Leita í fréttum mbl.is

Kafnaði síldin í Kolgrafarfirði

síldveiðar

"Vísindamenn" segjast ekki hafa skýringar á ástæðum þess að síld gengur á land og drepst í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi.

Menn eru ekki enn farnir að sjá það sem liggur á botni fjarðarins, en síldin er líklega að drepast úr súrefnisskorti.

Hún er að kafna. Þarna var megnið af stofninum saman komið.

Fjörðurinn er þröngur, nánast lokaður við brúna, lítil endurnýjun vatns og engin súrefnisframleiðsla frá plöntusvifi um miðjan vetur.

Síldin hefur því að öllum líkindum klárað súrefnið og drepist.

Svipaður síldardauði varð í Noregi snemma á síðustu öld eins og lesa má hér að neðan:

Í Eidfirði í Vesterålen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins.

Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld.

Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina.

Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.

Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn.

Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.

Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum.

Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.

Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn.

Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur þöktust af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.

En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni.

Fjörðurinn var lygn í mörg ár.

Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum.

Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?

Grein eftir Jón Kristjánsson fiskifræðing.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband