Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Fiskifræðilegur harmleikur

jón kristjánsson

Einu sinni var ekki veidd rækja í úthafinu, einungis innfjarða, í Ísafjarðardjúpi Arnarfirði og Öxarfirði.


Það var fyrir elju eins manns að úthafsrækjuveiðin var "búin til". Snorri heitinn Snorrason skipstjóri á Dalvík var upphafsmaðurinn og þó illa gengi í fyrstu gafst hann ekki upp. Það tók tæp 30 ár að gera þessar veiðar arðbærar.

Ég sagði "búa til", því svo virðist að aukin sókn í fisk- eða rækjustofna hafi þau áhrif að stofnarnir skili meiri uppskeru.

Meðan sókn var óheft á Íslandsmiðum veiddust 4-500 þús. tonn af þorski áratugum saman. Þegar farið var að hefta veiðar til að koma í veg fyrir ofveiði minnkaði aflinn jafnt og þétt og er nú í sögulegu lágmarki. Þetta er uppskera friðunarinnar.

rækja

Talandi um rækju er fróðlegt að líta til rækjuveiðanna á Flæmska Hattinum. Þær hófust 1993 og fóru hrað vaxandi. Árið 1995 veiddust 25 þús. tonn og lagt var til að stöðva veiðar til að vernda stofninn.

Árið eftir sóttu Íslendingar stíft til að afla sér kvótareynslu. Alltaf var lagt til veiðibann en það var hundsað og  aflinn var yfirleitt 40-50 þús tonn.

Þegar rækjuverð lækkaði og olíuverð hækkaði dró úr sókn og þar með afla. Nú er svo komið að afli er lélegur og sóknin nær engin.

Fróðlegt er að lesa skýringar Hafró á minnkandi stofni úthafsrækju við Ísland:

rækja 2

"Ýmsar ástæður geta verið fyrir versnandi ástandi rækjustofnsins, m.a. aukin þorskgengd inn á svæðið sem veldur auknu afráni á rækju, einkum ungrækju. Einnig er hugsanlegt að auknar rækjuveiðar á síðustu tveimur fiskveiðiárum hafi haft þau áhrif að rækjan verði aðgengilegri fyrir þorskinn sem leiði til aukins afráns á rækju. Aðrir þættir, s.s. hlýnun sjávar sem flýtir tíma klaks sem hittir þá síður á hámark þörungablómans hefur líka mikil áhrif á nýliðun."

Ekki fæ ég skilið hvernig rækjuveiðar verði til þess að rækjan verði "aðgengilegri fyrir þorskinn", en etv. skilja þeir það snillingarnir á Hafró. Og, auknar rækjuveiðar ??

Rækjan var tekin úr kvóta í fyrra en hafa rækjuveiðar aukist? Mér er það til efs. 

rækja 3

Þá er athyglisvert að þeir gera því skóna að át þorsks og gráðlúðu sé orsakavaldur minnkunar rækjustofnsins. Samt er ekki orð um hvað þessar tegundir voru að éta á rækjuslóðinni, kíktu þeir ekki í magann á þessum fiskum?

Ekki er að sjá að þeir hafi gert það, þeim finnst sennilega betra að spinna upp skýringarnar. Eftir stendur að sóknarsamdráttur í rækjuveiðum hefur leitt til minnkandi stofns. -  Ætla menn aldrei að læra?

Grein eftir Jón Kristjánsson fiskifræðing.


mbl.is Rækjustofninn er enn í lægð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaði Vestfirðinga er óbætanlegur

náttura

Þótt Landsbankinn þykist geta reiknað út að tap verði á starfsemi bankans ef froðu úr illræmdasta kvótakerfi veraldar verði skolað burtu úr bankanum með breytingum á kvótakerfinu þá er tap Vestfirðinga svo gríðarlegt af völdum kvótakerfisins að það verður ekki reiknað til fjár.

Nú er von að spurt sé: Hver á Landsbankann og hver er æðsti yfirmaður þeirrar stofnunar ?


mbl.is Tap bankans um 25 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti dauði á Íslandi

svarti dauði

Svarti dauði var mjög skæð farsótt, sem talin er hafa borist til Íslands vorið 1402.

Hálfri öld fyrr, á árunum 1348-1350, hafði pestin gengið um alla Evrópu en barst þó ekki til Íslands, sennilega einfaldlega vegna þess að engin skip komu til landsins þau tvö ár sem hún geisaði á Norðurlöndum og í Englandi.

Ýmist tókst ekki að manna skipin vegna fólksfæðar eða þá að skipverjar dóu á leiðinni og skipin komust aldrei alla leið.

Töluverður vöruskortur var í landinu vegna siglingaleysis þessi ár og er meðal annars sagt að leggja hafi þurft niður altarisgöngur um tíma af því að prestar höfðu ekki messuvín.

Svarti dauði var viðloðandi í Evrópu næstu aldir þótt hann yrði ekki aftur að viðlíka farsótt.

Líklega barst hann til Íslands með farmanninum Hval-Einari Herjólfssyni, sem tók land í Maríuhöfn á Hálsnesi í Hvalfirði. Hann sigldi líklega frá Englandi, en þar er vitað af veikinni árið 1401.

Þangað kom Óli Svarthöfðason prestur í Odda til fundar við Einar. Hann veiktist fljótt og dó í Hvalfirði eftir skamman tíma. Lík hans var flutt til Skálholts til greftrunar. Síðan breiddist veikin hratt út um landið.

Í Árbókum Espólíns segir: „Þar kom út í klæði — að því er sumir sögðu — svo mikil bráðasótt, að menn lágu dauðir innan þriggja nátta, þar til heitið var þremur lofmessum með sæmilegu bænahaldi og ljósbruna, þurraföstu fyrir Kyndilmessu og vatnsföstu fyrir jólin; ennfremur Saltarasöngum, Maríusöngum og að gefa hálfvætt silfurs til Hóla, til að búa skrín Guðmundar hins góða.

Er síðan mælt að flestir næðu að skriftast áður en dóu“.

Svarti dauði gekk um landið á árunum 1402-1403 og var mjög skæður.

Á sumum bæjum dó hver einasti maður og sagt er jafnvel að heilar sveitir hafi eyðst; til dæmis er sagt að í Aðalvík og Grunnavík hafi aðeins lifað eftir tvö ungmenni.

Prestum var sérlega hætt við að smitast, þar sem þeir vitjuðu oft dauðvona fólks og veittu því skriftir, og er sagt að aðeins hafi lifað eftir þrír prestar á öllu Norðurlandi og auk þess einn munkur og þrír djáknar á Þingeyrum; aðrir vígðir menn dóu í plágunni.

Ekki er vitað hve margir dóu í Svarta dauða á Íslandi; sumir segja allt að tveir þriðju allra landsmanna hafi fallið í valinn en fræðimenn hafa notað fjölda eyðibýla nokkrum áratugum eftir pláguna til að geta þess til að um helmingsfækkun hafi orðið.

Heilar fjölskyldur og jafnvel ættir dóu og mikil tilfærsla varð á eignum, sumir erfðu stóreignir eftir fjarskylda ættingja og gat stundum verið erfitt að finna réttu erfingjana, þegar óvíst var í hvaða röð fólk hafði dáið.

Kirkjan eignaðist líka fjölda jarða því að fólk hét á kirkjur og dýrlinga og gaf stórfé sér til sáluhjálpar.

Verðmæti jarðeigna hrapaði þó á sama tíma því fjölmargar jarðir lögðust í eyði og leiguverð lækkaði.

Mikill skortur var á vinnuafli eftir pláguna og liðu margir áratugir þar til fór að rætast úr því ástandi. Þetta kom ekki síst niður á sjósókn og varð til þess að minna aflaðist af fiski, sem var helsta útflutningsvara Íslendinga.

Heimild: Wikipedia.


mbl.is Rottur breiddu ekki út svarta dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að veðsetja eigur annara

fiskimaður 1-1
Hugsum okkur mann, sem tekur bíl á leigu á mánudagsmorgni.
 
Hann fær bílinn afhentan til leigu í fimm daga og greiðir t.d. 100 þúsund krónur fyrir fram fyrir leiguna til föstudagskvölds, eða 20 þúsund krónur á dag.
 
Það, sem hann hefur í reyndinni keypt, er skírteini, sem veitir honum rétt til að nota bílinn í fimm daga.
 
Skírteinið, það er leiguréttinn, getur maðurinn með leyfi bílaleigunnar framselt til annars manns, sem tekur þá á sig skuldbindingu hins fyrr nefnda, það er skylduna til að skila bílnum óskemmdum í vikulok.
 
Skírteinið er 100 þúsund króna virði á mánudagsmorgninum og 80 þúsund króna virði á þriðjudagsmorgni, því að þá eru aðeins fjórir dagar eftir af leigutímanum.
fiskimaður 1-2
Leigutakinn gæti hugsanlega farið í bankann sinn beint úr bílaleigunni á mánudeginum og tekið lán til fjögurra daga að upphæð 20 þúsund krónur og lagt skírteinið frá bílaleigunni að veði með leyfi bílaleigunnar.
 
Standi lánþeginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, yfirtekur bankinn skírteinið, sem er þá 20 þúsund króna virði og veitir bankanum afnot af bílnum á föstudeginum.
 
Bankinn vill ekki veita hærra lán en 20 þúsund krónur með veði í leiguskírteininu vegna þess, að andvirði þess er komið niður í 20 þúsund krónur á fimmtudeginum.
 
Aðeins óábyrgur eða óheiðarlegur bankastjóri myndi veita 100 þúsund króna lán með veði í leiguskírteininu, því að veðið myndi þá ekki bæta bankanum nema að 1/5 hluta vanskil á láninu.

fiskimaður 1-3
Hugsum okkur nú annan mann í sömu sporum. Hann fer beint í bankann sinn á bílnum, sem er fimm milljóna króna virði, og tekur lán til fjögurra daga að upphæð fimm milljónir króna og 20 þúsund.
 
Hann veðsetur þannig bílinn fyrir fimm milljónir og leiguskírteinið fyrir 20 þúsund.
 
Ef hann stendur í skilum við bankann á fimmtudeginum, hefur hann fengið afnot af fimm milljónum og 20 þúsundum betur í fjóra daga og er að því leyti betur settur en hefði hann tekið aðeins 20 þúsund krónur að láni með skírteinið eitt að veði.
 
Standi hann á hinn bóginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, getur bankinn gengið að manninum og tekið af honum leiguskírteinið, sem er 20 þúsund króna virði.
fiskimaður 1-4
Bankinn getur ekki gengið að bílaleigunni, enda hefði hún aldrei veitt leigutakanum heimild til að veðsetja bílinn. Bankinn tapar því fimm milljónum.
 
Þannig hefur leigutakanum tekizt að ná fimm milljónum króna af bankanum í gegnum bílaleiguna.

Ekki bara það. Leigutakinn í dæminu hefur berlega framið umboðssvik í skilningi 249. greinar hegningarlaga, en þar segir:
 
„Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“
fiskmarket1
Í þessu felast þau augljósu sannindi, að engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra í leyfisleysi.

Þessi einfalda dæmisaga lýsir hugsuninni á bak við auðlindaákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.
 
Þar segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
 
Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.
fiskmarket 2
Í þessum orðum felst, að skip með kvóta megi veðsetja aðeins upp að því marki, sem nemur verðmæti skipsins sjálfs og veiðiréttarins með leyfi eigandans, það er almannavaldsins í umboði þjóðarinnar.
 
Í frumvarpinu segir einnig:
 
„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
 
Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

eiríkur finnsson
Hugsum okkur loks útvegsmann, sem kaupir fiskiskip með kvóta, það er réttinn til að veiða 120 tonn af fiski á einu ári eða tíu tonn á mánuði.
 
Hugsum okkur, að skipið sjálft sé 20 milljóna króna virði og aflinn 120 milljóna virði.
 
Taki útgerðarmaðurinn lán í banka til eins árs með veði í skipi og veiðirétti, myndi gætinn bankastjóri ekki lána manninum meira en 20 milljónir.
 
Það stafar af því, að standi lántakandinn ekki í skilum að ári, getur bankinn aðeins tekið yfir skipið, en ekki kvótann, því að hann er uppveiddur eftir árið og einskis virði.
lúðuveiðar
Banki, sem lánar manninum 140 milljónir út á skip og kvóta við upphaf árs, getur að ári liðnu aðeins endurheimt 20 milljónir og tapar 120 milljónum.
 
Í þessu dæmi hefur útvegsmanninum tekizt að ná 120 milljónum króna af bankanum í gegnum kvótann.
 
Svikull bankastjóri gæti séð sér hag í slíkum viðskiptum, einkum ef ríkið tekur á sig tapið á endanum.
 
Af þessu má ráða hættuna, sem fylgir langtímaleigu aflaheimilda, sé ekki tekið fyrir veðsetningu þjóðareignarinnar.
sjómenn 1-1
Sé kvóta úthlutað til margra ára í senn, margfaldast tapið, sem viðskipti af þessu tagi geta lagt á bankann og aðra, þar á meðal lánardrottna og hluthafa bankans og skattgreiðendur.
 
Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að lúta sömu lögum og önnur fyrirtæki og annað fólk.
 
Engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra án leyfis.
 
Grein eftir Þorvald Gylfason.

Gríðarlegt brottkast í ESB

netaveiðar

Sjómenn í fiskveiðiflota Evrópusambandsins köstuðu fyrir borð 2,1 milljón tonna af þorski á árunum frá 1963-2008, samkvæmt rannsókn stofnunarinnar New Economic Foundation.

Guardian segir frá þessu í dag. Verðmæti þessa afla sé framreiknað um 2,7 milljarðar punda, jafnvirði um 510 milljarða króna. Blaðið segir brottkastið hafa verið á Norðursjó, Skagerrak og Ermarsundi.

Búist er við því að rannsóknin veki enn umræðu um brottkast á miðum Evrópusambandsríkjanna, þar sem stórlega hefur verið gengið á þorskstofninn með ofveiði, svo liggur við útrýmingu.

Á sumum miðum hefur brottkastið numið tveimur þriðju af veiddum afla. Maria Damanaki, fiskveiðistjóri Evrópusambandsins, vill breyta reglum um kvóta, og grípa til ýmissa annarra ráðstafana, til að stemma stigu við brottkasti.

Hugmyndir hennar hafa þó fallið í grýtta jörð hjá þeim sem eiga hagsmuna að gæta í fiskveiðum; bæði sjómönnum og útgerðarmönnum.

RUV segir frá.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband