þess að einungis er hægt að veiða með dragnót á mjúkum botni eru þær að dragnótin og tógin sem henni tilheyra festast í botni, veiðarfærið rifnar og skemmist ef út á harðan botn er farið.
Einnig takmarkar dýpi sjávar virkni dragnótarinnar og eru veiðar sjaldnast stundaðar fyrir neðan 150 faðma dýp. Hér er komin skýringin á því hversu smávægilegt veiðisvæði dragnótarinnar er í samanburði við öll önnur veiðarfæri sem notuð eru við Ísland.
Eðli málsins samkvæmt spilla dragnótaveiðar hvorki botngróðri, botnlagi né lífríki sjávar á nokkurn hátt, enda engu til að spilla og er nánast um veiðar á berangri hafsbotnsins að ræða þar sem lítill botngróður þrífst. Veiðar með dragnót örva vöxt og viðgang ýmisa fisktegunda með yfirferð sinni eftir hafsbotninum þar sem hinar fjölbreytilegu lífverur hafsbotnsins verða að fæðu flatfiska og bolfiska.
Fiskur veiddur í dragnót jafnt flatfiskar allskonar, sem og bolfiskar leita út af hörðum botni inn á veiðisvæði dragnótarinnar eftir æti, þá gjarnan á liggjanda við sjávarfallskipti. Það æti sem um er að ræða er td, sandsíli, trönusíli og ýmsar aðrar tegundir smáfiska og smádýra, td. sandormar og krabbadýr. Veiðislóð dragnótarinnar er matborð hinna ýmsu fiskitegunda.
Besta hráefnið.
Fiskur veiddur í dragnót er mjög stutt dreginn þegar hann kemur um borð í veiðiskipið, oft líða ekki nema 20-30 mínútur frá því dragnótinni er kastað og að búið er að hífa voðina og fiskurinn kominn um borð. Lítil pressa er á fiskinum þar sem hann er hífður um borð í litlum skömmtum og er þá sprell lifandi þegar hann er blóðgaður frá móttöku í rennandi sjó.
Ef vel veiðist geta pokarnir orðið margir sem þarf að hífa um borð, en reynt er að hafa pokana ekki stærri en svo að þeir rúmi ekki meira magn af fiski en sem nemur 500-1000 kg. Er þetta gert til að fyrirbyggja að fiskur kremjist og blóðspryngi með tilheyrandi skemmdum og losi í holdi.
Fiskur veiddur í dragnót er að jafnaði vænni en fiskur sem veiðist í önnur veiðafæri að netafiski undanskyldum og vegur sá þáttur í rekstri dragnótaskipa mikið fyrir afkomu veiðanna þar sem oft er mikil munur á verði góðs dragnótafisks og fisks sem veiddur er í önnur veiðafæri.
Veiðar með dragnót.
Áður en ákvörðun um kast með dragnót er tekin þá þarf að gæta að ýmsum þáttum er varða strauma, sjávarföll, vindátt og sjólag. Einnig hafa birtuskilyrði og sólarljós mikið um það að segja hvernig fiskast. Mjög misjafnt er eftir árstíðum, dýpi og svæðum hver áhrif mismunandi þátta hafa til árangurs af veiðunum.
Það sem vegur þyngst í góðum árangri við veiðarnar ásamt samspili margra þátta er án efa það fæðuframboð sem fiskurinn hefur á viðkomandi veiðislóð. Ef fæðuframboð er takmarkað á veiðislóð dragnótar er næsta víst að lítið sem ekkert veiðist.
Ef pláss og dýpi á veiðislóð dragnótar er nægilegt þá er oftast kastað allri vírmanilunni sem til staðar er um borð í skipinu en ef plássið er takmarkað eins og algengt er á veiðislóð dragnótar út af Vestfjörðum og víðar, þar sem verið er að kasta dragnót á sand polla og gjótur sem leynast víða úti í hrauni, þá er mjög misjafnt hversu miklu er hægt að kasta.
Geta dragnótarinnar til að ná í fisk er bundin innan þess svæðis sem tógin afmarka með legu sinni á hafsbotni. Mjög misjafnt er hversu mikið flatamál þess svæðis er, þar sem dýpi, straumur, hversu mikið skverað er og lengd tógana sem eru úti ráða mestu þar um, en oft er það einungis 1/3 af lengd tógana sem skafa botninn en 2/3 eru laus frá botni upp í sjó í átt til veiðiskipsins.
Lokaorð. Veiðislóð dragnótarinnar er eins og frjór akur bóndans sem yrkir landið af alúð og dugnaði.
Dragnótaveiðar ætti samt sem áður aldrei að leyfa á uppeldisstöðvum fisks líkt og inn á fjörðum og víkum og ekki heldur á veiðislóð minni strandveiðibáta.
Undirritaður leggur til að dragnótaveiðar verði víðast hvar ekki heimilar innan 4,5 sjómílna frá grunnlínupunktum nema að takmörkuðu leyti og þá einungis árstíðabundið.
Það liggur í hlutarins eðli að veiðar með dragnót á veiðislóð smáfisks ganga ekki upp líffræðilega vegna verndunarsjónamiða né hagfræðilega undir núverandi aflamarkskerfi fyrir innbyggða hvata sem leiða til brottkasts og svindls ýmiss konar.
Dragnót úthýst úr nokkrum fjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2010 | 23:09
Hugmyndin um fisk er ekki fiskur
Guðmundur Andri Thorsson skrifar:
Ósköpin hófust með kvótakerfinu. Þá fylltist allt af peningum sem voru ekki til, frá mönnum sem höfðu aflað þeirra með því að selja það sem þeir áttu ekki: óveiddan fisk. Eins og helstu hugmyndafræðingar þessa kerfis þreyttust ekki á að útskýra fyrir heimsbyggðinni á sólríkum ráðstefnum þá var kvótakerfið undirstaða hinnar svokölluðu velmegunar Íslendinga. Sú velmegun var í raun og veru óveidd, rétt eins og þorskurinn í sjónum - og blásin út, rétt eins og verðið fyrir aðganginn að hinum óveidda fiski.
Með öðrum orðum: ekki til. Hins vegar urðu til menn sem héldu að helsta hlutverk athafnamannanna í samfélaginu væri að græða peninga til að græða peninga, til að græða peninga. Til að græða peninga.
Þótt ég gæti veitt fisk
Kvótakerfið lagði grunninn að lyginni. Það bjó til glópagullið. Samkvæmt þessu kerfi voru búin til verðmæti úr réttinum til að veiða úr fiskistofnum sem eru sameign þjóðarinnar. Búinn var til eignaréttur á því sem aðrir áttu - og það sem meira var og enn afdrifaríkara: þann eignarétt var hægt að veðsetja.
Hugmyndin um fisk varð yfirsterkari hinum raunverulega fiski. En: Fiskurinn verður ekki að verðmætum fyrr en búið er að veiða hann og vinna. Það skapar ekki verðmæti í sjálfu sér að einhver eigi möguleika á að búa þau til. Það að ég gæti veitt fisk táknar ekki að ég sé búinn að því.
Væri svipað kerfi í gangi í bókmenntunum þá hefði ég fengið umtalsverðan kvóta vegna skáldsöguskrifa minna frá því fyrir 1990 og síðan þyrfti Eiríkur Örn að borga mér fúlgur fjár fyrir að fá að skrifa bækur vegna þess að ég ætti réttinn á að skrifa þær, og gæti gert það ef ég nennti en mér finnst náttúrlega þægilegra að láta Eirík puða við það úr því að hann er svo duglegur, svo að ég get þá veðsett þessa eign mína og slegið lán fyrir Wolverhampton Wanderers. Verðmætasköpun varð að verðmætaskáldun. Raunveruleg verðmæti urðu að pappírsverðmætum. Raunverulegir útgerðarmenn urðu að pappírsbarónum. Dugnaðarforkar urðu að iðjuleysingjum. Mannsefni urðu að landeyðum.
Allt var einhvern veginn óraunverulegt. Til varð lénskerfi þar sem fólk lenti í þeirri ógæfu að hafa skyndilega fullar hendur fjár sem það átti ekki skilið. Krónurnar komu bara. Mannkynssagan geymir ótal dæmi um að slíkur auður leiðir til ófarnaðar og eyðslusemi sem umfram allt er tjáning á örvæntingu: Kvóta-aðallinn sem var að rífa stóreflis hús til að reisa ný og enn þá ljótari var náttúrlega fyrst og fremst að tjá okkur hinum fyrirlitningu sína - á okkur, húsunum, peningum, sjálfum sér.
Andvaraleysi gerandans?
Um hríð - áður en kvótaframsal og veðsetning hófst fyrir alvöru á tíunda áratug síðustu aldar og útgerðarmenn fóru að veðsetja allt saman til að geta farið að rífa hús í Garðabænum og byggja blokkir í Kualalumpur - voru Íslendingar svo sannarlega í öfundsverðri stöðu: þeim hafði auðnast að byggja allan sinn infra-strúktúr - skólakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngur, velferðarkerfi - án óbærilegrar skuldasöfnunar. Þjóðin hafði aðgang að einhverjum gjöfulustu fiskimiðum á byggðu bóli og frábær sérþekking var í landinu á því að breyta fiskinum í raunveruleg verðmæti; þjóðin virtist vel menntuð; hún var fámenn og stéttaskipting hafði farið minnkandi áratugum saman; fáir voru ofsaríkir og fáir sárfátækir - óttalegt basl að vísu á mörgum eftir áralanga efnahagsóreiðu en samt var hér á áratugunum fyrir aldamót búið í haginn fyrir fyrirmyndarsamfélag að norrænum hætti.
Sú leið var ekki farin eins og við vitum. Sú stjórnmálastefna varð ofan á þar sem virkjaðir voru aðrir mannlegu eiginleikar en samábyrgð og félagsandi.
Nú koma þeir framsóknarmennirnir sem innleiddu þetta kerfi og biðja okkur afsökunar á því að hafa verið andvaralausir". Þeir tala jafnvel um mistök og gagnrýnisleysi.
Það er ágætt. En hrunið kom ekki vegna andvaraleysis" Framsóknarflokksins eða mistaka" - sem er að verða helsta aflátsorð aflandseyjahöldanna um þessar mundir. Framsóknarmenn voru ekki of passífir - þeir voru of aktífir. Rétt eins og þeir Jón Ásgeir og Björgólfur Thor sem reyna nú að gera sig að áhorfendum eða lítt virkum þátttakendum fremur en gerendum. Efnahagshrunið varð meðal annars og ekki síst vegna pólitískrar stefnu Framsóknarflokksins sem var í grundvallaratriðum röng.
Og ósköpin hófust með kvótakerfinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.4.2010 kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2010 | 16:14
Fiskifræði í herkví kvótahagsmuna
Fiskveiðistjórn með kvótasetningu leiðir að mati Menakhems Ben-Yami óhjákvæmilega til þess að fiskveiðiréttindi safnist á fárra hendur með þeim alvarlegu afleiðingum, að þegar menn neyðist til þess að skera niður kvóta leiki það minni útgerðirnar afar grátt.
Þetta getur að hans mati haft afar djúpstæðar afleiðingar fyrir staðbundin samfélög og jafnvel heilu menningarsvæðin.
Sjómenn séu umvörpum gerðir að brotamönnum og meðafli í tegundum, sem ekki hafi verið kvótasettar, verði áberandi. Þetta grafi undan heiðarlegum fiskveiðum og leiði til ólögmætra aðgerða eða lögbrota þegar val sjómanna standi á endanum aðeins um að bera lítið úr býtum eða hætta.
Ben-Yami telur að fiskifræðin hafi brugðist meðal annars með því að fjarlægjast líffræði og vistfræði hafsins eins og hann tíundar í sjávarfréttablaðinu Fishing News 9. apríl síðalstiðinn.
Þekking fiskilíffræðinnar, lífeðlisfræðinnar og vistfræðinnar ásamt þekkingu á hegðun og umhverfi gefur okkur færi á að stjórna veiðum á réttum fisktegundum á réttum tíma og réttum stöðum.
Það mun sannast að fiskveiðistjórnun á slíkum grunni er mun skilvirkari heldur en mælingar á magni og stofnstærð, segir Ben-Yami í viðtali við Fishing News nýverið.
Ben-Yami er fyrrum skipstjóri, fiskifræðingur og ráðgjafi FAO.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.4.2010 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2010 | 11:44
Svívirta þjóð
Nú er ekki lengur reiknað eftir því, hversu mörgum var banað í einu höggi. Nú skoðar íslenzk þjóð samvisku sína og samtíð í þeim skugga sem hún stendur í eftir tuttugu og sex ára tímabil kvótakerfis í fiskveiðum og bilaðri ráðgjöf fiskifræðinga. Við sjáum þar mikla lesti en kosti fáa, ástríður og syndir nútíðar í fornaldar gerfi.
Hjörtu okkar eru furðu lík í dag og á þeirri þrettándu þegar Sturlungar óðu uppi með báli og brandi um allar sveitir landsins og blóðið lak í straumum, hver höndin upp á móti annari, ástríðurnar æstar og taumlausar, bölvun styrjaldar var steypt yfir okkar land, innlendir smákóngar og héraðshöfðingjar bárust á banaspjótum.
Erlendur konungur hafði öll tögl og haldir á Sturlungum og sat um að ná af þjóðinni dýrmætustu sameign þeirra , frelsi og sjálfstæði landsins. Sjálfstæði Íslands fór þar fyrir lítið, kyrkt í vélráðum, kæft í blóði. Sturlungaöld var ein sú mesta ógæfuöld sem á Íslenska þjóð hefur dunið, en það nöturlegasta er, sú staðreynd að þetta voru sjálfskaparvíti og landsmenn sinnar eigin ógæfusmiðir.
Það er margt sérkennilega líkt með Sturlungaöldinni og því tímabili sem liðið er eftir að kvótakerfið hélt innreið sína í Íslenzkan sjávarútveg. Það voru ekki Sturlungar frá þrettándu öld sem riðu um sveitir og héruð Íslands með vopnaskaki og manndrápum heldur sjálf skipaðir Sturlungar auðvaldsins með tilstyrk meirihluta Alþingis Íslendinga sem sat í skjóli hæpins meirihluta þjóðarinnar.
Menning hræðslu og tortryggni sækir á | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 65
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar