Leita í fréttum mbl.is

Dapurlegar staðreyndir

Háir vextir virðast heldur ekki hægja mikið á fasteignamarkaðinum og hann bremsar aldrei fyrr en fasteignaverðið sjálft er orðið of hátt. Þetta er séríslenskt fyrirbæri sem á sér margar skýringar. Verðtrygging fasteignalána felur t.d. baggann sem fólk er að taka á sig með því að lækka mánaðargreiðslurnar á meðan höfuðstóllinn hækkar. Þetta forneskjulega fyrirkomulag—sem aðeins er hægt að afsaka á meðan verið er að lækna óðaverðbólgu—hefur sennilega hækkað allt húsverð í landinu töluvert, því mánaðarleg greiðslugeta einstaklings stýrir kaupunum algjörlega.

Annað sem fær ungt fólk á Íslandi til þess að kaupa húsnæði með okurlánum er félagsleg pressa. Fyrir 1980 borgaði óðaverðbólga húsin fyrir einstaklingana á nokkrum árum. Fyrst í stað voru kaupin gífurlega erfið, en eftir 3–4 ár var verðbólgan búin að lækka lánin (miðað við húsverðið og breytt kaup í landinu) um kannski helming og fólk var á sléttum sjó. Eftir 10 ár voru lánin brandari. Það voru tvær kynslóðir sem lentu í þessu lukkupotti og flestir (alla vega eins og það hefur komið undirrituðum fyrir sjónir) virðast ekki vera meðvitaðir um þessa gjöf. Þvert á móti þá blæs þetta fólk sig út við öll tækifæri og þykist hafa unnið stórvirki sem verðtryggðu kynslóðirnar hljóti að geta leikið eftir.

Dapurlegt ástand bankamála í heiminum og óumflýjanleg efnahagslægð víða kalla á tafarlausa vaxtalækkun á Íslandi. Það er ekki lengur hægt að stýra hagkerfinu með hliðsjón af gömlum vandamálum þenslu og verðbólgu. Lækkun á hlutabréfamarkaði og yfirvofandi lækkun fasteigna draga sjálfkrafa úr bæði þenslu og verðbólgu. Samdrátturinn er á leiðinni og það er eins gott að afgreiða vaxtamálin á meðan enn árar sæmilega. Það er líka ljóst að bankar og fyrirtæki verða í vaxandi mæli að stóla á innlent fjármagn og neikvæð áhrif hárra vaxta margfaldast þá skyndilega.

Margir risabankar í Bandaríkjunum og Evrópu eru lamaðir. Tap vegna ruslabréfa sem fasteignamarkaðurinn ungaði út er hrikalegt og ekki nærri því allt komið fram. Fyrir nokkrum árum, t.d. þegar Long Term Capital rúllaði, þá óttuðust menn um stöðugleika alls kerfisins ef ein stofnun tapaði nokkrum milljörðum dollara á einu bretti. Nú hafa yfir $100 milljarðar gufað upp á nokkrum mánuðum og sú tala á eftir að tvöfaldast. Tapið er mest í Bandaríkjunum og Evrópu.

mortgages

Hlutirnir er að renna út í eina allsherjar vitleysu.

  • Alríkislögreglan, FBI, er að rannsaka 14 lánastofnanir fyrir svik.
  • Saksóknari New York-fylkis, Andrew Cuomo, stjórnar annarri rannsókn sem örugglega á eftir að enda með mörgum málaferlum.
  • Á sama tíma er enn annar armur yfirvaldsins, Securities and Exchange Commission, að auðvelda lánastofnunum að fela tapið.
  • Nýtt fyrirtæki í Kaliforníu (verður brátt miklu víðar) er tímanna tákn. Það kennir fólki, gegn hóflegri greiðslu, hvernig það getur grætt á að fara undir hamarinn! Þetta er allt löglegt og byggist á að ótal hús kosta minna en lánin sem á þeim hvíla. “Hættið að borga bankanum, búið frítt í húsinu í a.m.k. átta mánuði (lágmarkstími þegar menn kunna á kerfið) , eyðið ekki centi í viðhald og labbið síðan út.”
  • Stofnanir sem veita fasteignalán hafa á undanförnum árum “pakkað” þessum lánum og selt til þriðja aðila. Oft hefur þeim síðan verið endurpakkað mörgum sinnum. Það færist því í vöxt að þegar handhafar síðustu keðjubréfanna fá ekki borgað og þeir ætla að setja veðið (húsin) undir hamarinn að þeir eru ekki með neitt afsal í höndunum. Nokkrir dómarar í Bandaríkjunum hafa neitað að bjóða húsin upp á þeirri forsendu að einhverjir skuldapappírar (t.d. afleiður) sanni ekki eignarrétt. Ef þetta viðhorf breiðist út þá er fjandinn laus því milljónir einstaklinga geta hreinlega hætt að borga af fasteignalánum og haldið áfram að búa í húsum sem ekki er hægt að bjóða upp.

Heimild; Jóhannes Björn:


mbl.is Skuldaálag úr takti við raunverulega stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aldrei í sögu heimsins hafa jafn margir hálfvitar verið í svona fáránlegum matadorleik.

Árni Gunnarsson, 17.2.2008 kl. 00:04

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Verðbólgan stjórnast ekki af gengi hlutabréfa í FL Grúpp. 

Björn Heiðdal, 17.2.2008 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband