Leita í fréttum mbl.is

Merkasti sonur Íslands:

Einar Benediktsson 1864-1940.

einar ben2Einar Benediktsson er íslensk þjóðhetja frá þeim tíma þegar Ísland var að vakna úr dvala eftir aldalanga kyrrstöðu sem nýlenda Danakonungs. Einar fæðist að morgni nýrrar aldar þegar fyrirheit um bjartari framtíð og tækniframfarir lágu í loftinu. Hann varð sú persóna í upphafi 20. aldar sem holdgerði þá stóru drauma sem í dag eru Íslendingum sjálfsagður veruleiki. Eftir að hann lauk lagaprófi frá Kaupmannahafnarháskóla1892 kom hann til Íslands og gerðist aðstoðarmaður föður síns í sýslumannsembætti. Einar rak síðar eigin lögmannstofu og var einnig sýslumaður um tíma, auk þess að hefja útgáfu á fyrsta dagblaði á Íslandi, "Dagskrá" árið 1897.

En í huga þjóðarinnar er Einar Benediktsson í raun og veru tveir menn – athafnamaðurinn og skáldið. Athafnamaðurinn Einar flutti til Edinborgar 1907 til þess láta draum sinn um viðreisn íslenskrar þjóðar rætast. Næstu áratugi bjó hann víða erlendis og stofnaði mörg hlutafélög utan um ýmsar ævintýralegar hugmyndir. En þær stærstu lutu að draumi hans um að virkja íslenska fossa til rafmagnsframleiðslu svo efla mætti iðnað á landinu og veita nýju fjámagni inn í landið. Einar var mikið glæsimenni og barst mikið á, höfðinglegur í fasi og hafði magnaða persónutöfra. Margar þjóðsögur hafa spunnist um viðskipti hans við erlenda fjármálamenn; hann á jafnvel að hafa selt einhverjum þeirra bæði jarðskjálftana og norðurljósin! Fyrirætlanir Einars voru löngu á undan samtíð hans og því mættu þær harðri andstöðu heima á Íslandi og engar þeirra komust í framkvæmd.

En íslendingar hafa aldrei snúið baki við skáldum sínum og jafnan hafa framkvæmdamenn og stjórnmálamenn þótt hafa betri málstað ef þeir gátu ort kvæði. Og það gat Einar, með þeim hætti sem engin hefur leikið eftir honum síðan. Kvæði hans mörg þóttu þung og illskiljanleg hans samtíma, en í dag sjáum við hversu stórbrotin hugsun liggur að baki þeim, einlæg og auðmjúk hrifning á fegurð og tign íslenskrar náttúru, virðing fyrir íslenskri tungu og djúp þrá eftir að öðlast skilning á hinu æðra í tilverunni. Heimur skáldskaparins var honum hinn sanni raunveruleiki og þar var hann næstur sjálfum sér.

Fjármálabröltið var honum leikur, sem hann tók þátt í af hugsjón fyrir framtíð íslenskrar þjóðar, en sjálfur bar hann litla virðingu fyrir efnislegum gæðum þótt sjálfsagt hafi enginn íslendingur á þeim tíma haft meira fé milli handa en hann, enginn haft meira umleikis, ferðast víðar eða lifað hærra. Hann tók fullan þátt í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar og á heiðurinn af hvítbláa fánanum sem lengi vel var fyrsta tákn þess að þjóðin væri stigin fram til sjálfstæðrar tilveru.

Hann orti kvæðið “Til fánans”, sem er, ásamt mörgum kvæðum Einars, orðið að sígildu ættjarðarljóði. Íslenski fáninn sem við þekkjum er Hvítbláinn Einars með rauðum krossi til viðbótar, sem bætt var við vegna fornra tengsla Íslands og Danmerkur. Einar Benediktsson lést 1940, þá bæði langveikur og fátækur, í Herdísarvík, litlu bóndabýli við suðurströndina. Hann hvílir í heiðursgrafreit þjóðarinnar á Þingvöllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband