Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Miklir hvalrekar.

Anno, desember 1552:  Átján stórhveli rak á land:

hvalrekiHvalrekar miklir hafa orðið í miklu vestanveðri á Suðvesturlandi. Átta stórhvali rak upp í Hafnarfirði á Hvaleyrargranda, fjóra suður í Straumsvík, tvo í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd og fjóra í Selvogi. Skaðar urðu einnig í veðri þessu. Átta skip brotnuðu á Álftanesi, og á Bessastöðum féll stofan til grunna.


Níu menn látast af áfengiseitrun í Vestmannaeyjum:

vestmannaeyjarAnno, 14. ágúst 1943: Hörmungar í Vestmannaeyjum.

Sá voðalegi atburður gerðist nýlega í Vestmannaeyjum að 20 menn veiktust af áfengiseitrun, og hafa látist níu menn af þeim sökum. Hinir eru á batavegi, en nokkrir þeirra liggja í sjúkrahúsi. Það er upplýst, að menn þessir hafa neytt áfengis, úr tunnu, sem fannst á reki út á hafi fyrir um það bil hálfum mánuði. Reyndist áfengi þetta vera eitraður tréspíritus. 

 

 

 

 


Bein Agnesar og Friðriks grafin upp:

Anno, 17. júní 1934: Agnes og Friðrik jarðsett að nýju í vígðri mold í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi:

agnes og friðrikHinn 17. júní síðastliðinn voru grafin upp bein Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar og jarðsett í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi. Framkvæmdi þá athöfn sóknarpresturinn þar, séra Sigurður Jóhannesson. Hinn 21. júní komu allmargir menn saman á hinum fornu brunarústum á Illugastöðum, og var þar beðið fyrir sálum þeirra Agnesar og Friðriks. Ástæðan til þess, að beinin voru grafin upp og bænasamkoman haldin, var sú, að kona ein í Reykjavík, sem ritar ósjálfráða skrift, kvaðst margsinnis hafa fengið óskir frá hinu óhamingjusama fólki, Friðrik og Agnesi, um "reynt yrði að milda málstað þeirra, sérstaklega Agnesar, og hafa áhrif á almenningsálitið í þá átt, og vekja samúð með þeim og skilning á öllum málavöxtum." Var leitað til biskups um leyfi til að grafa upp beinin, og var það veitt.

Sjá link; http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4649

 

 

 


Friðarræða Adolfs Hitlers gefin út í Íslenzkri þýðingu:

Anno, 13. janúar 1934: Bókmenntafélag Þjóðernissinna á Íslandi gefur út friðarræðu Adolfs Hitlers.

adolf hitlerBókmenntafélag Þjóðernissinna er nú að gefa út hina frægu friðarræðu Adolfs Hitlers, sem hann hélt við úrsögn Þýskalands úr Þjóðabandalaginu. Mun mörgum verða forvitni á að lesa, hvað þessi merkasti núlifandi stjórnmálamaður samtímans segir um friðarmálin. Hitler kanzlari er einnig afburða mælskumaður svo að ræða hans er skemmtileg aflestrar. Bókmenntafélag þjóðernissinna mun bráðlega gefa út fleiri ræður eftir Adolf Hitler.

Fréttatilkynning: Íslenzk endurreisn.

 


Þarf ekki að fækka hvölum stórlega ?

langreyður2Hvað með úrganginn frá ört vaxandi hvalastofnum í heimshöfunum ? Stórskaðar ekki þessi gríðalega losun á hvalasaur og þvagi ósonlagið ? Mér reiknast til að hver langreyður losi í hafið mörg hundruð tonn af ósoneyðandi úrgangi á hverju ári.
mbl.is Hitastig á jörðinni hækkar líklega um 1,8 til 4 gráður fram til aldamóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldar á Síðumannaafrétti: Stórkostlegt gos hafið - ólyfjan rignir yfir byggðir.

Anno, júní 1783. Skaftá þornuð, og hraunflóð vellur fram gljúfrið með fádæma gauragangi.

eldgosEystra eru komnar sagnir á kreik um ýmsa ískyggilega fyrirboða þessa eldgoss. Mörg vatnaskrímsli eiga að hafa sézt í Feðgakvísl í Meðallandi og eldhnettir liggjandi á jörðu hjá Steinsmýri. Eldingu laust niður í lambhús í Oddum í Meðallandi fyrir nokkru, og sumir hafa þótzt heyra undarleg hljóð í jörðu niðri og klukknahljóm í lofti. Aðrir hafa orðið varir við svonefndar pestarflugur, gular og svartar, og rautt regn á að hafa fallið þar eystra í vor. Lömb og kálfar hafa fæðzt með vanskapnaði, og var eitt lambið á Hunkubökkum á Síðu að sögn með hræfuglsklær á fótum í stað lagklaufa. Loks hefur suma dreymt válega drauma.


Þórður Einarsson bátasmiður fær 10 ríkisdala verðlaun frá konungi:

Anno, febrúar 1783.

áttæringur.

Afkastamikill bátasmiður.

Þórði Einarssyni í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi hafa verið veitt tíu ríkisdala verðlaun fyrir bátasmíðar. Hann hefur smíðað 344 báta að nýju um dagana, auk margvíslegra viðgerða. Þórður er nú gamall maður.


Sýslumaður missir vitið og sturlazt.

Anno, september 1783.

sýslumaður 2Vigfús Jónsson, sýslumaður í Þingeyjarsýslu, var fyrir nokru skipaður setudómari í máli í Eyjafirði.

Sýslumaður stefndi til þings að Hrafnagili 23. þessa mánaðar, en er þeir voru þangað komnir, er þar skyldu málum gegna, rak hann alla brott með harðri hendi. Því næst hljóp sýslumaður sjálfur niður að Eyjafjarðará og öslaði hana með landi fram meira en hálfa bæjarleið. Duldist ekki, að sýslumaður hafði sturlazt. Seinast fóru bændur til á ferju, handsömuðu hann og færðu til bæja.


1500 dánir úr bólusótt:

gröf 2

Anno-1787.

Bólusóttin sem farið hefur um landið í nærfellt tvö ár, er nú loks kulnuð út.

Það er talið að hún hafi orðið fimmtán hundruð manns að aldurtila, að langmestu leyti ungu fólki, sem ekki var í heiminn borið, þegar bólusótt kom hér síðast. Það er því blóminn úr þjóðinni, sem varð henni að bráð, og er sá missir sár, ofan á hið mikla mannfall, sem sem varð af hungri og harðrétti eftir Síðueldana.


Eyvindur og Halla gripin á Ströndum:

eyvindurAnno, apríl 1763.

Sigurður Sigurðarsson, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, hefur handtekið þrjá útileguþjófa á fjöllum í Strandasýslu. Voru það þau Eyvindur og Halla Jónsdóttir, sem ætlað er, að Árnesingar hafi hrakið úr bólstað sínum við Arnarfellsjökul undir vetur í fyrra, og Abraham nokkur Sveinsson hinn þriðji - sá hinn sami og fór við annan mann í kirkju á Stað í Hrútafirði í hitteðfyrra og stal þar miklum fjármunum. Við hreysi þeirra fannst undir steini dautt barn, sem Halla hefur alið. Eyvindur og Halla hafa verið færð Halldóri sýslumanni Jakobssyni á Felli í Kollafirði, og bíða þau rannsaks og dóms.

Sjá link, Fjalla - Eyvindur: http://www.snerpa.is/net/thjod/eyvind.htm 

http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4625

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband