Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
23.9.2013 | 18:58
Matargerð í Stapadal við Arnarfjörð
Sigríður Júlíana Kristjánsdóttir var fædd í Stapadal í Arnarfirði 16. febrúar 1876, dóttir Kristjáns hreppstjóra Krístjánssonar Guðmundssonar frá Borg og konu hans, Símoníu Pálsdóttur, Símonarsonar frá Dynjanda í Arnarfirði. Hún lést 16. mars 1943.
Tæplega tvítug að aldri, í desember 1895, gekk Sigríður að eiga Bjarna Asgeirsson frá Álftamýri, Jónssonar prests Ásgeirssonar sem sagður var atgjörfismaður og mikill ásýndum.
Settust þau Sigríður að í Stapadal og bjuggu þar í 6 ár, en fluttust þá að Hokinsdal í Arnarfirði, og bjuggu þar árin 1902 til 1906, fluttust þau þá aftur að Stapadal og bjuggu þar óslitið síðan þar til Bjarni lézt haustið 1935. Þau hjónin eignuðust 15 börn.
Fluttist Sigríður til Ísafjarðar eftir lát Bjarna, ásamt nokkrum börnum sínum og átti þar heimili síðan. Eru þetta fjölmennar ættir, og margt dugnaðarfólk komið þaðan.
Kristján í Stapadal var dugandi atgerfismaður til sjós og lands, hraustmenni að burðum, svo talið var að fáir kæmust þar til jafns við hann. Vel viti borinn og upplýstur að þeirra tíðar hætti.
Sigriður var snemma vel gefin og námfús bæði til munns og handa. Hún var tíguleg og bauð jafnan af sér hinn viðfelldnasta þokka hinnar háttprúðu og gjörvilegu konu. Hún var ágætlega verki farin, svo að segja mátti, að öll verk léku í höndum hennar.
Varðveist hafa tvær mataruppskriftir eftir Sigríði J. Kristjánsdóttur í tímaritinu 19. júní frá því 1928 og birtast þær hérna neðanmáls orðrétt eftir hennar forskrift.
Sýrugrautur:
1. lítri drykkjarsýra, 2 I. vatn, 1 stöng kanel, sykur eftir bragðí, kartöflumjöl svo mikið, að grauturinn verði hæfilega þykkur. Þegar síður er froðan tekin ofan af og kartöflumjölið Iátið í. Þessi grautur er hollur og Ijúffengur og borðast kaldur með mjólk og sykri. Til þess að grauturinn verði litarfallegri má láta í hann nokkra dropa af súpulit eða eggjalit, ef vill.
Mysugrautur:
3. lítrar ný mysa, 1 stöng kanel, 2 3 matsk., sykur, kartöflumjöl. Því lengur, sem mysan er soðin, þess minna þarf af sykur og þess bragðbetri verður grauturinn, en það má líka láta mjölið í strax og síður. Þennan graut á helzt að borða volgan með mjólk og sykri. Líka má búa til súpu úr sama efni og borða með tvíbökum eða öðru brauði, en hafa þá minna af kartöflumjöli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.9.2013 kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2013 | 16:30
Hið forna prestsetur, Alftamýri við Arnarfjörð
Síðasti prestur á Álftamýri var Arngrímur Bjarnason, sem flutti þaðan að Brjánslæk árið 1880. Þá var Álftamýrarsókn lögð undir Hrafnseyrarprestakall.
Þá tók við búi á Álftamýri Ásgeir Jónsson. Hann var sonur séra Jóns Ásgeirssonar, sem var prestur á Álftamýri 1839-1862 og á Hrafnseyri 1862-1880. Var hann þannig prestur með Arnfirðingum í meira en 40 ár.
Hann var merkur maður á margan hátt, en sérstaka athygli vöktu dulskyggni hans og fjarskyggni. Ásgeir sonur hans var einn þeirra Arnfirðinga sem handskutluðu hvali af litlum bátum.
Hann bjó við rausn á Álftamýri og eftir hann Gísli sonur hans í 46 ár til ársins 1942. Sautján ára gamall gerðist Gísli formaður fyrir föður sinn á sexæringi, en tvítugur tók hann við skipstjórn á þilskipi.
Búskapur hans á Alftamýri var með miklum rausnarbrag. Vafalaust hefur sjávaraflinn staðið undir þeim búskap að miklu leyti.
Síðasti bóndi á Alftamýri var Vagn Þorleifsson, sem hvarf þaðan árið 1957 eða 1958. Kirkjan á Álftamýri mun hafa verið rifin 1967 eða 1968. Voru þá ekki eftir nema tvö byggð býli í sókninni, bæði úti í Lokinhamradal. Hrafnabjörg og Lokinhamrar.
Við Kirkjugarðinn á Álftamýri stendur mikils háttar hlið, en fyrir því gekkst Pétur Björnsson skipstjóri, en afi hans og nafni hvílir þar í garðinum undir áletruðum legsteini, eins og fleira sóknarfólk sem þar á nöfn sín geymd.
Innst í Álftamýrarlandi er víkin Hlaðsbót. Um hana segir séra Jón Ásgeirsson í sóknarlýsingu kringum 1840: Þar standa verbúðir sem fólk úr innri sókn brúkar á haustdag, þá það leggur sig hingað út í sókn þessa til fiskiafla, því treggengur er fiskur til innri fjarðarins.
Er þar mikið góð lending í öllum áttum og mjúkur fjörusandurinn." Hlaðsbót var um tíma löggiltur verslunarstaður og Bíldudalskaupmenn keyptu þar fisk og seldu salt og fleira. Þar er enn til minja allmikill húsgrunnur í fjörunni.
Baulhús er lítil jörð innan við Álftamýri og talin byggð úr heimalandi Álftamýrar. Hún mun hafa farið í eyði skömmu eftir 1940 og síðasti ábúandinn verið Ásgeir Matthíasson, bróðursonur Gísla á Álftamýri.
Matthías Ásgeirsson, bróðir Gísla, bjó lengi á Baulhúsum og var mikill áhugamaður og kappsmaður við sjósókn eins og Gísli. Til er munnmælasaga um karl nokkurn sem var við útróðra frá Álftarmýri en þótti hann nokkuð stórtækur í lýsingum.
Einu sinni komst hann svo að orði: Það vildi ég að kominn væri í Álftamýrarfjöru svo mikill fiskur að næði suður að Bjargtöngum og norður að Horni og stæði ekkert upp úr nema höfuðin á Gísla frænda og Matta á Baulhúsum og myndi þá verða mikill handagangur í öskjunni.
"Öðru sinni sagði karl þegar ílát vantaði undir lifur: Það vildi ég að komið væri í Álftamýrarfjöru svo stórt grútarkar að veröldin væri ekki nema eins og í sponsgatið á því." Sýnir þetta að maðurinn hefur haft mikið hugmyndaflug.
Markús Þórðarson var prestur á Álftamýri 1817-1839. Samtíða honum bjó Magnús Ólafsson á Baulhúsum, forn í brögðum og fjölkunnugur.
Prestur vildi láta byggja stekk og valdi honum stað þar sem talin var gömul dys. Magnús latti prest að róta þar um og kvað illt myndi af hljótast. Prestur ruddi samt dysina til stekkjarstæðis.
Er mælt að hann fyndi þar mannsbein og peninga, byggi um beinin í moldu en hirti peningana. Eftir það veiktist prestur undarlega, en hann var áður hraustmenni.
Þóttust skyggnir menn sjá sækja að honum mann einn mjög stóran og herðabreiðan og kölluðu þeir hann Breiðherðung. Ekki varð presti þó stórkostlegt mein að honum meðan Magnús á Baulhúsum lifði, en eftir fráfall hans ágerðist sjúkdómur prests uns hann andaðist.
Bróðir Magnúsar var Jóhannes Ólafsson á Kirkjubóli í Mosdal, frægastur allra galdramanna í Arnarfirði á 19. öld.
Hann hafði í þjónustu sinni bæði drauga og loftanda, sem hann lét sækja uppvakninga og skaðræðisdrauga og færa sér. Síðan setti hann þá niður og gerði skaðlausa.Tjaldanes var þá kirkjujörð frá Álftamýri. Jóhannes falaði þessa jörð til ábúðar af séra Markúsi en fékk ekki.
En þegar Jóhannes frétti að prestur þjáðist af ásókn Breiðherðungs mælti hann: Ég skyldi hafa stuggað við drengnum hans ef hann hefði byggt mér Tjaldanesið."
Byggt á frásögn Guðmundar Inga Kristjánsson frá Kirkjubóli í Önundarfirði (1907-2002).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2013 | 14:31
Örlagasaga Helgu EA 2, frá Hrísey
Ég ætla að segja ykkur sögu,
sú saga er um horfið fley,
en aðalefni hennar
um unga og fagra mey.
Þetta er sorgarsaga,
hún sögð er norðanlands enn.
Mér sögðu ana aldnir sjómenn,
sannorðir prúðir menn.
Ég heyrði ´ana um borð í Helgu
hvíslað milt og rótt,
hún seytlaði um sál mína og taugar
og svipti mig öllum þrótt.
Þá söng í siglu og stögum,
sjórinn ókyrðist fljótt.
Við leituðum hafnar af hafi
Þá heldimmu septembernótt.
Svo skal þá sagan byrja,
sagan um nýsmíðað skip,
sem í fyrsta sinna átti að fljóta,
frítt með tignarsvip.
Viðstaddir voru þá margir
við þetta glæsta far,
ástmey yngsta smiðsins
var einnig viðstödd þar.
Hún stóð við stjórnborðssíðu,
stillt með ljósa brá.
Unnustan unga líka
hún eflaust kom til að sjá.
Hún hét Helga þessi
hugþekka unga mær.
Skrið var komið á skipið
Þá skunda hún átti fjær.
Þá bilaði ´inn sterki strengur,
stórt var skipsins fall,
með eldingar ofsahraða
ofaná Helgu skall.
Lemstraður líkami hennar
var lagður í hvílu um hríð.
Unnustinn ungi sá þar
allt hennar dauðastríð.
Upp frá því engum manni
Í þeirri hvílu var rótt,
hún var varin af svip eða vofu,
varin jafnt dag og nótt.
Svipurinn sást oft á stjái,
við sigluhún efst hún stóð,
ung og æskufögur,
í augunum tvíræð glóð.
Er hafið í hamförum æddi,
hún benti örugg til lands.
Skipstjórinn bending þá skildi,
skipun hún var til hans.
Þá vís voru mannskaðaveður,
hann vissi, þau boðuðu hel,
hélt því strax til hafnar
og heppnaðist alltaf vel.
Eitt sinn á Aðalvík forðum
við akkeri og festar hún lá.
Vaktmenn tveir skyldu vaka
og vel um skipið sjá.
Mjótt er á milli stiga
mannsandans tíðum haft.
Svefninn er öllum sætur,
Þeir sofnuðu báðir á vakt.
Ótryggt var veðurútlit,
áhættan mjög því stór,
vetrarnótt lengi að líða,
við land braut þungur sjór.
Þá kom hún að Jakobs hvílu,
karlinum varð ekki rótt,
hún svifti hann værum svefni,
sýnin um miðja nótt.
Í því stormbylur æddi
um hið trausta far,
sem farið var fast að drífa
að feigðarsandinum þar.
Þá hefur mjóu munað
að menn og skip týndust við sand,
og alveg ókleift mönnum
að eiga þar björgun við land.
Svo er þá hinzta sagan,
Sagan um Helgu lok.
Það enginn um kann segja,
Það var aftaka sjór og rok.
Hver leysti þá landfestar Helgu
er lagði ´ún í hinztu för ?
Hver stóð við stjórnvöl á fleyi
og stýrði þeim feyga knör,
er hinzti brotsjórinn hrundi
á hrjáð og mannlaust fley
var þá ei vaktin fullstaðin
hjá vökulli fagurri mey ?
Hvort á hún nú hvílu í knerri,
eða komst hún á æðra stig ?
Það er mér óráðin gáta,
þar ályktar hver fyrir sig.
Þótt að sjálfsögðu enginn syrgi,
syrgi né felli tár,
þá varði hún skipið voða,
voða, í rúm sjötíu ár.
Höfundur: Ragnar S. Helgason frá Álftafirði N-Ísafjarðarsýslu (1900-1979).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2013 | 13:09
Ásta Sóllilja vakin
Um leið og vatnsboginn stóð niðrí könnuna voru fyrstu orð dagsins sögð upphátt í bænum: formálinn sem amma hans hafði um hönd til þess að særa Ástu Sóllilju frammúr djúpum svefni. Þessi athöfn endurtók sig eftir sömu reglu á hverjum morgni, og enda þótt hún virtist Ástu sjálfri jafn annarleg í hvert sinn, þá kunni dreingurinn hana nógu vel til þess að vera hennar minnugur ævilangt.
Mikil fyrirmunun er að horfa uppá þessa eymd,. Hálf-fullorðin manneskjan, ég segi það satt. Það er eins og þessir blessaðir aumingjar hafi hvorki ráð né rænu. Var nú í rauninni við því að búast, að nokkur sem á annað borð svaf gæti vaknað við þvílíkan lestur ?
Það var eingu líkara en gamla konan væri að nöldra þetta við sjálfa sig inná milli morgunsálmanna. Enda hélt Ásta Sóllilja áfram að sofa með höfuðið uppí horni, opinn munninn, hnakkann keyrðan á bak aftur, annan lófann undir eyranu, en hinn opinn til hálfs ofaná sænginni, eins og hún byggist við því í svefninum að einhver legði hamingjuna í lófa henni.
Skyrtan hennar vaar stöguð í hálsmálinu. Svo hélt formálinn áfram. Það er sosum auðséð að það er ekki til nokkur hugsun í þessum aumingjum. Hvernig ætti nokkurntíma að geta orðið manneskjur úr þessu, - hún talaði mjög í fleirtölu eða hvorugkyni um Ástu Sóllilju, - og eiga ekki nema einn skyrturæfill. (Hærra): Sóla prjónarnir þínir bíða, manneskja. Það er komið frammundir dagmál og bráðum hádegi.
Dreingurinn staðreyndi aðferð ömmunnar í tímareikningi ævinlega með jafnmikilli undrun. Svo stendur vatnsbunan yndislega úr katlinum niðrí pokann, samfara dumbu hljóði, ilmþrúnginni gufu. Og Ásta Sóllilja heldur áfram að sofa. Og gamla konan heldur áfram að vekja Ástu Sóllilju meðan kaffið er að síga niðurúr pokanu:
Þú verður aumingi og sjálfs þíns vesalíngur allt þitt líf, Ásta Sóllilja. Og Ásta Sóllilja heldur áfram að sofa. Láttu þér ekki detta í hug að ég beri þér kaffið á sængina eins og stássfrú, þrettán ára gömul stelpan , lángt komin á fjórtánda ár, bráðum gengin fyrir gafl. Fyr læt ég hann föður ykkar sækja vöndinn.
En þessi morgunmessa hafði aldrei nein sýnileg áhrif á Ástu Sóllilju. Þegar Hallbera gamla gekk að rúminu og þruskaði við henn, þá en fyr ekki, opnaði stelpan augun. Hún opnaði þau með erfiðismunum, drap titlinga óttaslegin, leit í kringum sig ríngluð. Loksins áttaði hún sig á hvar hún var stödd, grúfði ennið niðrí olbogabótina og snökti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2013 | 20:25
Ljósmóðirin á Sellátrum
Seint á 19. öld bjó á Sellátrum í Tálknafirði Kristján Oddsson bóndi. Á vist með honum var ung stúlka, sem hét Sigrún Ólafsdóttir (f. 10.3. 1855 á Auðkúlu í Auðkúluhr., d. 10.11. 1930) og var heitmey Magnúsar sonar hans.
Það var eina nótt, að Sigrúnu dreymir, að maður kemur til hennar og biður hana að koma með sér. Fer hún svo út með manninum, og ganga þau til sjávar.
Sér hún þar lítinn bát í flæðarmáli. Maðurinn biður hana að stíga um borð í bátinn og segir, að hún verði að koma með sér, því hann eigi heima hinum megin fjarðarins.
Þykist hún þá vita, að hann muni eiga heima á Lambeyri, sem er bær handan fjarðarins. Rær hann svo yfir fjörðinn og lendir á Lambeyri.
En er þau stíga á land, gengur hann þar fram hjá bænum. Spyr hún hann þá, hvert hann ætli. Hann segist eiga heima í honum Lambadal, sem er þar eigi allskammt frá, og átti hún þar engra bæja né manna von.
En er þau koma fram dalinn, sér hún þar bæ, lítinn og fátæklegan, en mjög snotran og þokkalegan. Segir þá maðurinn henni, að kona sín liggi þar í barnsnauð, og eigi hún að sitja yfir henni. En Sigrún segir, að það muni að litlu gagni koma, því að hún sé óvön þeim starfa.
Maðurinn segir, að duga muni, ef hún aðeins vilji koma inn og hjálpa sér. Ganga þau svo inn, og sér hún þar konuna; situr hún yfir henni, og gengur allt vel. En er hún hefur laugað barnið og klætt, segir bóndi munu flytja hana yfir fjörðinn aftur.
Ganga þau svo til sjávar, og rær hann með hana á bátnum yfir fjörðinn að Sellátrum. En er hann kveður hana, segir hann, að sér þyki illt að geta engu launað henni, en hann sé svo fátækur, að hann eigi engan hlut, er hann geti boðið henni fyrir annan eins greiða og hún hafi gjört sér.
En nú vill ég ráðleggja þér, að þú lærir yfirsetukvenna fræði, því að ég mun mæla svo um, að þér lánist sá starfi vel. Kveðjast þau svo; hann rær yfir fjörðinn aftur, en hún þykist ganga inn. Man hún draum sinn um morguninn, og þykir hann undarlegur.
En næsta haust fer hún heiman að til þess að læra yfirsetukvenna fræði, og er hún hefur lokið náminu, kemur hún heim aftur og giftist Magnúsi. Tekur hún þegar við ljósmóðurstörfum í Tálknafirði, og lánaðist það ágætlega, og var vel metin kona.
En nokkru síðar tekur hún vanheilsu mikla og leggst í rúmið. Var margra lækna vitjað, en enginn þekkti sjúkdóminn, og lá hún rúmföst allan seinni hluta vetrar og fram á sumar, svo ekki brá til bata. Þá bjó á Lambeyri ekkja nokkur, Kristín Snæbjarnardóttir, og hét ráðsmaður hennar Kristján.
Var það einn sunnudagsmorgun, að hann segir Kristínu draum sinn. Hann dreymdi, að maður kæmi til sín, sem hann þekkti ekki, og spyr Kristján, hvort það muni ekki fara til kirkju á morgun, Lambeyrarfólk.
Kirkjustaðurinn er Stóri-Laugardalur, hinum meginn fjarðarins, skammt fyrir innan Sellátur. Kristján kveðst ekki vita það. Maðurinn segir þá, að ef svo beri við, að hann fari til kirkju á morgun, - ætla ég að biðja þig bónar. Kristján spyr, hvað það sé.
Maðurinn segir: Ég veit, að Kristján Oddsson frá Sellátrum verður við kirkju á morgun. Skilaðu við hann frá mér, að mér þyki sárt að vita, hvað hún Sigrún þjáist. Hún hefur hjálpað mér, og mig langar til þess að hjálpa henni.
Ég þekki meðalið, sem læknar hana. Frammi í Krossadal vaxa grös, sem hann lýsir lit og auðkennum á ; Þessi grös vill ég, að Kristján sæki sjálfur og sjái um, að Sigrún sé látin drekka af þeim þrisvar á dag tebolla, í hálfan mánuð, og mun henni þá batna. Frá hverjum á ég að skila þessu? segir Kristján; hvar áttu heima? Ég bý hérna í honum Lambada; hún Sigrún þekkir mig.
Þótti honum svo maðurinn hverfa frá sér. En er Kristín hefur heyrt drauminn, hvetur hún Kristján að fara til kirkju og vill fyrir hvern mun, að skilaboðin komist til Kristjáns Oddssonar.
Er svo farið til kirkju frá Lambeyri, og stendur það heima, að Sellátrafólkið er við kirkjuna. En eftir messuna bregður Kristján frá Lambeyri nafna sínum á einmæli og segir honum drauminn.
En Kristján verður fár við, og segir, að lítið mark muni að draumi þessum, en segist þó munu kannast við, að sér hafi borizt skilaboðin. Þegar Kristján kemur heim, segir hann Sigrúnu drauminn og spyr, hvort hún kannist nokkuð við mann þennan.
Segir hún þá Kristjáni sinn draum, sem hún hafði ekki áður neinum sagt. Bregður þá Kristján þegar við og fer fram í Krossadal og finnur þar grösin eftir tilvísun draumsins.
Var nú þegar byrjað á að láta Sigrúnu drekka af grösunum, eins og fyrir var sagt, og fór henni dagbatnandi. Stóð það heima, að eftir hálfan mánuð gat hún klæðzt, og varð síðan alheil.Það var við annað sinn, að Sigrún á Sellátrum dreymdi, að henni þótti koma til sín maður að sækja sig til konu í barnsnauð. Þótti henni það ekkert undarlegt, því að þá var hún tekin við ljósmóðurstörfum þar í hreppnum.
Þóttist hún búa sig í snatri og taka með sér tösku þá með lyfjum og verkfærum, er hún var vön að hafa með sér í þess konar ferðir. En þegar hún kemur, sér hún söðlaðan hest í hlaðinu. Sezt hún á bak, og ríða þau sem leið liggur inn að Kvígindisfelli.
En ekki komu þau þar við, og heldur maðurinn áfram fram í Fagradal. Þykir henni það undarlegt, því að hún vissi þar engrar byggðar von. En er þau eru komin nærfellt í miðjan dalinn, sér hún þar kirkju og reisulegan bæ.
Maðurinn fylgir henni inn. Þar liggur kona. Sigrún situr yfir henni og gengur allt vel. En er hún hefur laugað barnið og hjúkrað konunni, tekur hún skæri sín, sem hún hefur skilið á milli með, og ætlar að þvo þau og þerra, eins og hún var vön að gera.
Kemur þá maðurinn til hennar og segir: Þú skalt ekki þvo skæri þín; láttu þau í töskuna, svo að þú sjáir á morgun, hvað þú hefur starfað í nótt. Hún þykist svo láta þau í töskuna, án þess að þvo þau; kveður svo konuna, og sami maður fylgir henni aftur heim að Sellátrum.
En um morguninn, er hún vaknar, man hún drauminn. Tekur hún þá töskuna, skoðar skærin og sér á þeim tvo svarta blóðbletti. Ætlar hún þá að reyna að fægja skærin og ná af þeim blettunum, en getur ekki. Og sátu þeir þar æ síðan.
Heimild þessi er færð í letur eftir frásögn Ólínu Andrésdóttur, en henni sögðu systur hennar, Andrésa og Guðrún, eftir sjálfri Sigrúnu ljósmóður á Sellátrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.9.2013 kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2013 | 13:26
Eitt þúsund og fimm hundruð grindhvalir óðu á land
Árið 1813 óðu á land í Hraunsfirði, eða hlupu á land, nálægt 1500 marsvín (grindhvalir) og sóttu menn þangað úr Mýra-, Snæfellsness-, Dala-, Barðastrandar-, Stranda og Húnavatnssýslum. Mælt var sá hvalur væri meira seldur en gefinn af umboðsmanni konungs, Stefáni Scheving á Ingjaldshóli.
Þar um var þetta kveðið.
Má ei tala margt um þar,
mig því bernskan heftir,
hvort að sala og vigtin var
vilja drottins eftir.
Hátterni hvalanna ráðgáta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Fyrir sjómenn.
- Veðurspá - Veðurstofan
- Veður og sjólag
- Atlantshafsspá
- Belgingur
- Ventusky.com
- Flóðatafla Reykjavík
- Heimsmarkaðsverð á fiski
- Reiknistofa fiskmarkaða
- Fiskistofa
- Norges Fiskarlag
- Staðsetning skipa
- Landhelgisgæslan
- Hrafnseyri
- Byggðasafn Vestfjarða
- Hús skáldsins
- Sögueyjan Ísland
- Ríkisútvarpið rás 1
- Facebook - Nilli
Bloggvinir
- Ársæll Níelsson
- Jóhannes Ragnarsson
- Hafdís Ösp
- Jón Kristjánsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Jakob Falur Kristinsson
- Þórður Sævar Jónsson
- Lýður Árnason
- Ólafur Ragnarsson
- Karl V. Matthíasson
- Valmundur Valmundsson
- Árni Gunnarsson
- Elfar Logi Hannesson
- Sigurbrandur Jakobsson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Ketill Sigurjónsson
- Jón Steinar Ragnarsson
- Kristján H Theódórsson
- Ívar Pálsson
- Sigurður Sigurðsson
- Magnús Jónsson
- Jens Guð
- Jón Valur Jensson
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Þráinn Jökull Elísson
- S. Einar Sigurðsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Hörður Halldórsson
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 764335
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar