Leita í fréttum mbl.is

Ljósmóðirin á Sellátrum

sellátrar

Seint á 19. öld bjó á Sellátrum í Tálknafirði Kristján Oddsson bóndi. Á vist með honum var ung stúlka, sem hét Sigrún Ólafsdóttir (f. 10.3. 1855 á Auðkúlu í Auðkúluhr., d. 10.11. 1930) og var heitmey Magnúsar sonar hans.

Það var eina nótt, að Sigrúnu dreymir, að maður kemur til hennar og biður hana að koma með sér. Fer hún svo út með manninum, og ganga þau til sjávar.

Sér hún þar lítinn bát í flæðarmáli. Maðurinn biður hana að stíga um borð í bátinn og segir, að hún verði að koma með sér, því hann eigi heima hinum megin fjarðarins.

Þykist hún þá vita, að hann muni eiga heima á Lambeyri, sem er bær handan fjarðarins. Rær hann svo yfir fjörðinn og lendir á Lambeyri.

En er þau stíga á land, gengur hann þar fram hjá bænum. Spyr hún hann þá, hvert hann ætli. Hann segist eiga heima í honum Lambadal, sem er þar eigi allskammt frá, og átti hún þar engra bæja né manna von.

En er þau koma fram dalinn, sér hún þar bæ, lítinn og fátæklegan, en mjög snotran og þokkalegan. Segir þá maðurinn henni, að kona sín liggi þar í barnsnauð, og eigi hún að sitja yfir henni. En Sigrún segir, að það muni að litlu gagni koma, því að hún sé óvön þeim starfa.

Maðurinn segir, að duga muni, ef hún aðeins vilji koma inn og hjálpa sér. Ganga þau svo inn, og sér hún þar konuna; situr hún yfir henni, og gengur allt vel. En er hún hefur laugað barnið og klætt, segir bóndi munu flytja hana yfir fjörðinn aftur.

Ganga þau svo til sjávar, og rær hann með hana á bátnum yfir fjörðinn að Sellátrum. En er hann kveður hana, segir hann, að sér þyki illt að geta engu launað henni, en hann sé svo fátækur, að hann eigi engan hlut, er hann geti boðið henni fyrir annan eins greiða og hún hafi gjört sér.

sellátrar 2

„En nú vill ég ráðleggja þér, að þú lærir yfirsetukvenna fræði, því að ég mun mæla svo um, að þér lánist sá starfi vel.“ Kveðjast þau svo; hann rær yfir fjörðinn aftur, en hún þykist ganga inn. Man hún draum sinn um morguninn, og þykir hann undarlegur.

En næsta haust fer hún heiman að til þess að læra yfirsetukvenna fræði, og er hún hefur lokið náminu, kemur hún heim aftur og giftist Magnúsi. Tekur hún þegar við ljósmóðurstörfum í Tálknafirði, og lánaðist það ágætlega, og var vel metin kona.

En nokkru síðar tekur hún vanheilsu mikla og leggst í rúmið. Var margra lækna vitjað, en enginn þekkti sjúkdóminn, og lá hún rúmföst allan seinni hluta vetrar og fram á sumar, svo ekki brá til bata. Þá bjó á Lambeyri ekkja nokkur, Kristín Snæbjarnardóttir, og hét ráðsmaður hennar Kristján.

sellátrar 3

Var það einn sunnudagsmorgun, að hann segir Kristínu draum sinn. Hann dreymdi, að maður kæmi til sín, sem hann þekkti ekki, og spyr Kristján, hvort það muni ekki fara til kirkju á morgun, Lambeyrarfólk.

Kirkjustaðurinn er Stóri-Laugardalur, hinum meginn fjarðarins, skammt fyrir innan Sellátur. Kristján kveðst ekki vita það. Maðurinn segir þá, að ef svo beri við, að hann fari til kirkju á morgun, - „ætla ég að biðja þig bónar“. Kristján spyr, hvað það sé.

Maðurinn segir: „Ég veit, að Kristján Oddsson frá Sellátrum verður við kirkju á morgun. Skilaðu við hann frá mér, að mér þyki sárt að vita, hvað hún Sigrún þjáist. Hún hefur hjálpað mér, og mig langar til þess að hjálpa henni.

Ég þekki meðalið, sem læknar hana. Frammi í Krossadal vaxa grös,“ – sem hann lýsir lit og auðkennum á ; „Þessi grös vill ég, að Kristján sæki sjálfur og sjái um, að Sigrún sé látin drekka af þeim þrisvar á dag tebolla, í hálfan mánuð, og mun henni þá batna.“ „Frá hverjum á ég að skila þessu?“ segir Kristján; „hvar áttu heima?“ „Ég bý hérna í honum Lambada; hún Sigrún þekkir mig.“

Þótti honum svo maðurinn hverfa frá sér. En er Kristín hefur heyrt drauminn, hvetur hún Kristján að fara til kirkju og vill fyrir hvern mun, að skilaboðin komist til Kristjáns Oddssonar.

stora_laugardals_kirkja_2

Er svo farið til kirkju frá Lambeyri, og stendur það heima, að Sellátrafólkið er við kirkjuna. En eftir messuna bregður Kristján frá Lambeyri nafna sínum á einmæli og segir honum drauminn.

En Kristján verður fár við, og segir, að lítið mark muni að draumi þessum, en segist þó munu kannast við, að sér hafi borizt skilaboðin.  Þegar Kristján kemur heim, segir hann Sigrúnu drauminn og spyr, hvort hún kannist nokkuð við mann þennan.

Segir hún þá Kristjáni sinn draum, sem hún hafði ekki áður neinum sagt. Bregður þá Kristján þegar við og fer fram í Krossadal og finnur þar grösin eftir tilvísun draumsins.

Var nú þegar byrjað á að láta Sigrúnu drekka af grösunum, eins og fyrir var sagt, og fór henni dagbatnandi. Stóð það heima, að eftir hálfan mánuð gat hún klæðzt, og varð síðan alheil.

Það var við annað sinn, að Sigrún á Sellátrum dreymdi, að henni þótti koma til sín maður að sækja sig til konu í barnsnauð. Þótti henni það ekkert undarlegt, því að þá var hún tekin við ljósmóðurstörfum þar í hreppnum.

Þóttist hún búa sig í snatri og taka með sér tösku þá með lyfjum og verkfærum, er hún var vön að hafa með sér í þess konar ferðir. En þegar hún kemur, sér hún söðlaðan hest í hlaðinu. Sezt hún á bak, og ríða þau sem leið liggur inn að Kvígindisfelli.

En ekki komu þau þar við, og heldur maðurinn áfram fram í Fagradal. Þykir henni það undarlegt, því að hún vissi þar engrar byggðar von. En er þau eru komin nærfellt í miðjan dalinn, sér hún þar kirkju og reisulegan bæ.

Maðurinn fylgir henni inn. Þar liggur kona. Sigrún situr yfir henni og gengur allt vel. En er hún hefur laugað barnið og hjúkrað konunni, tekur hún skæri sín, sem hún hefur skilið á milli með, og ætlar að þvo þau og þerra, eins og hún var vön að gera.

Kemur þá maðurinn til hennar og segir:  „Þú skalt ekki þvo skæri þín; láttu þau í töskuna, svo að þú sjáir á morgun, hvað þú hefur starfað í nótt.“ Hún þykist svo láta þau í töskuna, án þess að þvo þau; kveður svo konuna, og sami maður fylgir henni aftur heim að Sellátrum.

En um morguninn, er hún vaknar, man hún drauminn. Tekur hún þá töskuna, skoðar skærin og sér á þeim tvo svarta blóðbletti. Ætlar hún þá að reyna að fægja skærin og ná af þeim blettunum, en getur ekki. Og sátu þeir þar æ síðan.

Heimild þessi er færð í letur eftir frásögn Ólínu Andrésdóttur, en henni sögðu systur hennar, Andrésa og Guðrún, eftir sjálfri Sigrúnu ljósmóður á Sellátrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband