Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
29.7.2010 | 15:19
Martröð þeirra er draumur okkar
Strax frá bankahruni var ljóst að ekkert myndi breytast á Íslandi. Áfram skiptist þjóðin í nokkrar klíkur.
Áfram ræður skotgrafahernaður ríkjum.
Áfram eru allir sannfærðir um að ekkert sé þeim að kenna. Ef þú ert á móti Jóni Ásgeiri ertu með Davíð Oddssyni og ef þú ert hlynnur Evrópusambandinu ertu Samfylkingarblesi.
Allir eru liðstreyjum og ef þeir neita að klæðast þeim er þeim troðið í þær.
Það sem blasir við á Íslandi er að þeir sem stjórna njóta ekki trausts. Afsprengi þess er að allir telja sig hafa lausnina. Útkoman verður borg full af besservissum sem vita allt best.
Í tíu sinnum fjölmennari löndum á Norðurlöndunum eru ráðherrarnir taldir í tugum.
Á Íslandi eru að minnsta kosti hundrað þúsund forsætisráðherrar.
Allir vita betur og auðmýktin er engin.
Ímyndið ykkur samfélag þar sem nokkur hundruð manns sjá um að stjórna og sjá til þess að farið sé að lögum og reglu og að það sem aflaga fór verði gert upp með réttlátum hætti.
Á þeim ríkir traust, þannig að afgangur landsmanna getur einbeitt sér að því sem skiptir máli í lífi hvers og eins. Hætt að eyða öllum stundum í tuð og væl.
Eina alvöru hugmyndin að breyttu samfélagi á Íslandi sem komið hefur eftir bankahrun er að við verðum hluti af Noregi.
Þeir státa af miklum auð og góðu og réttlátu samfélagi.
Hluti af olíusjóðum Norðmanna fer í að greiða upp skuldir Íslands og við verðum felld undir norska stórþingið og fáum þar fulltrúa í hlutfallslegu samræmi við fjölda okkar.
Með þessu móti myndum við í fyrsta skipti stoppa í stóra gatið sem býr til flest okkar vandamál. Smæðina.
Loks yrði fólk ráðið á faglegum forsendum og ákvarðanir yrðu ekki teknar vegna þess að Gunni frændi er svo góður gæi og Gunna frænka á inni greiða.
Við gætum hvert og eitt unnið okkar dagsverk og lagst til hvílu á kvöldin í þeirri vissu að ákvarðanir væru teknar með faglegum hætti og að við værum hluti af norðurlöndum nútímans, sem eru bestu samfélög sem mannkynssagan hefur boðið upp á.
Félagslega réttlát og mannúðleg.
Ég vildi gjarnan vera svo bjartsýnn að telja að þessi umræða yrði tekin af stjórnmálamönnum, en það gerist ekki.
Enginn vill útrýma starfinu sem tryggir þér örugga afkomu næstu fjögur árin.
Martröð íslenskra stjórnmálamanna er að þeir verði lagðir niður.
En martröð þeirra er draumur okkar hinna.
Grein eftir Sölva Tryggvason: Birt með leyfi höfundar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.7.2010 | 16:59
ÉG ER KOMINN HEIM - ÓÐINN VALDIMARSSON
28.7.2010 | 09:57
„Vituð ér enn…“
Hinn 17. nóvember 2004 birti höfundur grein, þar sem stóð m.a.: Í Morgunblaðinu 27. okt. sl. beindi undirritaður þeirri fyrirspurn til fjármálaráðherra hvert hefði verið söluverð eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélagi Íslands, sem seldur var í aðdrögum að sölu bankans.
Ráðherrann svaraði strax daginn eftir og kvað sér ljúft að upplýsa að hlutur ríkisins í Landsbankanum hefði ekki heyrt undir fjármálaráðherra heldur viðskiptaráðherra.
Í lok svarsins segir ráðherra: ,,Ég hefi ekki upplýsingar um umrætt söluverð en tel víst að það hafi verið í samræmi við markaðsverð þessara bréfa á þeim tíma."
Ráðherrann telur víst" en veit ekki um milljarðasölu á eign Landsbankans í VÍS, þótt bankinn væri hér um bil allur í eigu ríkisins.
Eins og fram kom í fyrirspurn greinarhöfundar, þurfti hann engar upplýsingar um að salan var á hendi bankamálaráðherra Framsóknar. Né heldur hverjir sáu um söluna fyrir hönd ráðherrans.
Þaðan af síður hverjir keyptu. Hann var aðeins að spyrja gæzlumann landsins kassa um hvað hefði komið í þann sjóð við fyrrgreinda sölu.
Staðreyndir málsins eru þessar: Bankamálaráðherrann bar ábyrgð á sölunni. Um söluna önnuðust bankaráðsmennirnir Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og sérleg senditík Finns Ingólfssonar, Helgi Guðmundsson.
Kaupandi var hinn svokallaði S-hópur ,,sem á rætur sínar að rekja til Sambands íslenzkra samvinnufélaga (SÍS)", sbr. Morgunblaðið 26. okt. sl. bls. 13, þar sem fyrirsögnin hljóðar: ,,VÍS yfirtekið og afskráð"."
Spurningunni, sem fjármálaráðherra kunni ekki svar við, hefir verið svarað fyrir margt löngu. S-hópurinn keypti VÍS-bréfin á 6,8 milljarða. Tæpum fimm árum síðar seldi hópurinn bréfin fyrir 31,5 milljarða króna.
Það er ekki von að fjármálaráðherrann vildi vita neitt um þessa frægu sölu á ríkiseign.
Þetta er eitt af dæmunum um hvernig framsóknarmenn mökuðu krókinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar með vitund og vilja Sjálfstæðisflokksins.
Grein úr Fréttablaðinu eftir Sverrir Hermannsson fyrrum þingmann og ráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2010 | 11:06
Hin nýja "Strandgæsla Íslands"
Starfsemi Landhelgisgæslu og Fiskistofu falla einstaklega vel saman.
Sameina ætti þessar tvær stofnanir hið bráðasta enda fengist með því mjög mikill sparnaður á fjármunum og langtum betri nýting á mannskap og tækjakosti Landhelgisgæslunnar.
Einnig mætti fella starfsemi Slysavarnarskóla sjómanna inn í hina nýju strandgæslu og næðist þar líka mikil hagræðing og sparnaður.
Leggja mætti niður alla starfsemi Fiskistofu í Hafnarfirði og færa í höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar.
Útibú Fiskistofu á landsbyggðinni yrðu útibú hinnar nýju stofnunnar sem gæti heitið "Strandgæsla Íslands".
Vinnuheiti "STRANDGÆSLAN"
Ég skora á ráðamenn að ræða þessar tillögur í fullri alvöru nú þegar.
Eitt varðskip við Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 08:57
Sorgarsaga - misheppnuð stjórn rækjuveiða við Ísland
Stjórn rækjuveiða við Ísland er sorglegt dæmi um hvernig fer þegar menn reyna að taka völdin af náttúrunni og reyna að hafa áhrif á framvindu dýrastofna. Menn hafa verið að "spara" stofnana í þeirri trú að þá mætti veiða seinna. Nú er svo komið að rækjuveiðar við landið eru nánast aflagðar.
Innfjarða er aðeins leyft að veiða við Snæfellsnes og er tillagan fyrir komandi ár 450 tonn. Þegar best lét, 1996 og 97 var afli innfjarðarækju um 10 þús tonn. Því hefur verið kennt um að þorskur og ýsa hafi étið upp rækjuna. Nú er hvergi veitt svo þetta rækjuát fær að fara fram í friði og ró.
Afli úthafsrækju hefur farið úr liðlega 60 þúsund tonnum 1996 niður í nær ekki neitt í fyrra. Samt hefur verið gefinn út 7 þúsund tonna kvóti í nokkur ár, sem ekki hefur verið veiddur því kvótahafar hafa notað hann í brask. Veiðar á úthafsrækju nú verið gefnar frjálsar, tími til kominn.
Þessar stjórnunartilraunir eru grátlegar vegna þess að vísindamenn í öðrum löndum, Noregi t.d, hafa verið sammála um að rækjuveiðar væru löngu hættar að vera arðbærar áður en stofninn kæmist í hættu. Um nokkurt skeið hafa einungis örfá skip verið á Flæmska hattinum þó nóg sé þar af rækjunni og veiðar nær frjálsar. Með hækkandi olíuverði og fallandi rækjuverði borgar sig ekki lengur að gera út.
Fiskskiljur voru skyldaðar við úthafsrækjuveiðar í kring um 1996. Tilgangurinn var að vernda þorsk. Ég varaði Hafró við þessu á þeim tíma vegna þess að reynslan var slæm frá Noregi:
Fyrst töpuðu sjómenn þriðjungi tekna vegna þess að ekki var lengur neinn meðafli. Þá fór rækjuafli minnkandi og annar þriðjungur tekna tapaðist. Sjómenn kenndu því um að nú fengi fiskurinn, sem þeir áður veiddu að éta rækjuna óáreittur.
Eftir að skiljurnar voru teknar í notkun við Ísland fór afli hratt minnkandi. Hvort þarna sé samhengi á milli er ekki víst, en rækjudeildin á Hafró kenndi afráni þorsks og ýsu um minnkun stofnsins og hefur gert það æ síðan. En áfram fær þorskurinn að éta óáreittur, - það er nefnilega verið að byggja upp þorskstofninn.
Myndin sýnir afla úthafsrækju frá 1987, svarta línan, aflaráðgjöf Hafró, rauða punktalínan og útgefinn kvóta, gula línan. Hér sést að farið hefur verið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni allan tímann að frátöldum síðustu árum þegar farið var að braska með kvótann.
Hér eru nokkrar klausur úr ástandsskýrslu Hafró sem sýnir örvæntingu rækjudeildarinnar:
...... "Í líkaninu er gert ráð fyrir að náttúruleg dánartala af völdum þorsks sé í réttu hlutfalli við magn þorsks á rækjusvæðinu. Í líkaninu voru notaðar niðurstöður úr mismunandi stofnmælingum sem mælikvarði á afrán þorsks á rækju.
Niðurstöður stofnmatslíkansins benda til að rækjustofninn sé í mun verra ástandi en stofnmæling úthafsrækju bendir til. Munurinn virðist tengjast nýliðunarvísitölum en eins og sést á mynd 2.27.4 hefur nýliðun rækju undanfarin 5 ár verið mjög lítil. Þessi lélega nýliðun getur engan veginn haldið stofninum í stöðugu ástandi eins og niðurstöður SMR gefa þó til kynna. Samband nýliðunar og nýliðunarvísitalna virðist því flóknara en talið hefur verið og þarfnast það frekari rannsókna. Af þessum ástæðum var ákveðið að byggja ráðgjöf næsta fiskveiðárs ekki að fullu á stofnmatslíkaninu.
Niðurstöður SMR árið 2009 benda til að stofninn sé lítill, afrán þorsks er talið frekar mikið og nýliðun virðist áfram vera léleg eins og verið hefur undanfarin ár. Sókn í stofninn hefur verið mjög lítil undanfarin ár og skýrir það að vísitala kvendýra hefur vaxið og er í meðallagi, þrátt fyrir mikið afrán þorsks. Þó virðist þorskurinn síður éta stóru rækjuna.
Í ljósi ofangreindra upplýsinga telur Hafrannsóknastofnunin að ekki séu forsendur fyrir breytingu á aflamarki og leggur til að heildaraflamark úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 verði 7 000 tonn, sem er sama aflamark og lagt var til fyrir síðustu fjögur fiskveiðiár. Náist sá afli mun það verða umtalsverð aflaaukning frá því sem verið hefur undanfarin 5 ár. "......
Þetta er vægast sagt ömurleg lesning. Ég vona að ráðherrann fari ekki að stöðva rækjuveiðar þó þær fari verulega fram úr ráðgjöfinni. Einnig að hann aflétti skyldunni um þorskskiljur og haldi meðafla utan kvóta. Það ætti að verðlauna menn sem veiða þorsk sem étur frá okkur rækjuna.
Grein eftir Jón Kristjánsson fiskifræðing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2010 | 10:13
Frelsið er betra en höft í höndum fárra
Atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er mikilvægara en margan grunar. Margir taka andköf yfir þeirri tilhugsun að frelsi skuli innleitt í eina grein útgerðar þótt það sé aðeins í eitt ár.
Ritstjóri Morgunblaðsins kallar frelsi athafnamanna til úthafsrækjuveiða hvorki meira né minna en aðför að sjávarútveginum. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins rífur í hár sitt yfir þessari ósvinnu.
Hvað er orðið af fánabera einkaframtaksins og frelsisins, Sjálfstæðisflokknum, þegar athafnafrelsi er kallað aðför að öllum 166 eigendum sjávarútvegsins í þjóðareigu?
Það er kannski meira en tímabært að rifja upp ástæðuna fyrir því að atvinnufrelsið er greipt í grundvallarlög landsins. Það er vegna þess að reynslan í gegnum aldirnar hefur kennt þjóðinni þá hörðu lexíu að almenningur tapar mest þegar þrengt er að atvinnufrelsinu.
Þegar fámennur hópur nær tökum eða eignarhaldi á mikisverðum réttindum og getur fénýtt þau í eigin þágu verður það alþýða landsins sem á endanum borgar, alltaf.
Sægreifarnir hafa hrifsað til sín 400 milljarða króna á aðeins 12 árum út úr greininni. Eftir sitja fyrirtækin með skuldirnar. Eignirnar eða öllu heldur peningarnir eru komnir í einkahlutafélög einhvers staðar í veröldinni, vel og vandlega geymdir.
Sum fyrirtækin skulda miklu meira en þau geta nokkurn tíma borgað og nýju bankarnir eru önnum kafnir við að endurskipuleggja sjávarútveginn, eins og það heitir. Það þýðir að selja fyrirtækin til og frá og afskrifa milljarða hér og þar svo þau verði nú rekstrarhæf.
Almenningur borgar. Svo þarf að lækka launakostnað til þess að geta borgað vextina. Það er gert með því að fækka störfum, lækka launin og láta sjómenn borga hlut af kvótakostnaðinum. Almeninngur borgar það líka.
Bankarnir, LÍÚ og Sjálfstæðisflokkurinn vilja að áfram geti 166 handhafar kvótans ráðið því hverjir þá að fara á sjó, vilja áfram að handhafarnir hafi sjálfdæmi um það verð sem greiða skal þeim hinu sömu fyrir sjóferðina og heimildina til þess að veiða fiskinn , vilja áfram geta mergsogið sjávarútveginn í eigin þágu, vilja áfram hafa kvótann á tegundum sem ekki eru veiddar og vilja áfram hafa víðtækar og rúmar heimildir til þess að selja, framselja, víxla, umbreyta, geyma, týna og skipta kvóta milli fisktegunda, skipa, ára og manna.
Þetta óskabarn braskaranna, kvótakerfið, er það ópíum sem gert hefur hagsmunasamtök og stjórnmálaflokka að uppdópuðum herfylkjum gráðugra og samviskulausra sem hafa glatað uppruna sínum og muna ekki lengur til hvers þau voru stofnuð.
Leiðin út úr spillingunni er í gegnum atvinnufrelsið. Þá koma fram einstaklingar á heilbrigðum forsendum og ýta ónytjungunum til hliðar. Einokunarkaupmenn fyrri alda vildu ekki samkeppni því hún var aðför að þeim. Almenningur bar kostnaðinn af einokuninni og hagur hans batnaði ekki fyrr en leikreglunum hafði verið umbylt.
Einokunin var aðför að almenningi. Frelsið var það sem skipti sköpum. Með tilkomu verslunarfrelsins, sem Jón Sigurðsson, barðist hvað mest fyrir, fengu ungir útvegsbændur og sjómenn á Vestfjörðum tækifæri til þess að hasla sér völl í útgerð og verslun.
Framfarir urðu stórstígar á næstu áratugum og hagur almennings batnaði svo um munaði.
Það þurfti að afnema einokunina fyrst, því meðan hún var við lýði voru mönnum allar bjargir bannaðar. Einokunarkaupmaðurinn tók allan hagnað til sín og mergsaug almenning og atvinnuvegina.
Sama hefur gerst á síðustu 15 árum í sjávarútveginum. Sjá menn ekki skuldirnar á fyrirtækjunum?
Sjá menn ekki hvað laun hafa lækkað? Sjá menn ekki hvað fólki hefur fækkað í sjávarplássunum? Sjá menn ekki skattasvindlið, aflandshlutafélögin, einkahlutafélögin og útrásarskömmina?
Ef það er aðför að einokunarmönnunum að breyta kerfinu er kerfið þá ekki aðför að almenningi?
Nú er frelsið til þess að veiða úthafsrækju svo yfirþyrmandi að einokunarmenn eru skelfingu lostnir. Þeir minna helst á dýr sem hefur verið lengi innilokað í búri.
Þegar það er opnað þorir dýrið ekki að vera utan hins lokaða heims og kýs að dvelja áfram inni í búrinu. En frelsinu fylgja tækifæri sem annars eru ekki fyrir hendi.
Með frelsinu koma menn sem nýta sér tækifærin. Sjá leiðir sem einokunarmennirnir fundu ekki og eflast af störfum sínum. Af því hefur almenningur mikinn ávinning.
Öll árin sem einokun var á úthafsrækjuveiðum varð almenningi dýr. Einokunarmennirnir notuðu kvótann til þess að fénýta veiðiheimildir í öðrum verðmætum fisktegundum og mergsugu útgerðirnar sem veiddu fiskinn.
Einokunin kom í veg fyrir að aðrir spreyttu sig á því að veiða úrhafsrækjuna.
Hún drap niður einkaframtak og útsjónarsemi. Einn útgerðarmaður á Ísafirði hefur árum saman lagt fyrir sig þessar veiðar, en hefur ekki átt kvóta. Hann sagði fyrir réttu ári í blaðaviðtali að honum kæmi best að hafa frjálsar veiðar.
Það eru líklega ómældar fjárhæðir sem hann hefur mátt greiða í vasa ópíumliðsins, sem betur hefðu verið komnar í fyrirtækinu.
Nú hefur þessi útgerðarmaður keypt kvóta og snúið við blaðinu. Hann vill núna loka veiðunum fyrir utangarðsmönnum. En það sem þessi ágæti Ísfirðingur hefur sannað á undanförnum árum með dugnaði sínum og þrákelkni er enn í fullu gildi.
Hann væri í dag mun betur staddur ef hann hefði betur notið frelsis síns á þessum árum. Hann skapaði vinnu þegar einokunarmennirnir gátu það ekki. Hann skapaði verðmæti þegar hinir sátu með hendur í skauti. Atvinnufrelsið er betra en höft í höndum fárra.
Frjálsar veiðar er góð leið út úr ruglinu og þegar til þess kemur að takmarka þarf veiðarnar á nýjan leik verður hægt að setja kerfi sem byggist á atvinnufrelsi.
Atvinnueinokun kvótakerfisins á heima á öskuhaugum sögunnar.
Grein eftir Kristinn H. Gunnarsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2010 | 10:30
Úthafsrækjan - samráðsforstjórar LÍÚ - svona haga þeir sér
Um miðjan febrúar 2006 bárust þau tíðindi að grálúðukvóti innan íslenskrar lögsögu væri nær ófáanlegur til leigu nema kanski gegn ofurgjaldi.
Þessi staða kom flestum í opna skjöldu, ekki síst í ljósi þess að einungis hafði náðst að veiða 4314 tonn af 16.146 tonna úthlutuðu aflamarki það fiskveiðiárið.
Ekki náðist að veiða 6000 tonn af 17.900 tonna aflamarki í grálúðu á fiskveiðiári á undan 2004/2005.Lengst af á þessu tímabili og hafði leiguverð á grálúðukvóta verið á bilinu 30 til 40 krónur fyrir kílóið og framboð margfalt umfram eftirspurn.
En í febrúar 2006 brá svo við að ekki var hægt að fá leigt eitt einasta kíló af grálúðu og skiptir þá varla nokkru máli hvaða upphæð var í boði.Það er ljóst að íslenskar aflaheimildir í grálúðu eru á höndum örfárra fyrirtækja innan LÍÚ og einfalt mál fyrir forstjórana að ráða framboði og verði á leigukvótum.
Ekki þarf að hringja nema örfá símtöl eða senda tölvupósta til að stoppa framboð á grálúðukvótum og sprengja verðið upp úr öllu velsæmi.
Þetta hafa þeir leikið hvað eftir annað árum saman í öllum tegundum með það eitt að markmiði að slátra öllum leiguliðum á kvótalausum skipum.
En af hverju gerist þetta í febrúar 2006 þrátt fyrir að sýnt var að ekki náist að veiða nema hluta af því aflamarki í grálúðu sem eftir var á yfirstandandi fiskveiðiári ?
Svarið við þessari spurningu vita fáir enn sem komið er en aftur á móti vitum við það nokkrir sem um málið fjöllum.
Tvö skip Síldey NS-25 og Jón Steingrímsson RE-7 höfðu verið útbúin af eigendum sínum til netaveiða á grálúðu. Þessi tvö skip voru kvótalaus með öllu og höfðu verið lengi.
Útgerðirnar mátt reiða sig á leigukvóta og treyst á að framboð væri nægilegt á hverjum tíma þó svo að endurgjaldið hafi verið langt umfram það sem þær höfðu ráðið við að greiða.
Verð á leigukvóta í grálúðu hafði verið mjög lágt undangengin ár eins og áður greinir en verð á afurðum mjög hátt.Því var eðlileg og sjálfsögð sjálfsbjargarviðleittni hjá útgerðum Síldeyjar og Jóns Steingrímssonar að keyra sig út úr leigu á þorski og öðrum rándýrum bolfisktegundum og skipta yfir á veiðar í grálúðunet.
Aðeins eitt skip stundaði veiðar við Ísland með grálúðunetum Tjaldur SH-270 sem var í eigu Brims hf.Útgerð Tjalds var því frumkvöðull í veiðum á grálúðu með netum við Ísland og höfðu veiðarnar gengið ákaflega vel.
Forsvarsmaður útgerðar skipsins var Guðmundur Kristjánsson sem jafnframt er langstærsti einstaki eigandi í úthlutuðu aflamarki grálúðu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
Haft var eftir útgerðarmanninum ef fleiri skip ætluðu að fara á veiðar með grálúðunet til viðbótar við Tjaldinn þá yrði ekkert til skiptana í sjónum hringinn í kringum landið þar sem öll lögsaga Íslands út á 200 sjómílur þyldi einungis eitt skip.Slíkur málflutningur er heimskulegur en gefur svarið við þeirri spurningu sem sett var fram hér að framan.
Það er skemmst frá því að segja að útgerðirnar sem gerðu út Síldey og Jón Steingrímsson urðu mjög fljótlega gjaldþrota vegna samráðs og kúgunnar LÍÚ.
Nákvæmlega þetta hefur þeim gengið til með allar aðrar tegundir og er rækjan ekki undan skilin.
Nákvæmlega þetta ætla þeir sér að gera ef ráðherra sjávarútvegsmála Jón Bjarnason bakkar með þá ákvörðun sína að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar.
Er það þetta sem Íslendingar vilja horfa upp á áfram að örfáir einstaklingar leiki sér að því að rústa hagsmunum þjóðarinnar í skiptum fyrir sína eigin stundar hagsmuni ?
Byggðastofnun í vandræðum á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2010 | 10:22
Hulunni svipt af óþekktum verkum Kafka
Á næstunni verður bankahólf í banka í Zurich í Sviss opnað en talið er að það geymi handrit og teikningar eftir rithöfundinn Franz Kafka.
Opnun hólfsins er síðasti snúningurinn í langdreginni lagadeilu um hverjir séu eigendur innihalds þess. Tvær systur í Ísrael halda því fram að handritin og teikningarnar séu arfur frá móður sinni en stjórnvöld í Ísraels krefjast eignarhalds þar sem um hluta af menningararfleið landsins sé að ræða.
Kafka bað rithöfundinn Max Brod að brenna þessa pappíra eftir andlát sitt en Brod gerði það ekki. Hann arfleiddi síðan ritara sinn að handritunum og teikningunum en ritarinn er móður systranna tveggja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2010 | 15:52
Úthafs - rækjan gefin frjáls - tekin út úr kvóta
Þessi ákvörðun er tekin til eins árs og henni er ætlað hvetja til betri nýtingar á úthafsrækjustofninum og þannig verði sem mestum verðmætum náð, segir í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu. Í lok ársins verði staðan svo endurmetin.
Gert er jafnfram ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp á haustþingi um stýringu rækjuveiða fiskveiðiárið 2010/11.
Í fréttinni er vísað til skýrslu starfshóps ráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá yfirstandandi ári en þar segir m.a.:
Að framansögðu virðist sem sóknarstýring gæti hentað við veiðistjórnun á úthafsrækju og myndi það líklega vinna gegn því að heimildir döguðu uppi í lok fiskveiðiárs, auk þess sem slík stýring byggir ekki á aflamarki sem leitt getur til millifærslu bolfisks.
Einnig myndu afleiðingar óvissu í stofnmati á úthafsrækju væntanlega verða minni. Með sóknarstýringu á rækjuveiðum yrði upphaflega miðað við sóknartíma á tilteknu viðmiðunartímabili og sóknin stillt þannig við innleiðingu kerfisins að talið yrði að stofninn þyldi vel álagið.
Eftir því sem rækjukannanir og afli á sóknareiningu í veiðunum breyttust sveiflaðist aflinn, en eðlilegast væri að skilgreina viðmiðunarmörk í afla á sóknareiningu eða í stofnmælingu sem kveði á um hvernig dregið yrði úr sókn eða hún aukin eftir mældum stærðum.
Síðan segir í niðurstöðum vinnuhópsins:
Með sóknarstýringu á úthafsrækjuveiðum mætti vinna gegn því að heimildir til úthafsrækjuveiða döguðu uppi. Um allverulega kerfisbreytingu yrði að ræða sem krefðist breytinga á löggjöf."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2010 | 16:48
Frjálsar makrílveiðar strandveiðibáta
Nú hefur Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra enn einu sinni sannað rækilega svo ekki verður um villst að hann er okkar besti sjávarútvegsráðherra frá tíð Lúðvíks Jósepssonar og Matthíasar Bjarnasonar.
Hvernig á að elda makríl? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 764336
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar