Leita í fréttum mbl.is

Þorskstofninn við Ísland og í Barentshafi:

Þorskur 

Rússar búnir að bjarga þorskstofninum í Barentshafi frá hruni - með ofveiði?

Grein eftir Kristinn Pétursson: Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

,,Norska fiskistofan áætlar að Rússar hafi veitt mikið umfram kvóta á sl. ári og í mörg ár. Ég hef bent á að samkvæmt fenginni reynlu væru miklar líkur á því að Rússar myndu bjarga þorskstofninum í Barentshafi frá hruni - með þessari meintu ofveiði. Ég tel að þessar staðreyndir og margar fleiri sýni að veruleg sókn umfram rágjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins sé nauðsynleg til að efla frjósemi í þorskstofninum þarna og annars staðar.” 

,,Þessi reynsla um að veiðar geti örvað vöxt og nýliðun styðst við grundvallarkenningar í fiskilíffræði en er andstæð tölfræðilegum kenningum Alþjóðahafrannsóknarráðsins um að friðun þorsks -  burtséð frá fæðuskilyrðum - sé grundvallaratriði við uppbyggingu þorskstofna! Ég vil tengja þetta annarri frétt á skip.is í sl. viku, sem var tilvitnun í frétt í Fiskaren og sagði frá því að rússneskir fiskveiðiráðgjafar hefðu nú komist að niðurstöðu að þorskstofninn í Berentshafi væri nú að öllum líkindum helmingi stærri en Alþjóðahafrannsóknarráðið gerði ráð fyrir.

Allt eru þetta staðreyndir af sama meiði. Veiðar virðst örva vöxt og nýliðun!  Þetta er sama þróun og varð hérlendis 1975 -1980. ,,Svarta skýrslan" kom út hérlendis 1975 og spáði hruni þorskstofnsins ef haldið væri áfram að veiða með sömu sókn, sem þá var um 360 þúsund tonn á ári, úr þorskstofni sem var minni en þorskstofninn hérlendis er í dag. Það var gert og þorskstofninn tvöfaldaði stærð sína 1975-1980 eins og nú virðist hafa gerst í Barentshafi við meinta ,,ofveiði"!Reynslan hérlendis 1975-1980 varð þveröfug við spár ,,svörtu skýrslu" og spár Alþjóðahafrannsóknarráðsins.

Við (of)veiddum þorskstofninn hérlendis um 120 þúsund tonn árlega frá 1975-1980 eða um 600 þúsund tonn á fimm árum! Við þessa meintu ofveiði - stækkaði þorskstofninn hérlendis úr 800 þúsund tonnum í 1600 þúsund tonn 1980!Svo kom niðursveifla í umhverfisskilyrði 1980-1983. Loðnustofninn fór í sögulegt lágmark - innan við 100 þúsund tonn - 1981. Þorskstofninn hrundi þá í vaxtarhraða um 35% á þremur árum. Þorskstofninn minnkaði auðvitað við þetta - úr 1600 þúsund tonnum í um 800 þúsund tonn. 

Þá var reiknað (logið) ,,ofveiði".Lítum nánar á rökfræðina bak við þessa meintu ,,ofveiði" 1980-1983!  Við náðum ekki að veiða það sem Hafró ráðlagði 1982 og 1983 - samtals um 120 þúsund tonn. Stofninn minnkaði samt um 800 þúsund tonn. Liggur þá ekki fyrir að það vanti 800+120 = 920 þúsund tonn í ,,birgðabókhaldið" sem var svo fullyrt að væri ,,ofveiði" - ekki satt!!??Þá kemur lykilspurningin í þessari rökfræði - ef rökfræði skyldi kalla: Hvar var þessum 920 þúsund tonnum landað, sem vantar í þetta ,,bókhald" ef þetta var ofveiði. ,,Ofveiði" merkir að þetta hafi verið veitt, ekki satt? 

Ef þetta var í reynd VEIÐI (ofveiði) - hlýtur aflanum að hafa verið landað einhvers staðar - til viðbótar þeim afla sem þegar var skráður! Hvar var þá aflanum landað - 920 þúsund tonnum - á þrem árum?? Svarið er - hvergi!Þetta magn var sem sagt aldrei veitt! Og skilgeiningin ,,ofveiði" er því á venjulegri íslensku  - haugalygi!!  Sama lygin og nánast öll þessi hörmungarsaga um þorskstofninn og röð mistaka við uppbyggingu hans.

Það sem gera þarf, er að haldin verði stór opin málstofa - eða ráðstefna, - þar sem þeir sem hafa gagnrýnt þessa aðferðafræði hvað harðast undanfarin ár, fái tækifæri til að rökstyðja sín sjónarmið - án þess að fulltrúar Hafró kaffæri jafnóðum málflutninginn með nýrri og nýrri útgáfu af haugalygi!Þorskstofninn hérlendis er án efa vanmetinn. ,,Skipulagt vanmat," sögðu rússnesku sérfræðingarnir. Það er nákvæmlega sama merkingin og ég hef notað og kallað ,,falsað ofmat" á þorskstofninum hérlendis.Í dag sanna línuveiðar hérlendis að það er mokafli þorsks á línu, hvar sem lína er lögð á landgrunninu. Aldrei annað eins í allri Íslandssögunni!

Þetta er nákvæmasta mæling sem við getum fengið um að þorskstofninn er mjög stór en tvístraður um allt landgrunnið í ætisleit. Búinn að éta upp alla rækjuna - enn eina ferðina - sandsílið kláraðist í fyrra og loðnan er étin grimmt en samt vantar fæðu. Fallandi vaxtarhraði í dag og brotthvarf á þorskseiðum og smáþorski bendir til að þorskurinn hafi veriðétinn!  Þá er haugalygin látin heita ,,ofmetin nýliðun" ef það er 50% fall á talningu í smáþorski milli ára.

Tölfræði Alþjóðahafrannsóknarráðsins og Hafrannsóknarstofnunar virðist einhver hrikalegasta lygaþvæla í allri Íslandssögunni. Þorskur, sem mælist vera til, er bara blákalt falsaður ,,ofmetinn" 1-3 árum síðar í stað þess að viðurkenna stórhækkaðan dánarstuðul - að öllum líkindum vegna sjálfáts og fæðuskorts.  Þetta er ekkert flókið mál. Bara hætta að ljúga!”

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vek athygli á því að þessi ,,frétt" sem Mbl.is kýs að flagga á blogginu er ekki nema níu mánaða gömul. Hún birtist á sjávarútvegsvefnum Skip.is 11. apríl 2006 eða sama dag og Fiskeribladet birti fréttina. Sjá nánar: Rússneskir vísindamenn segja þorskstofninn í Barentshafi stórlega vanmetinn

Eiríkur St Eiríksson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband