21.9.2013 | 16:30
Hið forna prestsetur, Alftamýri við Arnarfjörð
Síðasti prestur á Álftamýri var Arngrímur Bjarnason, sem flutti þaðan að Brjánslæk árið 1880. Þá var Álftamýrarsókn lögð undir Hrafnseyrarprestakall.
Þá tók við búi á Álftamýri Ásgeir Jónsson. Hann var sonur séra Jóns Ásgeirssonar, sem var prestur á Álftamýri 1839-1862 og á Hrafnseyri 1862-1880. Var hann þannig prestur með Arnfirðingum í meira en 40 ár.
Hann var merkur maður á margan hátt, en sérstaka athygli vöktu dulskyggni hans og fjarskyggni. Ásgeir sonur hans var einn þeirra Arnfirðinga sem handskutluðu hvali af litlum bátum.
Hann bjó við rausn á Álftamýri og eftir hann Gísli sonur hans í 46 ár til ársins 1942. Sautján ára gamall gerðist Gísli formaður fyrir föður sinn á sexæringi, en tvítugur tók hann við skipstjórn á þilskipi.
Búskapur hans á Alftamýri var með miklum rausnarbrag. Vafalaust hefur sjávaraflinn staðið undir þeim búskap að miklu leyti.
Síðasti bóndi á Alftamýri var Vagn Þorleifsson, sem hvarf þaðan árið 1957 eða 1958. Kirkjan á Álftamýri mun hafa verið rifin 1967 eða 1968. Voru þá ekki eftir nema tvö byggð býli í sókninni, bæði úti í Lokinhamradal. Hrafnabjörg og Lokinhamrar.
Við Kirkjugarðinn á Álftamýri stendur mikils háttar hlið, en fyrir því gekkst Pétur Björnsson skipstjóri, en afi hans og nafni hvílir þar í garðinum undir áletruðum legsteini, eins og fleira sóknarfólk sem þar á nöfn sín geymd.
Innst í Álftamýrarlandi er víkin Hlaðsbót. Um hana segir séra Jón Ásgeirsson í sóknarlýsingu kringum 1840: Þar standa verbúðir sem fólk úr innri sókn brúkar á haustdag, þá það leggur sig hingað út í sókn þessa til fiskiafla, því treggengur er fiskur til innri fjarðarins.
Er þar mikið góð lending í öllum áttum og mjúkur fjörusandurinn." Hlaðsbót var um tíma löggiltur verslunarstaður og Bíldudalskaupmenn keyptu þar fisk og seldu salt og fleira. Þar er enn til minja allmikill húsgrunnur í fjörunni.
Baulhús er lítil jörð innan við Álftamýri og talin byggð úr heimalandi Álftamýrar. Hún mun hafa farið í eyði skömmu eftir 1940 og síðasti ábúandinn verið Ásgeir Matthíasson, bróðursonur Gísla á Álftamýri.
Matthías Ásgeirsson, bróðir Gísla, bjó lengi á Baulhúsum og var mikill áhugamaður og kappsmaður við sjósókn eins og Gísli. Til er munnmælasaga um karl nokkurn sem var við útróðra frá Álftarmýri en þótti hann nokkuð stórtækur í lýsingum.
Einu sinni komst hann svo að orði: Það vildi ég að kominn væri í Álftamýrarfjöru svo mikill fiskur að næði suður að Bjargtöngum og norður að Horni og stæði ekkert upp úr nema höfuðin á Gísla frænda og Matta á Baulhúsum og myndi þá verða mikill handagangur í öskjunni.
"Öðru sinni sagði karl þegar ílát vantaði undir lifur: Það vildi ég að komið væri í Álftamýrarfjöru svo stórt grútarkar að veröldin væri ekki nema eins og í sponsgatið á því." Sýnir þetta að maðurinn hefur haft mikið hugmyndaflug.
Markús Þórðarson var prestur á Álftamýri 1817-1839. Samtíða honum bjó Magnús Ólafsson á Baulhúsum, forn í brögðum og fjölkunnugur.
Prestur vildi láta byggja stekk og valdi honum stað þar sem talin var gömul dys. Magnús latti prest að róta þar um og kvað illt myndi af hljótast. Prestur ruddi samt dysina til stekkjarstæðis.
Er mælt að hann fyndi þar mannsbein og peninga, byggi um beinin í moldu en hirti peningana. Eftir það veiktist prestur undarlega, en hann var áður hraustmenni.
Þóttust skyggnir menn sjá sækja að honum mann einn mjög stóran og herðabreiðan og kölluðu þeir hann Breiðherðung. Ekki varð presti þó stórkostlegt mein að honum meðan Magnús á Baulhúsum lifði, en eftir fráfall hans ágerðist sjúkdómur prests uns hann andaðist.
Bróðir Magnúsar var Jóhannes Ólafsson á Kirkjubóli í Mosdal, frægastur allra galdramanna í Arnarfirði á 19. öld.
Hann hafði í þjónustu sinni bæði drauga og loftanda, sem hann lét sækja uppvakninga og skaðræðisdrauga og færa sér. Síðan setti hann þá niður og gerði skaðlausa.Tjaldanes var þá kirkjujörð frá Álftamýri. Jóhannes falaði þessa jörð til ábúðar af séra Markúsi en fékk ekki.
En þegar Jóhannes frétti að prestur þjáðist af ásókn Breiðherðungs mælti hann: Ég skyldi hafa stuggað við drengnum hans ef hann hefði byggt mér Tjaldanesið."
Byggt á frásögn Guðmundar Inga Kristjánsson frá Kirkjubóli í Önundarfirði (1907-2002).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.1.): 5
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 764264
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.