Leita í fréttum mbl.is

Örlagasaga Helgu EA 2, frá Hrísey

Ízlensk fiskiskúta áþekk Helgu EA 2 frá Hrísey

Ég ætla að segja ykkur sögu,

sú saga er um horfið fley,

en aðalefni hennar

um unga og fagra mey.

 

Þetta er sorgarsaga,

hún sögð er norðanlands enn.

Mér sögðu  ‘ana aldnir sjómenn,

sannorðir prúðir menn.

 

Ég heyrði ´ana um borð í Helgu

hvíslað milt og rótt,

hún seytlaði um sál mína og taugar

og svipti mig öllum þrótt.

 

Þá söng í siglu og stögum,

sjórinn ókyrðist fljótt.

Við leituðum hafnar af hafi

Þá heldimmu septembernótt.

 

Svo skal þá sagan byrja,

sagan um nýsmíðað skip,

sem í fyrsta sinna átti að fljóta,

frítt með tignarsvip.

 

Viðstaddir voru þá margir

við þetta glæsta far,

ástmey yngsta smiðsins

var einnig viðstödd þar.

 

Hún stóð við stjórnborðssíðu,

stillt með ljósa brá.

Unnustan unga líka

hún eflaust kom til að sjá.

 

Hún hét Helga þessi

hugþekka unga mær.

Skrið var komið á skipið

Þá skunda hún átti fjær.

 

Þá bilaði ´inn sterki strengur,

stórt var skipsins fall,

með eldingar ofsahraða

ofaná Helgu skall.

 

Lemstraður líkami hennar

var lagður í hvílu um hríð.

Unnustinn ungi sá þar

allt hennar dauðastríð.

 

Upp frá því engum manni

Í þeirri hvílu var rótt,

hún var varin af svip eða vofu,

varin jafnt dag og nótt.

 

Svipurinn sást oft á stjái,

við sigluhún efst hún stóð,

ung og æskufögur,

í augunum tvíræð glóð.

 

Er hafið í hamförum æddi,

hún benti örugg til lands.

Skipstjórinn bending þá skildi,

skipun hún var til hans.

 

Þá vís voru mannskaðaveður,

hann vissi, þau boðuðu hel,

hélt því strax til hafnar

og heppnaðist alltaf vel.

 

Eitt sinn á Aðalvík forðum

við akkeri‘ og festar hún lá.

Vaktmenn tveir skyldu vaka

og vel um skipið sjá.

 

Mjótt er á milli stiga

mannsandans tíðum haft.

Svefninn er öllum sætur,

Þeir sofnuðu báðir á vakt.

 

Ótryggt var veðurútlit,

áhættan mjög því stór,

vetrarnótt lengi að líða,

við land braut þungur sjór.

 

Þá kom hún að Jakobs hvílu,

karlinum varð ekki rótt,

hún svifti hann værum svefni,

sýnin um miðja nótt.

 

Í því stormbylur æddi

um hið trausta far,

sem farið var fast að drífa

að feigðarsandinum þar.

 

Þá hefur mjóu munað

að menn og skip týndust við sand,

og alveg ókleift mönnum

að eiga þar björgun við land.

 

Svo er þá hinzta sagan,

Sagan um Helgu lok.

Það enginn um kann segja,

Það var aftaka sjór og rok.

 

Hver leysti þá landfestar Helgu

er lagði ´ún í hinztu för ?

Hver stóð við stjórnvöl á fleyi

og stýrði þeim feyga knör,

 

er hinzti brotsjórinn hrundi

á hrjáð og mannlaust  fley

var þá ei vaktin fullstaðin

hjá vökulli fagurri mey ?

 

Hvort á hún nú hvílu í knerri,

eða komst hún á æðra stig ?

Það er mér óráðin gáta,

þar ályktar hver fyrir sig.

 

Þótt að sjálfsögðu enginn syrgi,

syrgi né felli tár,

þá varði hún skipið voða,

voða, í rúm sjötíu ár.

Höfundur: Ragnar S. Helgason frá Álftafirði N-Ísafjarðarsýslu (1900-1979).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband